Fréttir

Ávarp frá nýjum formanni á baráttudegi launafólks

1 maí. 2021

Fjölnir Sæmundsson, nýr formaður Landssambands lögreglumanna, sendi félagsmönnum ávarp í dag, á baráttudegi launafólks. Ávarpið er einnig birt hér að neðan.

Kæru félagar

Til hamingju með daginn. Í dag á frídegi verkalýðsins er gott að við minnum okkur á að þrátt fyrir að við séum embættismenn, þá erum við fyrst og fremst launafólk sem hefur þurft að berjast fyrir þeim kjörum og réttindum sem við höfum og að sú barátta heldur áfram. Mikilvægi okkar stéttar sýnir sig vel á degi eins og 1.maí þar sem meirihluti launafólks fær frí en fjöldi lögreglumann þarf að vera við störf.  Þó svo að stutt sé síðan við undirrituðum nýjan kjarasamning þá er enn nokkur óvissa um kjör okkar næstu misseri. Bæði vegna þess að breytingar stofnannasamnings eru ekki að fullu komnar til framkvæmda og vegna styttri vinnutíma vaktavinnufólks. Ég er þess fullviss að stofnanasamningurinn mun bæta kjör okkar enn frekar og vil nota þetta tækifæri til þess að minna alla á að fylla út könnun um starfagreiningu sem er ein af forsendum þess að móta nýja stofnanasamninginn. Styttingin á vinnutíma lögreglumanna í vaktavinnu veldur mér þó vissum áhyggjum. Ljóst er að þessar breytingar geta haft í för með sér lækkun á heildarlaunum margar lögreglumanna þó  sérstaklega á landsbyggðinni. Þau nýju vaktkerfi sem í dag taka gildi geta líka víða þýtt miklar sveiflur á heildarlaunum milli mánaða.  Við þurfum því öll í sameiningu að vera á varðbergi gagnvart áhrifum þessara breytingu á kjör okkar og réttindi. Samstaða okkar er mjög mikilvæg til þess að standa vörð um okkar kjör og því er mikilvægt þegar við sjáum í raun hvernig þessar breytingar heppnast að miðlið upplýsingum til Landssambandsins og okkar á milli.

Mér fannst við hæfi að senda ykkur þessa stuttu brýningu á þessum baráttudegi launafólks og minna á að því megum aldrei slaka á í baráttunni fyrir betra samfélagi.

Nú fyrir nokkrum dögum tók við ný stjórn LL og ég vil fyrir hönd hennar segja, að við sem hana skipum heitum því að standa vörð um réttindi okkar og kjör. Samstaða okkar er lykillinn að bætum lífskjörum.

Baráttukveðjur,

Fjölnir Sæmundsson, formaður LL.

Til baka