Fréttir

Hættur í starfi og aukið álag

8 okt. 2021

Fjölnir Sæmundsson skrifar:

Í sumar vorum við lögreglumenn minntir á að við vinnum lífshættulegt starf. Lögreglumenn hafa staðið frammi fyrir hættu á að þeir örkumlist eða látist við skyldustörf. Ég þori að fullyrða að engin önnur stétt á Íslandi stendur frammi fyrir því að morgni að slíkur möguleiki sé raunverulega fyrir hendi þann daginn.

Við lögreglumenn höfum áratugum saman talið að starf okkar sé ekki metið að verðleikum; að ekki sé hlustað þegar við lýsum því hversu hættulegt starfið er. Við búum ekki bara við líkamlega ógn heldur er andlegri heilsu okkar einnig hætta búin. Þótt það hafi sína kosti að fást við ólík verkefni í vinnu þá er falið í því mikið álag að vita aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér. Að þurfa alltaf að búast við einhverju óvæntu eða ógnvænlegu.
Í heimildamyndinni Þögul tár, sem sýnd var nýlega, kom fram að annað hvert ár, að meðaltali, sviptir lögreglumaður á Íslandi sig lífi. Þessi staðreynd er skelfileg en því miður ekki alveg ókunn okkur lögreglumönnum. Við vitum líka, starfa okkar vegna, að allar líkur eru á því að sjálfsvíg á Íslandi séu vanskráð. Oft er ekki hægt að fullyrða með vissu um orsakir slysa og óhappa. Að þessu viðbættu eru til fjölmargar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að þeir sem starfa við löggæslu lifa skemur eftir að starfsævi þeirra líkur. Það er því óhætt að segja að við sem stétt séum í bráðri hættu hvað heilsu okkar varðar allt frá því við hefjum störf í lögreglunni.

Því miður eykst álag á lögreglumenn stöðugt. Í dag sætir meirihluti lögreglumanna stöðugt myndbandsupptökum við störf sín; ýmist í myndavélabúnaði lögreglunnar eða farsímamyndavélum almennings. Rannsóknir og kvartanir á störfum lögreglunnar virðast aukast með hverju árinu og náðu kannski ákveðnum lágpunkti í lok síðasta árs þegar rannsókn fór að beinast að einkasamtali lögreglumanna en ekki sakamálinu sem var verið að vinna að. Þetta stöðuga eftirlit er auðvitað áhrifaþáttur þegar kemur að vaxandi álagi.

Lögreglumenn þekkja líka að kulnun í starfi er algengt vandamál okkar raða, sérstaklega á seinni hluta starfsævinnar. Í síðustu kjarasamningum ríkis og opinberra starfsmanna var samið um styttri vinnuviku. Markmiðið með þessari styttingu á meðal annars að vera að bæta heilsu fólks og auka gæði fjölskyldulífs. Mér er sagt að þessi stytting hafi komið vel út hjá sumum hópum og þá einkum hjá fólki í dagvinnu. Samtöl mín við lögreglumenn í vaktavinnu víða um landið sýna hins vegar að sú er ekki endilega raunin hjá öllum í okkar stétt. Enn hefur aukið á álagið víðast hvar á landinu. Margir lögreglumenn upplifa ekki bara minni frítíma heldur líka lægri laun.

Það sem ekki síður hefur aukið á álagið er að bæði hefur lögreglumönnum á vakt fækkað og fjöldi ófaglærðra lögreglumanna hefur aukist. Ég ætla ekki að tala niður félaga okkar sem ekki eru lærðir lögreglumenn en staðreyndin er sú að þessi staða eykur mjög ábyrgð og þar með álag á þeim sem eru lærðir. Mín skoðun er að við sem sérfræðistétt, þar sem lögreglunám er komið á háskólastig, ættum ekki frekar en aðrar sérfræðistéttir að sætta okkur við að ófaglært fólk vinni okkar störf.

Þó svo hærri mánaðarlaun komi ekki í stað þeirrar heilsu- og lífsógnar sem við búum við, þá felst í hækkun launa viðurkenning á mikilvægi starfsins. Það dregur líka verulega úr álagi að þurfa ekki, til viðbótar við álag í starfi, að hafa áhyggjur af framfærslu fjölskyldu sinnar.

Landssamband lögreglumanna og ríkislögreglustjóri hafa nú tekið höndum saman og hafið vinnu þar sem huga á betur að andlegri heilsu lögreglumanna. Þrátt fyrir að ýmis fagleg aðstoð hafi verið í boði fyrir lögreglumenn undanfarin ár þá virðist því miður hafa verið misbrestur á því að nægjanlega margir lögreglumenn hafi nýtt sér þá þjónustu. Úr því þurfum við að bæta. Með þessu samstarfsverkefni á að finna bestu leiðirnar að því marki að við sem stétt nýtum okkur öll þau tæki sem í boði eru til að bæta heilsu okkar, svo við getum bæði notið starfsævinnar og ekki síður lífeyrisáranna. Ég vil hvetja alla lögreglumenn til þess að nýta sér þá þjónustu sem í boði verður.

Lögreglumenn stjórni lögreglunni

Hver á að stjórna lögreglunni? Eru það lögreglumenn sjálfir eða önnur háskólastétt? Undanfarna áratugi hefur þróunin verið sú að hlutfall lögreglumanna sem hefur háskólamenntun að baki verður sífellt hærra. Margir hafa menntað sig á háskólastigi þegar þeir hefja störf innan lögreglunnar og drjúgur hluti bætir við sig sérhæfðu námi samhliða vinnu, til að auka færni sína og fjölga tækifærum.

Frá árinu 2016 hefur nám í lögreglufræðum verið kennt á háskólastigi. Það er því mjög sanngjörn og eðlileg spurning að spyrja hvers vegna það eru ekki lögreglumenn sem skipa embætti lögreglustjóra – og stjórna lögreglunni.

Í 28. grein lögreglulaga er fjallað um hæfisskilyrði lögreglustjóra. Þar segir meðal annars að lögreglustjóri þurfi að hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt.

Sá tími að nauðsynlegt sé að vera lögfræðimenntaður til þess að gegna starfi lögreglustjóra ætti að vera liðinn. Þetta er arfur frá þeim tíma þegar sýslumenn ákærðu fólk og jafnvel dæmdu. Í dag eru þessir þættir hverfandi í starfi lögreglustjóra; fæstir lögreglustjórar skrifa ákærur eða fara í dómsali.

Þróunin hefur verið sú að með lögreglu starfa ýmsir sérfræðingar sem menntaðir eru á öðrum sviðum en í löggæslu eða lögfræði. Vissulega gefa lögregluembætti enn út ákærur og sektir í mörgum málum og ekki ber að gera lítið úr því hlutverki starfseminnar. Það er þess vegna nauðsynlegt að hafa lögfræðinga innan vébanda lögreglunnar. Staðreyndin er þó sú að stærstur hluti af starfi lögregluembætta snýst um annað.

Lögreglan er að stórum hluta rannsóknar- og þjónustustofnun sem dags daglega aðstoðar borgara landsins í leik og starfi. Í öllum stærri sakamálum sem lögregla rannsakar gefur embætti héraðssaksóknara út ákærur. Í lögfræðinámi er ekki kennt nema lítið brot af því sem starfsemi lögreglunnar snýst um. Þar er heldur ekki kennd stjórnun, skipulag leitar, sálfræði eða rannsóknir. Lögreglumenn sem háskólastétt eiga því ekki lengur að sætta sig við að önnur háskólastétt, sem hefur enga sérstaka menntun til þess, stjórni lögreglunni.

Þegar auglýst var eftir nýjum ríkislögreglustjóra árið 2020 lét vel menntaður og hæfur lögreglumaður með áratuga reynslu reyna á áðurnefnt ákvæði um hæfisskilyrði lögreglustjóra. Hann var ekki metinn hæfur en lögfræðimenntaður einstaklingur með mun minni reynslu í löggæslu var metinn hæfur. Umsókn hans vakti marga til umhugsunar um hverjir væru hæfastir til að stýra lögreglunni.

Í þessu samhengi ber þó að taka fram að í dag eru við störf tveir lögreglustjórar sem eru menntaðir lögreglumenn og hafa langa reynslu af því að starfa í lögreglu. Það er afar ánægjulegt. Krafa okkar á að vera að hæfisskilyrðum til að starfa sem lögreglustjóri verði breytt. Skilyrða ætti menntun og reynslu sem lögreglumaður fyrir ráðningu í starf lögreglustjóra. Við lögreglumenn erum sekir um að standa ekki nógu vel á okkar réttindum hvað þetta varðar.

Árið 2007, þegar lögregluembættum var fækkað, var það sett inn í lögreglulög að við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum mætti ráða aðstoðarlögreglustjóra sem ekki væru með próf í lögfræði. Í mörg ár var lögreglumaður í slíkri stöðu en þegar hann hætti störfum stóðum við sem stétt ekki vörð um það að annar lögreglumaður yrði ráðinn í hans stað. Í dag eru staðgenglar lögreglustjóra í öllum embættum saksóknarfulltrúar en ekki lögreglumenn, eins réttast væri. Lögreglumenn eru sérfræðingar og fagmenn á sínu sviði og eiga því ekki lengur að sætta sig við annað en að þeir sjálfir stýri skipulagi og uppbyggingu lögreglunnar. Við eigum að sýna stéttarvitund og standa betur vörð um okkar hagsmuni.

Við eigum heldur ekki að sætta okkur við að ófaglærðir lögreglumenn séu stór hluti starfandi lögreglumanna, ekki frekar en aðrar stéttir. Sækja þarf um sérstaka undanþágu til Menntamálaráðuneytis til þess að ráða ófaglærða manneskju til að kenna. Gerð er sú krafa að einstaklingurinn búi yfir einhvers konar þekkingu til að geta starfað sem leiðbeinandi við kennslu. Engin slík skilyrði eru viðhöfð þegar fólk er ráðið til lögreglustarfa sem sýnir okkur hversu lítil virðing er borin fyrir sérfræðiþekkingu okkar og menntun. Til þess að þetta megi breytast þarf að stórefla lögreglunám og fjölga þeim sem hafa tækifæri til að stunda það.

Það er vel þekkt að skortur er á lögreglumönnum. Sú staðreynd er hins vegar ekki vandamál stéttarinnar heldur stjórnvalda sem verða að hlúa betur að lögreglumönnum; námi þeirra og starfsskilyrðum til þess að fleiri haldist í starfi. Það er kominn tími til að við lögreglumenn tökum sjálfir yfir stjórn á okkar starfsumhverfi og málefnum. Það erum við sem erum sérfræðingarnir.

Greinin birtist fyrst í Lögreglumanninum sem kom út 8. október 2021.

Til baka