Fréttir

Streita í störfum lögreglu hefur áhrif á fjölskyldur þeirra

18 okt. 2021

Eftir Ingveldi E. Össurardóttur, nema í félagsráðgjöf við HÍ – Greinin birtist fyrst í Lögreglumanninum í október 2021:

Störfum lögreglu fylgir álag og streita, einkum hjá þeim sem árum saman sinna útköllum. Hún hefur ekki aðeins áhrif á lögreglumennina sjálfa heldur einnig nánasta umhverfi, maka, börn og stundum vini. Lögreglumenn í hjónabandi eða sambúð finna fyrir meiri streitu en hinir þar sem meiri líkur eru á árekstri við fjölskyldulíf hjá þeim (1). Margir makar upplifa mikla vaktavinnu lögreglumanna sem mikið álag á fjölskylduna.

Í grein þessari nota ég orðið „lögreglumaður“ fyrir bæði kyn innan stéttarinnar. Greinin er unnin í samvinnu við Ríkislögreglustjóra og hluti af sumarverkefni mínu hjá embættinu 2021.

„Afbrýðisama hjákonan”

Ein af fyrstu rannsóknum á áhrifum lögreglustarfsins á hjónabönd var birt árið 1977 en þar var starfinu lýst sem „afbrýðisamri hjákonu” (2). Rannsóknin leiddi í ljós hættuna á togstreitu milli vinnu og einkalífs en svipuð áhrif virðast koma fram meðal starfsgreina sem byggja á mikilli vaktavinnu. Í rannsókn sem gerð var áratug síðar kom fram að 75% maka töldu að starfið væri lögreglumönnum mikilvægara en fjölskyldan (3). Þegar 400 lögreglumakar (98% eiginkonur) voru spurðir taldi meira en helmingur (54%) að vinnutengd streita hefði einhver áhrif á sambandið; 9% sögðu áhrifin „mjög mikil“ og 6% að vinnutengd streita væri oft tekin út á fjölskyldunni (4). Í nýlegri rannsókn taldi þriðjungur maka að vinnutengd streita bitnaði á fjölskyldunni (5).

Í erlendum rannsóknum kemur fram að árekstrar vegna mikillar vaktavinnu og útkalla er áberandi streituvaldur gagnvart fjölskyldunni. Makar og börn upplifa mikið álag þegar lögreglumaður, móðir eða faðir, þarf oft að hætta við frí með litlum fyrirvara, er kallaður á aukavakt,  eða í skyndileg verkefni utan hefðbundins vinnutíma. Starfið getur oft rekist á samverustundir eins og kvöldmat, sunnudagskaffi eða  skipulagða viðburði, s.s. sumarfrí, hátíðardaga, afmæli eða útskriftir (6). Þannig samvera er mikilvæg í lífi allra í fjölskyldunni, ekki síst barna, og missir þeirra leiðir til að fjölskylduböndin verða ótraustari.

Hvað með Ísland?

Engar kannanir hafa verið gerðar á því á Íslandi hvort og hve mikil streituáhrifin eru á fjölskyldur lögreglumanna. Þó má telja víst að þau séu til staðar hér, líkt og erlendis, þar sem kannanir hafa sýnt að streita er vandamál innan íslensku lögreglunnar.

Könnun Ríkislögreglustjóra frá 2008 benti þannig til þess að tíundi hver lögreglumaður væri þjakaður af streitu, þunglyndi eða kvíða. Niðurstaðan benti til að sálrænna úrræða væri þörf hjá allt að 70 manns á hverju ári (7). Rannsókn árið 2014 og 2015 á upplifun lögreglumanna á eigin líðan hneig í sömu átt (8). Þriðja rannsóknin leiddi í ljós að allt að 15% lögreglumanna sýna merki um áfallastreituröskun (9). Í lokaverkefni í löggæslunámi við Háskólann á Akureyri töldu þrír starfandi lögreglumenn að leiða mætti líkur að því að streita væri útbreidd meðal íslenskra starfssystkina. Í könnun sem þeir gerðu meðal fámennra lögregluliða mældist þó streituskor ívið minna en hjá nokkrum evrópskum lögreglusveitum (3,5 vs. 5,43, PSS-4 prófið) (10).

Í samtölum við íslenska lögreglukarla um vinnustaðamenningu upplifðu sumir togstreitu milli einkalífs og starfsins. Þeim fannst einnig gæta þess viðhorfs hjá yfirmönnum að þeir ættu að vera „100% löggur” og forgangsraða með tilliti til vinnunnar. Sömu einstaklingum fannst erfitt að hafna aukavinnu þótt hún stangaðist á við fjölskyldulífið (11). Í fyrrnefndri könnun lögreglumannanna þriggja við Háskólann á Akureyri kom þó fram að mikill meirihluti, eða 74%, upplifði ekki árekstra milli einkalífs og starfsins, heldur taldi að vel gengi, eða mjög vel, að sameina hvort tveggja. Könnunin var ekki kyngreind (10).

Óttinn við háskann

Í lífi maka og barna lögreglumanns er algengt að undirliggjandi kvíða gæti vegna áhættunnar sem fylgir lögreglustarfinu. Það er ekki að ástæðulausu. Í könnun Félagsvísindastofnunar (2004) sögðust 43%  lögreglumanna hafa orðið fyrir ofbeldi við störf síðustu fimm árin. Í 15% tilvika leiddi ofbeldið til stórvægilegra eymsla; um 5% höfðu hlotið alvarlegan áverka og 1% líkamlega fötlun (12). Ofbeldi gegn lögreglu virðist síst í rénum. Á árunum 2005  ̶ 2015 tífölduðust tilkynningar um slys á lögreglumönnum til Vinnueftirlitsins. Sé rýnt í gögnin virðast áverkarnir einkum vera vegna ofbeldis gagnvart þeim í starfi. Til marks um háskann sem fylgir starfinu sýna gögn Vinnueftirlitsins að ríflega tífalt fleiri lögreglumenn verða fyrir slysi í vinnunni en starfsmenn í byggingariðnaði (13).

Makar og fjölskyldur búa líka við annars konar ógn sem í sumum tilvikum getur valdið mikilli streitu hjá maka, og stundum öðrum í nánasta hring fjölskyldunnar. Í fyrrnefndri könnun Félagsvísindastofnunar kom fram að  70% lögreglumanna sæta hótunum um líkamsmeiðingar. Meirihluti hótana af þessu tagi beinist þó ekki að þeim sjálfum, heldur fjölskyldum þeirra, einkum börnum. Þriðjungur slíkra ógna er settur fram þegar lögreglumaður er utan skyldustarfa sem í sumum tilvikum getur verið vísbending um einbeittan ásetning. Í varúðarskyni er því óhjákvæmilegt við sumar aðstæður að upplýsa fjölskylduna, a.m.k. makann, um hótunina. Fátt er jafnlíklegt til að skapa hjá honum streitu eins og mögulegar misþyrmingar á börnum þeirra, eða þeim sjálfum.

Erlendar rannsóknir benda til þess að andúð almennings á lögreglunni valdi oft miklu og langvarandi álagi á fjölskyldur lögreglumanna og er talin meðal helstu streituvalda í lífi þeirra. Að þessu leyti eru fjölskyldur lögreglumanna hér á landi í betri stöðu þar sem  íslenska lögreglan er vel þokkuð af þorra almennings sem telur að hún vinni störf sín vel (14). Því má ætla að þetta gæti skýrt að einhverju leyti hvers vegna streita lögreglu hér á landi hefur mælst minni en erlendis.

“Tough-guy”-heilkennið

Við hættulegar aðstæður, fjöldastjórnun eða þar sem skerst í odda, er mikilvægt að lögreglumenn sýni að þeir hafi stjórn á atburðarás.  Eðli starfsins er því að  tileinka sér fas og stjórnlynda háttsemi sem undirstrikar samfélagslegt vald lögreglunnar. Sumum lögreglumönnum  reynist erfitt að skipta um gír utan vinnu, og eru alltaf „í löggugírnum”. Makinn upplifir persónubreytingu, sem með tímanum getur leitt til árekstra innan fjölskyldunnar (5), ýmist við makann eða unglinga á viðkvæmum aldri. Stundum byggir þetta upp gagnkvæma reiði, sem í verstu tilvikum brýst út í heimilisofbeldi (15).

Í einlitu karlasamfélagi, eins og átti við lögregluna áður fyrr,  speglast „tough-guy” heilkennið líka í því að löngum var það álitið veikleikamerki að leita sér aðstoðar við úrvinnslu tilfinninga eftir alvarlega vinnutengda atburði (16). Vinnukúltúrinn hefur búið til staðalímynd hjá báðum kynjum um að harka af sér og sýna hvergi bilbug. Í nýlegri heimildarmynd um sjálfsvíg innan íslenska lögregluliðsins (17) sagði langreyndur lögreglumaður til dæmis að enn væri tekið til marks um vanmátt að viðurkenna veikleika á örlagastundum. 

Lögreglan stendur hins vegar oft andspænis alvarlegum atburðum sem geta reynt mjög á andlegt og tilfinningalegt þrek. Hún er fyrst á vettvang alvarlegra slysa, heimilisofbeldis og sjálfsvíga, sem stundum varða börn eða unglinga. Meðal þungbærustu streituvalda eru afskipti af svæsnu ofbeldi gegn börnum. Ef lögreglumaður sem ítrekað á ferlinum stendur frammi fyrir voveiflegum atburðum byrgir tilfinningar sínar inni og leitar ekki stuðningsúrræða getur það haft veruleg og margvísleg streituáhrif innan heimilis, einkum á makann, sem í ljósi rannsókna má ætla að oft lendi í hlutverki áfallaráðgjafans (16).

Nýmæli, sem felst í sérstökum „viðrunarfundum” innan lögreglunnar í kjölfar alvarlegra atburða er mikilvægt skref til að breyta þessum viðhorfum. Tölur um þá sem nýta sér sálfræðiþjónustu á vegum lögreglunnar benda til þess að vinnumenningin sé farin að viðurkenna þær áskoranir sem starfinu fylgja (18).

Streituáhrif á börnin

Litlar beinar rannsóknir á börnum hafa verið gerðar á áhrifum af streitu sem tengist starfi lögregluforeldris. Þau dylja oft tilfinningaólgu sem skapast í kjölfar erfiðleika foreldris, beinlínis til að auka ekki álagið á það. Í bandarískum skýrslum um vinnutengd streituáhrif á börn lögreglumanna er bent á að í  alvarlegum tilvikum  áfallastreitu þar sem foreldrið glímir við mikla erfiðleika geta streitueinkennin yfirfærst á barnið (19). Streitueinkennin geta birst í ofvirkni, auknum gráti, námsörðugleikum í skóla, missi svefns og matarlystar, og leitt til átröskunarsjúkdóma (20). 

Börn, líkt og makar, búa oft við kvíða vegna hættunnar sem tengist starfi pabba eða mömmu. Þótt foreldrar geri sér far um að draga úr henni í samtölum eru börn stöðugt minnt á hana gegnum fréttir fjölmiðla og afþreyingarefni, til dæmis tölvuleiki sem stundum byggjast á ofbeldistengdu lögregluefni. Til barna lögreglumanna eru oft gerðar aðrar hegðunarkröfur en annarra barna, bæði heima og í skóla. Sum svara því með einhvers konar uppreisn, sem getur leitt til sambúðarerfiðleika á heimilinu. Þegar athygli fjölmiðla beinist að lögreglunni með neikvæðum hætti geta börnin orðið skotspónn umhverfisins og lent í einelti  (15).

Kjarni máls

Í stuttu máli, þá hafa erlendar rannsóknir sýnt að streita sem tengist starfi lögreglunnar smitar yfir mörk starfs og einkalífs. Hún getur haft veruleg áhrif á líðan og velferð fjölskyldna sem henni tengjast. Eins og rakið er í þessari grein hafa rannsóknir leitt í ljós að streita er líka vandamál meðal íslenskra lögreglumanna. Þær sýna að allt að tíundi hver lögreglumaður gæti þurft á sálrænum úrræðum að halda. Í því ljósi er líklegt að margar fjölskyldur lögreglumanna hér á landi gætu haft verulegan ávinning af leiðum sem beita má gegn streituáhrifum starfsins. Hingað til hafa þó engar rannsóknir verið gerðar hér á landi á þessum áhrifum starfsins á fjölskyldur. Það er því tímabært að ráðast í þær svo þróa megi úrræði sem kunna að auka velferð lögreglumanna, maka þeirra og barna. Ég áforma að skoða m.a. slík úrræði við vinnslu BA-verkefnis míns í félagsráðgjöf við HÍ.  

 

Heimildir:

  1. Qureshi, H., Lambert, E., Keena, L. og Frank, J. (2016). “Exploring the association between organizational structure, variables and work on family strain among Indian police officers”. Criminal Justice Studies, Vol.13 No.4. 555-574.
  2. Niederhoffer, A. og Niederhoffer, E. (1977). The police family. Lexington books. 
  3. Maynard, P.E. og Maynard, N.W. (1982). Stress in police families: Some policy implications. J. Police Sci. Admin. 10. 302-314.
  4. Alexander, D. A, and Walker, L. G. (1996). The perceived impact of police work on police officers‘ spouses and families. Stress Medicine, vol.12, 239-246.
  5. Karaffa, K., Openshaw, L., Koch, J., Clark, H., Harr, C. and Stewart, C. (2015). Perceived impact of police work on marital relationships. The Family Journal, 23(2), 120–131. https://doi.org/10.1177/1066480714564381
  6. Sadulski J. (2017). Managing police stress to strengthen relationships at home. Sótt af https://www.police1.com/american-military-university/articles/managing-police-stress-to-strengthen-relationships-at-home-EZsGK2lQ4uxdcWH1/
  7. Ólafur Örn Bragason og Ólafur Kári Júlíusson (2008). Könnun á streitu og líðan lögreglumanna. Ríkislögreglustjórinn (2008).
  8. Guðrún Sesselía Baldursdóttir (2017).  Starfsumhverfi lögreglumanna. Ríkislögreglustjórinn, 2017. Sótt af: https://www.vinnueftirlit.is/media/alagogfjolgunslysahjalogreglunni/Slys-og-alag-a-logreglu.pdf
  9. Stefanía Hildur Ásmundsdóttir (2017). PTSD Symptoms amongst Icelandic Police Officers: The Effect of Social Support and Resilience. BSc-ritgerð í sálfræði við HR.
  10. Bjarki Oddsson, Bryndís Jóhannesdóttir og Kolbrún Bergmann Gilsdóttir (2017). Einn síns liðs. Streita, bjargráð og öryggistilfinning á meðal lögreglumanna á fámennum starfsstöðum. BA-ritgerð í lögreglu- og löggæslufræðum. Félagsvísindadeild. Háskólinn á Akureyri.
  11. Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir (2014). Upplifun karla innan lögreglunnar af vinnumenningu lögreglunnar. Sótt af: https://dev.logreglan.is/wp-content/uploads/2014/12/Upplifun-karla-meðal-lögreglumanna-af-vinnumenningu-lögreglunnar_lokaeintak.pdf
  12. Ólafur Örn Bragason, Guðbjörg S. Bergsdóttir, Rannveig Þórisdóttir, og Jón Óttar Þórisson. (2007). Ofbeldi gegn lögreglumönnum. Rannsókn á reynslu lögreglumanna og tilkynntum brotum. Ríkislögreglustjórinn (2007).
  13. Guðmundur Kjerúlf (2017). Álag og fjölgun slysa hjá lögreglunni. Ráðstefna Vinnueftirlitsins, Ríkislögreglustjóra, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Landsambands lögreglumanna og Innanríkisráðuneytisins. Grand Hótel, 15. Mars 2017. Sótt af: https://www.vinnueftirlit.is/media/alagogfjolgunslysahjalogreglunni/Gudmundur-Kjerulf-.pdf
  14. Margrét Valdimarsdóttir (2020). VIÐHORF TIL LÖGREGLU Könnun á viðhorfum landsmanna til aðgerða vegna COVID-19 og annarra starfa lögreglunnar. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. 
  15. Miller, L. (2007). Police families: Stresses, syndromes, and solutions. The American Journal of Family Therapy, 35, 21-40. 
  16. Milliard, B. (2020). Utilization and Impact of Peer-Support Programs on Police Oficers’mental health. Frontiers in Psychology.
  17. Sunna Karen Sigurþórsdóttir. (2021, 21. maí). Vill skylda alla lögreglumenn til að sækja sálfræðiþjónustu. Visir.is.  Sótt af  https://www.visir.is/g/20212112807d
  18. Ríkislögreglustjóri. (2020). Sótt af: https://www.logreglan.is/wp-content/uploads/2020/11/Arsskyrsla-RLS-2019_skja.pdf
  19. Arrendondo, R., Shumway, S.T., Kimball, T.G., Dersch, C.A., Morelock, N. og Bryan, L. (2002). Law enforcement and correlations family support: Final report of the development and evaluation of a stress management program for officers and their spouses. Document No. 197900. U.S. Department of Justice.  Sótt af: https://www.ojp.gov/pdffiles1/nij/grants/197900.pdf
  20. Bond,M. (2014). https://exclusive.multibriefs.com/content/children-of-the-badge-the-impact-of-stress-on-law-enforcement-children/mental-healthcare

Til baka