Fréttir

Ávirðingar um mismunun í skýrslutökum

9 nóv. 2021

Landsamband lögreglumanna hefur sent dómsmálaráðuneytinu erindi þar sem athugasemdir eru gerðar við ummæli lögmanns sem ráðuneytið skipaði í nefnd sem hefur eftirlit með störfum lögreglu. Lögmaðurinn lét þau orð falla á ráðstefnu að lögregla mismunaði brotaþolum og grunuðum sakamönnum við skýrslutökur í kynferðisbrotamálum. LL telur að ummæli lögmannsins, sem voru látin falla á opinberum vettvangi, samrýmist ekki stöðu hans í eftirlitsnefndinni.

Erindi LL til dómsmálaráðuneytisins 4. nóv 2021

Í ummælunum kom meðal annars fram að hvítur maður í jakkafötum fái betri framgang hjá lögreglu og dómstólum í kynferðisbrotamálum, svo eitt dæmi sé tekið. „Eru ummælin og það sem eftir lögmanninum er haft til þess fallið að lögreglumenn geti með réttu dregið í efa óhlutdrægni nefndarmannsins við þau mikilvægu störf sem nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur með höndum.“

LL hefur farið á leit við ráðuneytið að embætti ríkissaksóknara verði falin rannsókn á starfsháttum lögreglu í landinu við skýrslutökur af brotaþolum og gerendum. LL telur einnig æskilegt að endurskoða skipan nefndarinnar, en fram kemur í erindinu að ýmsir hnökrar hafi komið fram sem beri með sér að á faglega breidd skorti í störfum nefndarinnar.

RÚV greinir frá því í dag að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hafi óskað eftir því að ríkislögreglustjóri taki til skoðunar fullyrðingar lögmannsins.

Til baka