Betri vinnutími – könnun!
15 apr. 2021
Vaktavinnufólk – takið þátt í að meta betri vinnutíma!
Ert þú búin(n) að taka þátt í könnun vegna styttingar vinnuvikunnar á vaktavinnustöðum sem samið var um í kjarasamningum opinberu stéttarfélaganna vorið 2020? Nú er innleiðing á þessum mestu breytingum á vinnutíma opinberra starfsmanna í áratugi langt komin og skiptir miklu að fylgjast með hvernig til tekst.
Nú þurfum við sem stóðum að þessum samningum, bæði samtök launafólks og opinberir launagreiðendur, þína hjálp. Við stöndum nú fyrir spurningakönnunum meðal vaktavinnufólks þar sem viðhorf til og árangur breytinganna er mældur. Það skiptir miklu að sem flestir þeirra sem eru í vaktavinnu taki þátt í könnuninni til að fanga viðhorf til breytinganna svo hægt sé að meta árangurinn sem best.
Gallup sér um gerð könnunarinnar sem send var fyrr í mánuðinum á vinnunetfang vaktavinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum. Við hvetjum alla sem hafa fengið könnunina til að svara svo við fáum sem nákvæmastar niðurstöður. Það tekur ekki langan tíma að svara könnuninni.
Að könnuninni standa: ASÍ, BHM, BSRB, Fíh, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Ef spurningar vakna má hafa samband við tomas@gallup.is og karl@bsrb.is.