Fréttir

Ritað undir samstarf við ríkislögreglustjóra

23 sep. 2021

Landssamband lögreglumanna og embætti ríkislögreglustjóra munu í dag, 23. september klukkan 14 í húsnæði ríkislögreglustjóra, skrifa undir samstarfsyfirlýsingu. Hún snýr að verkefnum sem lúta að andlegri líðan lögreglumanna.

Markmið samstarfsins er að stuðla að betri heilsu og aukinni vellíðan lögreglumanna; fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall þeirra af vinnumarkaði.

Skipuð verður sameiginleg verkefnastjórn með fulltrúum frá öllum lögregluembættum. Stjórn Landssambands lögreglumanna ákvað á vormánuðum, í kjölfar umræðu um líðan lögreglumanna og háa sjálfsvígstíðni þeirra, að nauðsynlegt væri að ráðast í átak til að virkja lögreglumenn í því að nota þá þjónustu sem stendur þeim til boða.

Það er þess vegna mikið ánægjuefni að embætti ríkislögreglustjóra vilji eiga þetta samtarf við landssambandið um þessi mál. Undirritaður telur að þetta samstarfsátak muni skila góðum árangri fyrir lögreglumenn og hafa jákvæð áhrif á störf þeirra og einkalíf.

Fjölnir Sæmundsson, formaður LL.

Til baka