Fréttir

Formaður ver lögreglumenn í fjölmiðlum

2 júl. 2021

Fjölnir Sæmundsson, formaður LL, hefur komið lögreglumönnum til varnar í fréttum á hinum ýmsu fréttamiðlum í liðinni viku. Á Vísi í gær, fimmtudag, brást Fjölnir við ummælum þingmannsins Brynjars Níelssonar.

Brynjar hafði fjallað um störf lögreglumanna sem fóru í útkall í Ásmundarsal í desember, þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á meðal gesta, og sóttvarnalög voru brotin. Hann sakaði umrædda lögreglumenn um fordóma í garð Sjálfstæðismanna vegna þess að á upptöku búkmyndavélar heyrðist einn þeirra tala um „framapotara“ í flokknum, í samtali við annan lögrelgumann. Þá gerði Brynjar að því skóna að lögreglan hefði verið að leyna sönnunargögnum í málinu.

Fjölnir gaf lítið fyrir málflutning Brynjars og kvaðst þess fullviss að innan lögreglunnar væri ekki átt við sönnunargögn. Þá benti hann á að lögreglumenn hefðu ekki farið á staðinn að eigin frumkvæði heldur hefðu þeir verið að sinna útkalli vegna brots á sóttvarnareglum. Málið sýni frekar að lögreglumenn telji alla jafna fyrir lögum og grípi í taumana sama hver eigi í hlut.

Fyrr í vikunni hafði Fjölnir lýst því yfir að til skoðunar væri að fá úr því skorið hvort einkasamtöl lögreglumanna, sem tekin séu upp á búkmyndavélar, teldust til gagna sem ætti að afhenda þegar störf lögreglu væri til rannsóknar. Nefnd um eftirlit með störf lögreglu ákvað fyrr í mánuðinum að senda erindi tengt Ásmundarsafnsmálinu til meðferðar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

„Þessar myndavélar eru öryggistæki og eiga fyrst og fremst að vera notaðar sem öryggistæki lögreglumanna og borgaranna, ef eitthvað stórt kemur upp á, að geta upplýst málin þannig. En ekki til að fylgjast með persónuhögum lögreglumanna og hugsunum þeirra,“ var haft eftir Fjölni.

RÚV, MBL, DV og fleiri fjölmiðlar hafa einni fjallað um málið.

Til baka