Fréttir

„Hef mikinn metnað gagnvart hagsmunamálum lögreglumanna“

31 mar. 2022

Hólmsteinn Gauti Sigurðsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna frá 1. september 2021. Hólmsteinn, sem starfaði sem saksóknari í kjölfar efnahagshrunsins, hefur komið víða við á sínum ferli. Hann var ráðinn til LL til eins árs og hefur áhuga á að vinna áfram fyrir lögreglumenn. Það er hins vegar ekki alfarið í hans höndum.

„Ég er búinn að starfa í löggæslu- og ákæruvaldsgeiranum frá árinu 1999, þegar ég hóf störf sem fulltrúi lögreglustjórans og sýslumannsins á Ísafirði. Mín þekking og reynsla liggur því í meðferð sakamála, rekstri embætta, starfsmannatengdum málum, samningagerð, löggæslumálum, saksóknarstörfum, verkefnum ákæruvalds og erlendu samstarfi svo eitthvað sé nefnt. Ég hef mikinn metnað gagnvart hagsmunamálum lögreglumanna og nýt þess að starfa bæði fyrir þá og með þeim,“ segir Hólmsteinn í upphafi samtals við Lögreglumanninn.

Eins og starfsferill Hólmsteins gefur til kynna (sjá hér til hliðar) hefur hann víða komið við innan dómsmála- og löggæslukerfisins. Þekking hans og reynsla nýtist vel á skrifstofu LL við úrlausn þeirra fjölmörgu og fjölbreyttu viðfangsefna sem rata á borð sambandsins. „Ég bý svo vel að það þekkja margir til mín og ég er með ágætistengslanet bæði hér heima og erlendis. Það hjálpar mér í störfum mínum hér,“ segir hann. 

„Þetta var ótrúleg lífsreynsla“

Óhætt er að segja að eitt af stærri verkefnum sem Hólmsteinn hefur fengist við á sínum ferli hafi verið rannsókn og saksókn efnahagsbrota fyrir sérstakan saksóknara, í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Hann hafði farið til náms í Lögregluháskólann í Ósló og var að ljúka framhaldsnámi í rannsóknum og saksókn flókinna fjármuna- og efnahagsbrota þegar hrunið brast á. Embætti sérstaks saksóknara var stofnað í byrjun árs 2009 og þangað fór hann til starfa við heimkomuna. „Ég var einn af fjórum föstum starfsmönnum sem hófu þá vegferð. Auk okkar Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, voru það Grímur Grímsson og Sveinn Ingiberg Magnússon yfirlögregluþjónar.“ 

Mikil reiði var í samfélaginu í kjölfar efnahagshrunsins og pressa á að lykilmenn úr fjármálageiranum yrðu dregnir til ábyrgðar. Spurður hvernig reynsla þetta hafi verið svarar Hólmsteinn: „Ótrúleg. Þetta var ótrúleg lífsreynsla. Það er það sem kemur fyrst upp í hugann. Það gerði sér enginn grein fyrir umfanginu þegar við fórum af stað – enda átti meðferð þessara mála eftir að taka meira en áratug. Þetta voru stór, flókin og þung mál. Íslensk efnahagsbrotalögregla hafði aldrei séð neitt þessu líkt. Þetta var gríðarlega vandasamt.“ 

Hólmsteinn fór sjálfur með eitt allra fyrsta hrunmálið fyrir héraðsdóm. Hann rifjar upp að fyrsta spurningin sem hann hafi fengið frá ónefndum blaðamanni við það tilefni var hvort verkefnið væri ekki fyrir fram vonlaust. „Það hefur ekki verið fjallað mikið um ákveðinn anga í fjölmiðlum en það var gífurlegt álag á því starfsfólki sem var að rannsaka og sækja þessi mál til saka. Þetta var alveg ótrúlegt. Það er mikið rætt um álag á heilbrigðisstarfsfólk og viðbúnaðarstéttir núna gegnum COVID-faraldurinn en ég tel að sumir sem störfuðu við hrunmálin hafi enn þann dag ekki jafnað sig fyllilega á því langvinna álagi og afleiðingum sem fylgdi þeirri vinnu.

Góð samvinna á skrifstofunni

Áður en Fjölnir Sæmundsson tók við formennsku í LL, síðastliðið vor, hafði fyrrverandi formaður, Snorri Magnússon, gegnt starfi framkvæmdastjóra um árabil. Á því varð breyting með nýrri stjórn og Hólmsteinn var fenginn til verksins, í það minnsta fyrst um sinn. Hann segir að verkefnin á skrifstofunni séu af fjölbreyttum toga. „Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri skrifstofunnar,“ segir hann en bætir aftur við að í verkefnum hennar leiki Guðlaug einnig lykilhlutverk. „Ég bara verð að taka hér skýrt fram að Landssamband lögreglumanna er sérstaklega heppið með skrifstofustjóra. Gulla er afar öflugur starfsmaður og það gildir einu hvaða verkefni hún fær í fangið – hún leysir það með sóma,“ segir hann um samstarfskonu sína á skrifstofunni.

Hólmsteinn segist hafa átt mjög gott samstarf við stjórn LL og finnur sterkt fyrir því að hann nýtur trausts í sínu starfi, jafnvel þótt stundum þurfi að takast á. Hann er í daglegum og miklum samskiptum við formann og miklum samskiptum einnig við varaformann sambandsins. „Mér hefur borið gæfa til að leita lausna og ég tel að vel hafi verið leyst úr þeim áskorunum sem upp hafa komið.“ 

Fjölbreytt verkefni

Hólmsteinn annast vinnslu og framkvæmd stefnumarkandi ákvarðana fyrir sambandið, í umboði stjórnar og formanns. Hann fæst við vinnutímamál, svo sem styttingu vinnuvikunnar, samskipti við ráðuneyti og aðrar stofnanir, hér heima og erlendis, og vinnur að ýmsum umbótamálum fyrir sambandið. Hann skrifar ályktanir og erindi í samstarfi við stjórn og tekur þátt í fundum hennar, heldur utan um fundi framkvæmdastjórnar, sinnir bréfaskriftum fyrir hönd LL og á samskipti við yfirvöld og einstaka lögreglustjóra. Hann aðstoðar félagsmenn við úrlausn fjölbreyttra mála, veitir ráðleggingar og situr stundum með þeim fundi með yfirmönnum, svo fátt eitt sé upp talið. Auðvitað er það þannig að mörg mál leysast farsællega á meðan önnur ganga hægar og í einhverjum tilvikum eru félagsmenn ekki endilega sáttir við lyktir máls eða ákvörðun. En ég einset mér samt alltaf að vinna af metnaði við öll mál í samræmi við lög, kjara- og stofnanasamning o.fl., og stundum er það einfaldlega þannig að LL hefur ekki heimildir til að taka ákvarðanir eða leysa úr máli. Mál kann að heyra undir annan aðila svo dæmi sé tekið. En starfsreynsla mín, ekki síst í dómsmálaráðuneytinu, LRH og hjá héraðssaksóknara, þar sem ég starfaði að fjölbreyttum stjórnsýsluverkefnum og starfsmannamálum, nýtist samt vel undir þessum kringumstæðum,“ segir Hólmsteinn. 

Hann tekur líka fram að LL hafi aðkomu að ýmsum nefndum og starfshópum innan BSRB og njóti einnig góðs af þekkingu og reynslu sem þar er innan dyra. 

Vinnur að umbótaverkefnum

Hólmsteinn hefur unnið að ýmsum umbótaverkefnum fyrir LL. Meðal þeirra eru regluverk um lögmannsaðstoð fyrir félagsmenn og trúnaðarmannakerfi. Það er honum sérstakt kappsmál að virkja betur trúnaðarmannakerfið og hvetja til þess að trúnaðarmenn séu starfandi á öllum vinnustöðum. Þeir eru tengiliðir félagsins við vinnustaðina. „Ég er víða að pota í ýmis umbótaverkefni og reyna að gera hlutina hér betri og skilvirkari,“ útskýrir hann en tekur jafnframt fram að hann beri virðingu fyrir hlutverkaskipan innan LL, gæti sín á því að fara ekki yfir nein mörk og starfi í hvívetna innan lagaramma sambandsins. 

„Ég ber mikið traust til þeirra lögreglumanna sem sitja í nefndum, starfshópum og stjórnum og virði þeirra störf og sjálfstæði. Ég er hins vegar alltaf til taks ef menn leita til mín og sit eftir þörfum fundi hjá nefndum og sjóðstjórnum LL. Ég vil byggja undir það skipulag sem LL stendur fyrir. Einn liður í minni vinnu er að hvetja til þess að sett verði sérstök ákvæði um þessar mikilvægu einingar í lög LL. Þar eru atriði sem laganefnd þarf að taka fyrir áður en næsta þing verður haldið en síðasta þing ályktaði reyndar um þetta efni. Það er til dæmis mikilvægt að í lögum félagsins séu ákvæði um STALL, fræðslu- og starfsþróunarsjóð, styrktar- og sjúkrasjóð o.s.frv.; hvernig þessir aðilar eru skipaðir, hlutverk þessara sjóða og tilgangur. Það var m.a. eitt af mínum fyrstu verkefnum hér að ýta þingi LL aftur af stað síðasta haust og vinna að undirbúningi og framgangi þess með þingforsetum og fleirum. Það eru alls konar stefnumarkandi hugmyndir og verkefni sem ég er að reyna að ýta áfram,“ segir framkvæmdastjórinn. Fram undan séu síðan stór verkefni, m.a. formannaráðstefna LL, frekari vinna við þróun stofnanasamnings og síðast en ekki síst undirbúningur og gerð næsta kjarasamnings, svo fátt eitt sé nefnt.

Álag á lögreglumenn áhyggjuefni

Stjórn LL sendi frá sér ályktun þann 15. febrúar þar sem þungum áhyggjum var lýst af öryggi lögreglumanna. Þá höfðu átt sér stað í samfélaginu atvik þar sem skotvopnum var beitt. Í ályktuninni voru ítrekaðar fyrri yfirlýsingar LL um að þörf væri á umtalsverðri fjölgun lögreglumanna og aukinni þjálfun þeirra. Fram kom að brýn nauðsyn væri á að skipuleggja til frambúðar fjölgun lögreglumanna og hvernig best væri að viðhalda þekkingu innan lögreglunnar, ekki síst í almennri löggæslu; þeim hópi sem oftast kemur fyrst á vettvang. Nauðsynlegt væri að tryggja öryggi lögreglumanna.

Hólmsteinn segist hafa áhyggjur af þessari stöðu og að þessi mál hafi verið til umræðu á stjórnarfundum sambandsins. Lögreglumenn séu margir hverjir undir miklu álagi og vinni í afar krefjandi starfsumhverfi. „Ég hef mikinn metnað til að leggja mitt af mörkum við að reyna að bæta úr þessari stöðu,“ segir Hólmsteinn en sífellt fleiri lögreglumenn hafa m.a. þurft að leita til sjúkrasjóðs félagsins. Undirmönnun og ótryggt starfsöryggi ógnar heilsu þeirra. „Umræðan um kulnun í starfi hefur verið hávær hérna heima og þar er stétt lögreglumanna ekki undanskilin,“ segir Hólmsteinn. Hann nefnir í því samhengi að staðan sé ekki ósvipuð í hinum norrænu ríkjunum, svo sem í Danmörku og Svíþjóð. Þar búi lögreglumenn við mikið álag og sumpart hættulegt starfsumhverfi. „Í Svíþjóð er til dæmis erfitt að fá lögreglumenn til að vinna á ákveðnum svæðum í landinu.“

Hann segir ekki nóg að fjölga lögreglunemum, til að sporna við álagi og auka öryggi í starfi. Miklu fleira þurfi að koma til. Auka þurfi fjárveitingar til almennrar löggæslu og fjölga menntuðum lögreglumönnum. Menntun og þjálfun lögreglumanna hafi tekið framförum en mikilvægt sé að gera enn betur á því sviði nú þegar heimsfaraldurinn er vonandi á undanhaldi. Hann ítrekar að LL hafi átt góð samskipti við ráðherra og ráðuneyti dómsmála að undanförnu. Þar virðist skilningur á þessari stöðu. Það veki honum vonir um að hægt verði að grípa til ráðstafana til að vinda ofan af þessu ástandi.

Styttingin krefjandi viðfangsefni

Stytting vinnuvikunnar hefur ekki gengið eins og til var ætlast hjá vaktavinnufólki, eins og fram hefur komið í fréttum. Hólmsteinn býr að þeirri reynslu að hafa unnið að innleiðingu styttingar vinnuvikunnar hjá héraðssaksóknara en þar var um að ræða starfsfólk í dagvinnu.

Hólmsteinn telur að það hafi verið misráðið að setja ekki meiri kraft í innleiðingu styttingar vinnuvikunnar hjá vaktafólki strax á upphafsstigum málsins. Áherslan hafi verið um of á dagvinnuhópana til að byrja með. Fyrir vikið hafi þessi mál verið í hálfgerðum ólestri hjá viðbúnaðarstéttum. „Það hefur verið mikil óánægja með stöðuna á þessu, sem þó hefur batnað allra síðustu mánuði,“ segir hann. LL, lögreglustjóraembættin og lögreglumenn sjálfir hafi tekið þetta verkefni til sín og unnið það áfram. 

Hólmsteinn er á því að mistök hafi verið gerð þegar gerður var greinarmunur á innleiðingu styttingarinnar hjá dagvinnu- og vaktavinnufólki. Hann segir að rauði þráðurinn í styttingu vinnutíma dagvinnufólks hafi verið svokallað „umbótasamtal“, eða samvinna á milli vinnuveitenda og starfsfólks um tillögur að útfærslu. Í tilfelli vaktavinnufólks hafi aftur á móti verið ákveðið að vinna málið á miðlægum grunni, í stað þess að leysa málin í samstarfi á hverjum stað fyrir sig. Það hafi verið misráðið. „Það er ekki nægilega heppileg leið enda eru lögreglumenn vanir sínu vaktafyrirkomulagi. Menn geta ekki reynt að leysa þetta miðlægt og ætlað að troða öllum inn í slíka niðurstöðu.“ 

Hann nefnir sem dæmi minnstu lögregluembættin, þar sem einn er á vakt. „Lögreglumaðurinn á Hólmavík er gott dæmi. Hvernig gengur að stytta vinnuvikuna hjá honum? Það myndi snúast um hvort hann væri á vakt eða bakvakt.“ Hólmsteinn segir að styttingu vinnuvikunnar þurfi að fylgja fjármagn og að LL hafi undanfarið mætt skilningi á þessari stöðu hjá ráðherra og ráðuneyti dómsmála. „Ég er ánægður með það. Ég get ekki kvartað yfir skilningsleysi því við höfum átt góð samskipti við ráðherra og ráðuneytið um þetta mikilvæga hagsmunamál. Við þurfum hins vegar að halda áfram að þróa þetta verkefni og vinna að góðum lausnum til frambúðar því það er mín skoðun að stytting vinnuvikunnar er í grunninn frábært verkefni en þá þarf það líka að ganga upp gagnvart þeim stéttum sem þurfa kannski mest á styttingu að halda, sem eru vaktavinnustéttirnar.“

Vill leysa þetta verkefni

Hólmsteinn er ólmur í að leysa verkefnið um styttingu vinnuvikunnar hjá lögreglumönnum þannig að vaktavinnufólk finni og upplifi raunverulega styttingu án kjaraskerðingar. Hann bendir á að lögreglumenn og lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hafi sýnt frumkvæði sem aðrir geti horft til. „Þar komu hugmyndir frá lögreglumönnunum sjálfum; menn fundu lausn með lögreglustjóranum miðað við þarfir, stöðu, mannafla og fjárveitingar. Menn sáu að það gekk ekki að vera einungis með átta tíma vaktir og leystu það þannig að helgarvaktir væru tólf tímar en vaktir á virkum dögum átta tímar. Niðurstaðan er sú að lögreglumaður fyrir norðan getur oftast verið í helgarfríi þrjár helgar af hverjum fimm. Ef þetta hefði verið unnið eftir upplegginu á miðlægum grunni þá væru menn að vinna fjórar helgar af fimm. Það sér það hver maður hvor leiðin er heillavænlegri. Þetta verður ekki leyst nema af embættunum sjálfum og starfsfólki þeirra,“ segir Hólmsteinn ákveðinn.

Hólmsteinn hefur notið þess að vinna fyrir lögreglumenn og með lögreglumönnum. Hann var ráðinn til eins árs og fékk til þess leyfi úr fastri stöðu hjá embætti héraðssaksóknara. Spurður hvort hann verði áfram, þegar árinu hans lýkur í haust, svarar Hólmsteinn því til að það samtal hafi einfaldlega ekki verið tekið. „Ég þarf að ræða þetta við LL en einnig minn fasta vinnuveitanda og þar eru ákveðnar reglur sem gilda um leyfi ríkisstarfsmanna. En samvinnan við stjórnir og skrifstofustjóra innan LL hefur gengið afar vel. Þetta er ekki ákvörðun sem ég get tekið einn en áhugi minn og metnaður er skýr,“ segir Hólmsteinn Gauti Sigurðsson að skilnaði.

 


Hefur komið víða við

Óhætt er að segja Hólmsteinn hafi komið víða við og búi að reynslu sem nýtist honum í því starfi sem hann gegnir fyrir LL. Hann er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands. Hann starfaði fyrst um sinn á Ísafirði, eins og fram hefur komið, en síðar hjá lögreglustjóranum og sýslumanninum í Hafnarfirði. Árin 2002 til 2006 var Hólmsteinn deildarlögfræðingur á dómsmála- og löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þar af var hann settur lögreglustjóri og sýslumaður á Höfn í sex vikur sumarið 2005. Hólmsteinn segir að tíminn hjá ráðuneytinu hafi verið magnaður. Þar hafi hann öðlast mikla reynslu í „öllum þessum stjórnsýslu- og embættismannapakka“ eins og hann kemst að orði. „Ég starfaði þarna með afar öflugu fólki og við góðan orðstír, held ég að ég geti fullyrt.“

Hann var um skamma hríð fulltrúi sýslumanns og lögreglustjóra í Kópavogi 2007 og svo lögfræðingur yfirstjórnar embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 1. janúar 2007, þegar Stefán Eiríksson var skipaður lögreglustjóri sameinaðs embættis. Hann fór út til náms en þegar hann sneri aftur, árið 2009, var hann ráðinn saksóknari hjá nýju embætti sérstaks saksóknara. Hann er í dag í ársleyfi frá embætti héraðssaksóknara.

 

Greinin birtist fyrst í Lögreglumanninum 1. tbl. 2022

Til baka