„Ég verð með puttann á púlsinum“
29 apr. 2021
Viðtal við nýjan formann LL, birt í Lögreglumanninum í mars 2021:
Fjölnir Sæmundsson, sem kjörinn var formaður stjórnar Landssambands lögreglumanna í formannskosningu í janúar, er í grunninn félagsfræðingur og kennari. Hann hefur farið á þing og var einn þeirra sem rannsakaði efnahagshrunið. Fjölnir tekur við hlutverkinu að loknu þingi í vor og hefur skýra sýn á það sem hann vill gera.
Fjölnir er fæddur árið 1970 og á þrjár uppkomnar dætur. Eftir að hafa starfað sem kennari og svo skólastjóri í Fljótshlíð hóf hann störf við afleysingar hjá lögreglunni á Hvolsvelli. Eftir fimm ár í afleysingum fór hann í Lögregluskólann, árið 2005.
Að námi loknu starfaði Fjölnir sem lögreglumaður í Hafnarfirði, fyrir sameiningu embættanna, en gekk síðar til liðs við rannsóknardeildina í Reykjavík. Árið 2007, skömmu fyrir hrun, fór hann yfir í efnahagsbrotadeildina. Í hruninu var hann svo lánaður – eins og hann kemst sjálfur að orði – til sérstaks saksóknara.
Rannsakaði hrunið
Hjá embættinu gekk mikið á, enda gegndi sérstakur saksóknari lykilhlutverki í samfélaginu á árunum eftir hrun. „Maður drap sig næstum því af vinnuálagi. Ég upplifði að maður væri með þjóðina á bakinu og að maður þyrfti einfaldlega að leysa bankahrunið,“ segir Fjölnir þegar hann hugsar til baka. Hann vann langar stundir fyrir embættið og svaf stundum bókstaflega með rannsóknargögnin á náttborðinu.
Hann er ánægður með hverju sérstökum saksóknara tókst að áorka á þessum tíma. Hópur starfsmanna hafi verið þéttur og samstaðan mikil en embættið varð síðan að Héraðssaksóknara. Þetta var honum mikil og góð reynsla.
Pressað á hann frá 2012
Fjölnir segir aðspurður að pressað hafi verið á hann frá árinu 2012 að gefa kost á sér til starfa fyrir Landssamband lögreglumanna. Hann segist fyrst um sinn hafa viljað bíða þess að núverandi formaður stigi til hliðar. Þegar þrýstingurinn hafi aukist, í aðdraganda kjörsins að þessu sinni, hafi hann ákveðið að láta slag standa. Hann er afar ánægður með það traust sem honum hefur verið sýnt og þykir vænt um stuðninginn „þrátt fyrir“ að hann sé varaþingmaður fyrir Vinstri græna. „Ég hef farið inn á þing fyrir Vinstri græna og þá alltaf rætt mál sem tengjast lögreglunni – meðal annars vakið athygli á uppsöfnuðum málafjölda lögreglumanna.“
Fjölnir hefur áhuga á félagsmálum og bæjarstjórnarpólitík og hefur setið í kjörstjórnum. Hann er fæddur og uppalinn í Kópavogi og hóf búskap sinn í Hafnarfirði. Þegar stúlkurnar hans þrjár voru ungar ákváðu þau hjónin að venda kvæði sínu í kross og flytja í Fljótshlíð. Þau bjuggu svo um hríð í Hafnarfirði en eru flutt aftur austur og una hag sínum vel, þótt nú séu þau aðeins tvö í koti. Börnin eru flogin en Fjölnir á þrjú barnabörn.
Verður ekki framkvæmdastjóri
Fjölnir hlaut þrjá fjórðu hluta atkvæða þegar hann bauð sig fram gegn fráfarandi formanni, Snorra Magnússyni, fyrr í vetur, en Snorri hefur setið frá 2008.
Í aðdraganda kosninganna lagði Fjölnir áherslu á fá en skýr atriði sem hann vill breyta í formannstíð sinni. Eitt af þeim atriðum er að ráðinn verði framkvæmdastjóri á skrifstofu landssambandsins en Snorri hefur sjálfur gegnt starfi framkvæmdastjóra á sinni tíð. Því vill Fjölnir breyta og lofaði í kosningabaráttunni að það yrði hans fyrsta verk, að ráða framkvæmdastjóra á skrifstofuna. Hann sér þess vegna fyrir sér að verða áfram starfandi varðstjóri á Hvolsvelli en vinna formannsstörfin sem aukastarf. Það hljóti að vera kostur að formaður stéttarfélags lögreglumanna sé starfandi lögreglumaður. Þess má geta að kjörtímabilið nær til ársins 2024.
Efasemdir um styttingu
Stytting vinnuviku vaktavinnufólks tekur gildi 1. maí. Fjölnir hefur ákveðnar efasemdir um að þau áform muni ganga upp, sérstaklega hjá lögreglumönnum á landsbyggðinni, sem hann hugsar mikið til. „Við sem erum hér á Suðurlandi í 12 tíma-kerfinu sjáum fram á að þurfa jafnvel að vinna meira. Launin okkar eru svo mikið byggð upp á greiðslum fyrir álag og það mun lækka með styttingu vinnuvikunnar. Þeir sem ekki ganga næturvaktir fá ekki fullan vaktahvata. Í dag vinn ég 15 vaktir í mánuði. Ef ég fer í 8 tíma kerfi þá fer ég í 18-19 vaktir í mánuði og vinn þrjár helgar í stað tveggja.“
Hann óttast að ríkið muni ekki bæta lögreglunni það „mönnunargat“ sem blasir við. „Það þyrfti að fjölga lögreglumönnum um eitt hundrað til að stoppa í gatið.“
Stofnanasamningurinn góður grunnur
Vinnu við nýjan stofnanasamning lögreglunnar lauk í janúar. Samningurinn kveður á um grundvallarformbreytingu á launa- og starfsumhverfi lögreglumanna. Launaþróun á að verða gegnsærri auk þess sem samningurinn leggur grunn að heildstæðu starfsferilskerfi þar sem tekið er mið af miðlægri starfsþróun, sí- og endurmenntun lögreglunnar.
Fjölnir telur að samningurinn, samhliða því að lögreglumenn fengu nýja launatöflu, sé góður grunnur að byggja á til að hækka laun lögreglumanna. „Ég held að flestir geti fengið ágætar hækkanir í gegnum hann.“ Hann bendir á að tíma muni taka að innleiða mismunandi skref í samningnum, svo sem að starfsmenn ræði við yfirmenn sína um að fá umbun fyrir ákveðin aukastörf eða menntun. „Ég held að svona samningur hafi verið mjög nauðsynlegur fyrir jákvæða launaþróun lögreglumanna og geti verið hvatning fyrir marga að sækja sér aukna menntun og þekkingu.“
Góð kjarabót
Nýr kjarasamningur við lögreglumenn var undirritaður í september. Hann var samþykktur með 59% greiddra atkvæða. Fjölnir var einn þeirra sem samþykktu samninginn. Hann bendir á að í samningnum felist mjög góð kjarabót fyrir lögreglumenn. Lágmarkshækkun sé 4% en margir hækki meira. „Ég tel að það séu tækifæri í þessum samningi. Kostirnir eru í það minnsta fleiri en gallarnir,“ útskýrir hann.
Fjarnám henti lögreglu illa
Lögreglunám var fært inn í Háskólann á Akureyri haustið 2016. Um leið voru miklar breytingar gerðar á náminu. Fræðilegur þáttur þess er mun veigameiri en áður. Fjölnir er hlynntur því að námið sé á háskólastigi en segir það illa ganga upp að lögreglunám sé að stórum hluta kennt í fjarnámi. „Ég hefði viljað sjá þetta nám þróast innan Menntaseturs lögreglunnar,“ segir hann. „Ég vil að lögreglunámið sé á háskólastigi en í mínum huga ætti að vera sérstakur lögregluskóli sem einhver háskólanna kæmi að, eða ábyrgðist. Ég tel farsælla að lögreglan haldi utan um þetta sjálf. Það er mjög mikilvægt að lögreglumenn kenni sum fögin og sum einfaldlega verður að kenna í staðarnámi.“
Fjölnir sem formaður
Nýr formaður tekur eins og áður segir við hjá Landssambandi lögreglumanna í vor. Ekki stendur á Fjölni þegar hann er spurður hvernig formaður hann vilji vera. „Ég vil vera ötull talsmaður lögreglumanna og virkur í samfélagslegri umræðu sem slíkur,“ svarar hann.
Duglegur að svara í símann
Hann segist vilja leggja áherslu á að bæta ímynd lögreglumanna út á við og segir hvimleitt að störf lögreglumanna rati aðeins í fréttir þegar ásakanir koma fram um harðræði þeirra í starfi. Lögreglan eigi erfitt með að svara fyrir sig, vegna þagnarskyldu. „En formaður landssambandsins getur svarað fyrir lögreglumenn sem einstaklinga og talað þeirra máli út á við,“ útskýrir Fjölnir. Hann vill tala um aðbúnað þeirra, tryggingar og áskoranir sem þeir standa frammi fyrir á degi hverjum.
Hann bendir líka á að hlutverk formanns sé að koma að gerð kjarasamninga og réttindamála ýmiss konar. Hann búi að fagþekkingu sem muni nýtast í þeim verkefnum, verandi með bakgrunn úr félagsmálum. „Ég mun kappkosta að vera duglegur að svara í símann og tala við fólk. Sem starfandi lögreglumaður verð ég með puttann á púlsinum,“ segir hann að lokum.