Fréttir

Breytingar á lögreglumenntun

27 mar. 2021

 – Hugleiðingar um þróun náms frá inntöku nemenda og út starfsferilinn

Í júní næstkomandi verða liðin fimm ár síðan Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) var stofnað hjá embætti ríkislögreglustjóra en starfsemin hófst reyndar ekki af fullum krafti fyrr en í janúar 2017 þegar við fengum húsnæði okkar að Krókhálsi. Hlutverk menntasetursins er einkum þríþætt: a) að annast starfsnám lögreglufræðanema; b) að bjóða upp á sér- og símenntunarnámskeið fyrir starfsfólk lögreglu; og c) að annast alþjóðleg samskipti á sviði menntamála lögreglu, m.a. samstarf við Evrópska lögregluskólann (CEPOL), Norrænu lögregluskólana (NORDCOP) og Landamærastofnun Evrópu (FRONTEX).

Háskólamenntun til starfsréttinda

Háskólinn á Akureyri (HA) var valinn af mennta- og menningarmálaráðherra í lok ágúst 2016 til að bjóða upp á nýtt lögreglunám. Aðeins örfáum dögum síðar var fyrsta háskólanámið í lögreglufræðum sett við HA með hátíðlegri athöfn. Verður það að teljast sannarlegt þrekvirki miðað við þennan stutta fyrirvara. Verkaskipting milli HA og Menntasetursins er sú að HA sér um fræðilegt nám og Menntasetrið sér um verklega þjálfun ásamt því að hafa yfirumsjón með starfsþjálfun sem fer fram hjá lögregluembættum landsins. Þróun námsins hefur verið ör síðastliðin ár og að mínu mati hefur stofnun ráðgjafahóps HA og Menntasetursins, sem stofnaður var í desember 2018 eftir að óskað hafði verið eftir fulltrúum lögregluembætta, lögreglufélaga og nemenda hjálpað til við þá þróun. Hópurinn hittist nokkrum sinnum á vinnudögum á árinu 2019 en því miður voru engir fundir árið 2020 vegna Covid. Búast má við að það taki nokkur ár að ljúka þeirri vinnu sem er nú þegar hafin við að samþætta bóklegt og verklegt nám auk þess sem námskráin er í sífelldri þróun. Menntasetrið og HA eru sammála um að vísindalegar rannsóknir og afrakstur þeirra, þ.e. gagnreyndar aðferðir (evidence-based practice), séu leiðarljós framfara á sviði lögreglufræða (police science). Með hugtakinu gagnreyndar aðferðir er verið að vísa til þess að stuðst er við aðferðir sem sýnt hefur verið fram á að virki, þ.e. að rannsóknargögn styðji við aðferðina. Því er ánægjulegt að sjá hversu margir nemendur halda áfram í BA-nám í lögreglu- og löggæslufræðum og velja BA-verkefni sem miða að því að bæta við fyrri þekkingu okkar í lögreglufræðum. 

Árið 2011 skrifuðu Bandaríkjamaðurinn David Weisburd og Englendingurinn Peter Neyroud grein um hvernig hægt væri að byggja upp nýja fræðigrein, lögreglufræði, sem myndi hafa í för með sér byltingarkenndar breytingar á þekkingu (paradigm shift). Árum saman hafði löggæsla og fræðimennska haft litla sem enga tengingu. Nauðsynlegt væri, að þeirra mati, að á þessu yrði breyting. Lögreglunni bæri að hafa frumkvæði að öflun þekkingar með fræðilegum rannsóknum, einkum á tileknum fimm sviðum. Þessi svið  eru 1) menntun og þjálfun; 2) stjórnun; 3) samband akademíu og lögreglu; 4) þróun á starfsaðferðum og 5) fjárfesting í rannsóknum. Í þessum skrifum Weisburd og Neyroud er að finna tækifæri og hvatningu sem ég vona að efli lögreglumenningu þannig að hún styðji við öflun þekkingar á þeim mikilvægu sviðum sem að ofan greinir samhliða aukinni starfshæfni.

Mikill áhugi hefur verið á lögreglufræðináminu og hefur fjöldi umsókna aukist úr u.þ.b. 120 í um 250 á nokkrum árum. Hlutverk Menntasetursins er að velja hæfustu umsækjendurna úr þessum stóra hópi í samstarfi við HA. Til að byrja með var inntökuferlið sambærilegt við það sem tíðkaðist hjá Lögregluskóla ríkisins fyrir utan að frammistaða í þremur námskeiðum fyrstu annar námsins vógu 60% af heildarmati. Matinu hefur verið breytt og vægi námskeiða minnkað. Næsta haust verður enn meiri breyting þegar starfsnám verður aukið úr 24 í 30 ECTS-einingar og nær þá yfir öll fjögur misseri námsins en ekki bara síðustu þrjú eins og verið hefur. Umsækjendur munu því fara í gegnum allt inntökuferlið áður en þeir hefja nám við HA en ekki eftir fyrsta námsmisserið eins og verið hefur. Inntökuferlið verður í tveimur fösum eftir að búið er að leggja mat á hvort umsækjendur uppfylli inntökuskilyrði háskólans og standist bakgrunnsskoðun. Í fyrri fasanum verða þrekpróf, frásagnarverkefni og sálfræðiverkefni. Í seinni fasanum verða viðtöl, samskiptaverkefni og sálfræðiverkefni. Í lokin fara þeir sem til stendur að bjóða pláss í starfsnámi í læknisskoðun. Aðkoma lögregluembættanna að inntökuferlinu hefur verið aukin, enda má segja að þau séu stærstu hagsmunaaðilarnir þar sem lögreglustjórarnir annast ráðningar á útskrifuðum lögreglumönnum. Bæði lögreglumenn og sérfræðingar frá nokkrum lögregluembættum tóku viðtöl við umsækjendur í síðasta inntökuferli og stóðu sig afar vel í því hlutverki. Þá hefur viðtalsramminn verið endurskoðaður með aðkomu starfsfólks lögreglu og með fagþekkingu frá Eyþóri Eðvarðssyni vinnusálfræðingi.

Þróun menntunar lögreglufræðanema felur í sér fleiri áskoranir og er ein sú stærsta að koma því námsefni fyrir í námskrá sem til er ætlast í tveggja ára námi. Hliðstætt úrlausnarefni  er vel þekkt á Norðurlöndunum þrátt fyrir að námið þar sé viðameira (180 ECTS-einingar í stað 120), a.m.k. í Noregi og Finnlandi. Þær kröfur sem samfélagið gerir til lögreglumanna í dag eru mun meiri en áður fyrr. Mikilvægt er að skilgreina kjarnaþætti starfsins og gera áætlun um hvaða þekkingu, færni og leikni diplómanemi í lögreglufræðum eigi að búa yfir við námslok. Einnig þarf að huga að því að gera áætlun um  hvaða færniþætti þarf að þjálfa á fyrstu árum starfsferilsins. Ein leið til að lengja þjálfunartímabil fólks  er að skilgreina fyrstu sex mánuðina í starfi eftir að diplómanámi lýkur sem starfsþjálfunartímabil þar sem viðkomandi starfar undir handleiðslu. Ekki væri því hægt að hljóta skipun í embætti fyrr en að slíku starfsþjálfunartímabili loknu. Slíkt fyrirkomulag þekkist í þjálfun heilbrigðisstarfsmanna og hefur það markmið að veita nýútskrifuðum einstaklingum stuðning. Ljóst er að fyrstu skref nýrra lögreglumanna eru mikilvæg og því þarf að huga að uppbyggingu þekkingar- og færnimódels sem nær yfir allan starfsferilinn. 

Uppbygging námsframboðs fyrir starfsfólk lögreglu

Þrátt fyrir að mikil orka hafi farið í að styðja við nýtt lögreglufræðinám á háskólastigi á fyrstu stigum þess hefur Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu unnið  af krafti síðastliðin fjögur ár við að bjóða upp á bæði styttri námskeið og lengra nám fyrir starfsfólk lögreglu. Frá byrjun árs 2017 jókst námsframboð jafnt og þétt og á árunum 2018 og 2019 voru alla jafna á milli 50 og 60 viðburðir á ári hverju og sóttu þá á milli 1.200 og 1.400 þátttakendur. Námsframboð með lengri námslínum hefur aukist en fyrst var lögð áhersla á grunnnám í rannsóknum sakamála og stjórnun lögreglurannsókna. Síðan hafa bæst við sérnámslínurnar rannsóknir kynferðisbrota, varðstjóranám og nú í ár verður heildstætt landamæranám að veruleika. Þessar námsleiðir eru skipulagðar sem fjarnám með staðlotum fyrir verklega þjálfun og veitir allt námið einingar á háskólastigi þar sem umgjörð og kröfur námsins standast gæðaviðmið háskólasamfélagsins. Þessi þróun stuðlar að auknum gæðum í því námi sem boðið er upp á og er mikilvæg þeim lögreglumönnum sem vilja nýta einingarnar  til BA-prófs í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri.

Starfsemi Menntasetursins skapar vettvang fyrir miðlun þekkingar og treystir því á góðvild lögregluembætta að veita því aðgang að sérfræðingum sínum. Mannauður lögreglunnar er talsverður og þar er mikill vilji til að gera vel. Það eru þó ekki aðeins innlendir sérfræðingar sem hafa lagt okkur lið því talsvert er af erlendum sérfræðingum sem lagt hafa leið sína til Íslands til að miðla gagnreyndum aðferðum. Jafnvel á meðan Covid-ástandið hefur varað hafa þrír erlendir sérfræðingar komið að lengra námi í skýrslutökum af sakborningum, rannsóknum kynferðisbrota og skýrslutökum af brotaþolum í viðkvæmri stöðu. Með því að nýta tæknina og með auknum vilja leiðbeinenda til að prófa rafrænar útfærslur hafa til að mynda námskeið í skýrslutökum verið haldin rafrænt. Það er því ljóst að menntun og þjálfun mun taka einhverjum breytingum inn í framtíðina þótt við höfum ekki alveg sagt skilið við færnimiðaðar staðlotur. 

Í löggæsluáætlun 2019-2023 er sett fram sú framtíðarsýn að lögreglan eigi að búa yfir vel menntuðu, þjálfuðu og samhæfðu lögregluliði sem gegni löggæsluhlutverki sínu í þágu samfélagsins. Tryggja þarf vönduð vinnubrögð lögreglu í samskiptum við almenning,  einkum m.t.t. til hópa í viðkvæmri stöðu. Þá eru skilgreindir sérstakir áhersluflokkar hvað fræðslu varðar: 1) mansal; 2) hatursglæpir; 3) tölvu- og netglæpir (e. cyber crime); 4) nám í landamæravörslu. Áherslur Menntasetursins verða því á þessum sviðum næstu ár samhliða öðrum áherslum sem lögregluembættin telja að þurfa þyki.

Þá vil ég gjarnan vekja athygli ykkar á veffyrirlestrum á vegum CEPOL nú þegar staðbundin námskeið eru ekki í boði sökum Covid. Áhugasamir geta sótt um aðgang að fræðsluneti CEPOL á vef þeirra (sjá tengil á vef Menntasetursins, menntaseturlogreglu.is). 

Framtíðarsýn

Ljóst er að á þessu ári þarf að fara fram nánari þarfagreining á starfsþróun starfsmanna lögreglu þannig að hægt verði að móta framtíðarstefnu fyrir sí- og endurmenntun. Tækifæri hafa skapast með nýjum stofnanasamningum til að skilgreina þá sérmenntun sem þarf fyrir hvern starfaflokk. Stofnaður verður vinnuhópur sem hefur með höndum kortlagningu og framsetningu mats á persónubundnum þáttum vegna viðbótarmenntunar sem nýtist í starfi eða sí- og endurmenntun í kjölfar nýs stofnanasamnings. Heildstæð stefnumörkun er varðar sí- og endurmenntun lögreglumanna mun svo liggja fyrir um mitt ár 2022. 

Almennt gildir að háskólamenntaðar fagstéttir bera ábyrgð á eigin starfsþróun og tækifæri til þekkingaröflunar hafa aldrei verið fleiri. Menntun fer ekki aðeins fram  í formlegu námi. Áður fyrr var aðgengi að þekkingu innan skólabygginga og á bókasöfnum. Stærstu þekkingarveiturnar í dag eru rafrænar. Lærdómssamfélög geta tekið á sig ýmsar myndir og nálgast má þekkingu á veraldarvefnum, s.s. Ted talks, EdX, wiki. Námssamfélög geta því verið drifin áfram af áhuga hvers og eins og þetta kallar á  mikla sjálfsskoðun á hugmyndum okkar um hvernig við lærum í framtíðinni. Hugmyndir okkar um nám hafa mótast mjög af okkar eigin reynslu af því sem hefur gagnast okkur í þeim efnum. Kennsluaðferðir hafa hins vegar þróast og því er eðlilegt að óvissa og óöryggi geri vart við sig um hvernig best sé að miðla þekkingu og tryggja að hæfniviðmiðum sé náð. Símenntun starfsfólks lögreglu mun að mínu mati fara í auknum mæli fram með gagnvirku námi á vefnum með þjálfunarlotum þar sem færni er kennd og hún síðan yfirfærð á starfið. Starfsfólk lögreglu mun ekki eingöngu vera þiggjendur fræðslu, heldur þátttakendur í uppbyggingu þekkingar í gegnum rafrænt bókasafn, wiki-síður og með umræðum. Mín von er sú að við tökum öll virkan þátt í þessum breytingum og mætum þeim með jákvæðni, lausnamiðaðri nálgun og vilja til sköpunar að vopni.

Höf: Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.

Greinin birtist fyrst í Lögreglumanninum, í mars 2021.

Til baka