Fréttir

Stjórnskipulag lögreglu

2 apr. 2022

Rétt er að gera þann skýra fyrirvara að annar texti en sá sem afmarkaður er innan tilvitnunarmerkja í grein þessari, er að frumkvæði og á ábyrgð höfundar einvörðungu og er ekki settur fram í nafni embættis þess sem hann starfar hjá.

Grunnstoðir íslensks samfélags og raunar öll tilvera almennings hefur á síðustu árum tekið meiri og hraðari breytingum en áður hefur þekkst í sögu lands og þjóðar. Tölvur, tækni og upplýsingar hafa umbylt samfélaginu. Þjónusta, verslun og viðskipti hafa rofið einangrun Íslands og hnattvæðing hefur opnað fjarlæg markaðssvæði. Verkefni lögreglu eru á sama tíma orðin flóknari, kalla á meiri sérhæfingu og knýja á um að lögregla haldi í við hraðari breytingar. Skipulögð brotastarfsemi hefur að mati lögreglu vaxið að umfangi undanfarin ár og í núverandi skipulagi lögreglu eru margar rannsóknareiningar í jafnmörgum lögregluumdæmum að rannsaka flókin og krefjandi mál.

Í skýrslu greiningardeildar RLS sem gefin var út 2019, Umhverfi löggæslu á Íslandi 2020-2024, er fjallað um ofangreindar áskoranir. Í skýrslunni er farið yfir fjölmargar áskoranir, t.d. áhrif loftslagsbreytinga, náttúruhamfara, aukins ferðamannastraums, félagslegs margbreytileika, tölvu- og netbrota ásamt skipulagðri brotastarfsemi. Í skýrslunni er farið yfir þróun stjórnskipulags lögreglu í helstu nágrannalöndum en þó einkum þeim sem við berum okkur helst saman við. Réttarfarslöggjöf okkar er að mestu leyti tekin upp úr danskri löggjöf og eins er oft litið til skipunar mála í Noregi. 

„Undanfarna áratugi hafa staðið yfir miklar skipulagsbreytingar hjá lögreglu á Norðurlöndunum. Breytingarnar hafa m.a. falist í að setja upp ríkislögreglustjóraembætti hjá þeim löndum þar sem slík embætti voru ekki til staðar, auk þess að fækka lögregluumdæmum.

Miðstjórnarvald ríkislögreglustjóra til þess að stýra lögreglunni sem einni heild hefur þannig verið aukið og lögð mikil áhersla á árangursstýringu sem miðar að betri virkni löggæslu og nýtingu fjárveitinga. Auk þess sem unnið hefur verið að því að styrkja miðstýringu lögreglunnar sem einnar heildar hefur um leið verið lögð áhersla á að fækka lögregluumdæmum og styrkja þau þannig að til verði færri og öflugri lögreglulið í umdæmunum.“

Við skipulagningu löggæslu er nauðsynlegt að horfa til þess hvaða kröfur samfélagið og löggjafinn gerir annars vegar og hvaða kröfur verkefnin gera á hverjum tíma og í fyrirsjáanlegri framtíð. Verkefni lögreglu krefjast þess að heildarhagsmunir verði látnir ráða þegar ákvarðanir eru teknar um stjórnskipulagið og leitað verði leiða til þess að nýta sem best mannafla og aðrar fjárfestingar sem gerðar eru fyrir almannafé. Verkefni framtíðar gera þær kröfur að lögregla sýni frumkvæði og mikla aðlögunarhæfni í örri tækniþróun. Ljóst er að brotamenn nýta sér óspart tækniframfarir og fyrir þeim er Ísland eitt markaðssvæði. 

Í lok árs 2021 störfuðu tæplega 800 lögreglumenn (afleysingafólk og nemar meðtalin)  hjá ellefu lögreglustjórum í níu lögregluumdæmum. Á landssvæði sem oft hefur verið nefnt suðvesturhornið starfa fimm af þessum ellefu lögreglustjórum. Í nýlegri reglugerð um ríkislögreglustjóra var lögregluráð formgert í fyrsta sinn sem tryggir aukið samráð og samvinnu, en gerði hvorki breytingar á sjálfstæði lögreglustjóranna né hlutverki ríkislögreglustjóra. Í lögreglulögunum er enn kveðið á um að ráðherra sé æðsti yfirmaður lögreglunnar sem aukinheldur stýrir fjárveitingum til embættanna. Þessi valdauppbygging er ekki í samhljómi við nauðsynlega og skýra stigveldisstjórnsýslu að mati Ríkisendurskoðunar og er ekki í samræmi við stjórnskipulag lögreglu í nágrannalöndum okkar. Ríkisendurskoðun hefur í tveimur skýrslum fjallað um stjórnskipulag löggæslu á Íslandi, árin 2005 og 2020.

Hérlendis hafa undanfarna tvo áratugi verið skipaðar nefndir og starfshópar auk þverpólitískrar þingmannanefndar til að gera tillögur um fækkun lögregluumdæma og skilvirkara stjórnskipulag löggæslu. Á vef Stjórnarráðsins er auðvelt að fletta upp skýrslum þar sem lagðar eru til rökstuddar tillögur um stjórnskipulegar breytingar innan löggæslunnar hér á landi. Fulltrúar helstu hagaðila hafa jafnan  skipað þessar nefndir og starfshópa og eiga það sammerkt að hafa skilað tillögum sem hafa haft nokkurn samhljóm sl. þrjá áratugi og grundvöllur tillagnanna, líkt og hjá Norðurlöndunum, byggður á almannahagsmunum, betri þjónustu sem og betri nýtingu fjármuna. 

Verður hér gerð grein fyrir helstu niðurstöðum þeirra, skýrslum Ríkisendurskoðunar og GRECO-nefndar Evrópuráðsins.

Verkefnastjórn um nýskipan löggæslumála 2003

Embætti RLS var stofnað árið 1997. Sex árum síðar eða árið 2003 skipaði dómsmálaráðherra verkefnastjórn um nýskipan löggæslumála. Markmiðið með skipan verkefnastjórnarinnar var að styrkja starfsemi lögreglu og bæta nýtingu fjármuna. Árið 2003 voru 27 lögregluembætti á landinu. Verkefnastjórnin skilaði af sér skýrslu sinni árið 2005 og lagði til að á landinu öllu yrðu 5-7 embætti:  

„Það er ein af meginniðurstöðum verkefnisstjórnar að smæð margra lögregluliða á landinu geri þeim erfitt fyrir við að sinna lögbundnu hlutverki og standi í vegi fyrir því að unnt sé að ná þeim árangri sem að er stefnt og ætlast er til af þeim. Með stækkun umdæma og sameiningu lögregluliða væri stefnt að því að í hverju og einu umdæmi væri starfandi öflugt lögreglulið sem hefði burði til að sinna þeim verkefnum sem upp kæmu í viðkomandi umdæmi. Verkefnisstjórnin leggur til að flest lögregluumdæmin verði stækkuð til muna og verði jafnvel einungis fimm til sjö talsins. Verði ekki fallist á stækkun og fækkun lögregluumdæma telur verkefnisstjórnin ljóst að auka verði stórlega miðlægt boðvald ríkislögreglustjóra í þeim tilgangi að stuðla að samvinnu og samstarfi einstakra lögregluembætta í framkvæmd.

Að mati verkefnisstjórnarinnar er stækkun umdæma og sameining lögregluliða forsenda fyrir hvers konar umbótum á sviði löggæslu.“

Niðurstaðan varð sú að embættunum var fækkað úr 27 í 15 sem er talsvert frá því sem verkefnisstjórnin lagði til.

Í apríl 2008 skilaði nefnd, sem var skipuð til að fylgjast með nýafstaðinni endurskipulagningu lögregluumdæma, af sér ítarlegri skýrslu. Þar má m.a. sjá úttekt á því hversu margir lögregluþjónar í hverju umdæmi þjónuðu hve mörgum íbúum.  Einn lögreglumaður þjónaði allt frá 269 íbúum og upp í 906. Nefndin skoðaði líka yfirbygginguna í lögreglunni og komst að þeirri niðurstöðu að í neðsta starfsstiginu störfuðu einungis um 37 % lögreglumanna á landinu. Af 646 menntuðum lögreglumönnum voru 159 sem störfuðu sem stjórnendur; aðalvarðstjórar og aðstoðar- og yfirlögregluþjónar. Þá eru ekki taldir með í stjórnendalaginu lögreglustjórar og aðstoðarlögreglustjórar og háttsettir yfirmenn ákæruvalds embættanna. Hér er gripið niður í niðurstöðukafla skýrslunnar:

„Innleiðing á nýskipan lögreglumála samkvæmt lögum nr. 46/2006 gekk að flestu leyti vel og hefur almennt orðið til þess að auka sveigjanleika og breyta áherslum í löggæslu. Á hinn bóginn var breytingin hinn 1. janúar 2007 ekki nægilega róttæk að mati nefndarmanna, til að tryggja bestu nýtingu mannafla innan lögreglunnar alls staðar á landinu. Sum lögreglulið eru mjög fámenn, hlutfall stjórnenda er í velflestum liðum hátt og markmið um sérstakar rannsóknardeildir hafa ekki fyllilega gengið eftir.“

Skýrsla Ríkisendurskoðunar 2006

Stjórnsýsluendurskoðun felur í sér mat á frammistöðu þeirra sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með. Sérstaklega er horft til meðferðar og nýtingar ríkisfjár, hagkvæmni og skilvirkni hjá hinu opinbera og hvort framlög ríkisins skili tilætluðum árangri.

Stjórnsýsluendurskoðun er í raun frammistöðumat. Í henni felst almenn greining á því hvernig ráðuneyti, stofnanir og aðrir opinberir aðilar sinna lögbundnum verkefnum. 

Fjallað er um stjórnskipulag löggæslu á Íslandi í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna  stjórnsýsluúttektar sem gerð var á RLS árið 2006. Hér er fjallað um ákvæði lögreglulaga um að ríkislögreglustjóri í umboði pólitískt skipaðs ráðherra, sjá um málefni lögreglu: 

„Ákvæðið verður ekki skilið öðruvísi en svo að RLS stýri lögreglunni landinu og að hún eigi að lúta boðvaldi embættisins á sama hátt og ef ráðherra ætti í hlut. Núverandi hlutverk RLS er ekki fyllilega í samræmi við þetta ákvæði þar sem embættið stýrir ekki lögreglunni nema að takmörkuðu leyti.“

Að mati Ríkisendurskoðunar er ástæðan tvíþætt:

„Dómsmálaráðherra hefur tvö af mikilvægustu stjórntækjunum; þ.e. bæði fjármálastjórn – fjárlagagerð, eftirlit með framkvæmd fjárlaga, millifærslur og ráðstöfun safnliða og árangursstjórnun lögreglunnar.“

Ríkisendurskoðun virðist hér benda á að ákvæði lögreglulaga kveði ekki nægjanlega skýrt á um hvert stjórnskipulag lögreglunnar raunverulega sé. Ríkisendurskoðun gerir skýrar tillögur til að bregðast við þessu ósamræmi:

„Hvað varðar mögulegar breytingar telur Ríkisendurskoðun að tvær leiðir komi til álita. Annars vegar að RLS fái aukið hlutverk við stjórnun lögreglunnar („danska leiðin‘‘). Hins vegar að embættið fái hreinræktað stoð- og eftirlitshlutverk. 

Eflt stjórnunarhlutverk „danska leiðin‘‘ þessi leið felur í sér að RLS verði falin stjórnunarleg ábyrgð á allri löggæslu í landinu. Embættið fengi þannig sambærilegt hlutverk og systurstofnanirnar annars staðar á Norðurlöndunum.“

Starfshópur dómsmálaráðherra um sameiningu lögregluembætta skipaður 2009

Í kjölfar efnahagsáfallsins 2008 skipaði dómsmálaráðherra starfshóp sem átti að skoða stofnanauppbyggingu lögreglunnar og möguleikana sem fólust í því að sameina lögregluembætti. Markmiðin með skipan starfshópsins voru m.a. 

„Leita þarf leiða til að þeir fjármunir sem veitt er til löggæslu nýtist sem allra best. Markmið skipulagsbreytinga eru ekki síst að auka möguleika til að mæta lægri fjárveitingum með hagræðingu fremur en niðurskurði þjónustu.“

Í skýrslunni er starf hópsins reifað og kemur fram að leitað var til helstu hagaðila, s.s. lögreglustjóra, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, sérstaks saksóknara, saksóknara efnahagsbrotadeildar, stjórnar Landssambands lögreglumanna, félags ákærenda, félags yfirlögregluþjóna, lögreglustjórafélagsins og sýslumannafélagsins, auk tollstjórans í Reykjavík og fleiri aðila í þeim tilgangi að fá fram sjónarmið þeirra varðandi skipulagsbreytingar:

„Í kjölfar þeirrar ákvörðunar óskaði dóms- og kirkjumálaráðherra eftir að Kjartan Þorkelsson, formaður lögreglustjórafélagsins, og Snorri Magnússon, formaður landssambands lögreglumanna, tækju að sér að starfa með hópnum til að útfæra framangreindar hugmyndir. Óskaði ráðherra eftir því að starfshópurinn ynni að nánari útfærslu og áætlun um framkvæmd og var hópnum falið að undirbúa og útfæra tillögur um að: Lögregluumdæmi landsins verði stækkuð frá því sem nú er og verði 6-8 talsins og starfi þau undir forystu umdæmisstjóra. Umdæmisstjórar verði undir stjórn eins lögreglustjóra á landsvísu. Lögregluembættin í landinu verði sameinuð í eitt lögreglulið.“

Skv. skýrslunni voru markmiðin þau að nýta sem best fjárveitingar sem settar eru í löggæslu og að veita sem besta þjónustu á landsvísu með því að nýta fyrirliggjandi sérhæfingu á landsvísu. 

Í þetta sinn var lögð fram nákvæmur fjöldi embætta í tillögunum og útfærsla þeirra á landsvísu – að embættin yrðu sex að tölu í stað 15. Eitt í hverjum landshluta og tvö á suðvesturhorninu. 

Skýrslan er um margt fróðleg og kannski helst fyrir það að í upphafi skýrslunnar er lagt af stað með þá hugmynd eftir viðtöl við alla hagaðila, að sameina löggæsluna í eina stofnun. Eftir kynningu á niðurstöðum starfshópsins fyrir lögreglustjórum var niðurstaðan sú að framkvæma þessar breytingar á stofnanauppbyggingu lögreglunnar í skrefum. Rökin fyrir því virðast við lestur skýrslunnar helst vera ótti við of miklar breytingar á skömmum tíma og að of mikil miðstýring væri óheppileg. Síðan eru liðin mörg ár.

Til að draga þessar skýrslur saman má segja að niðurstöðurnar hafi verið nokkuð skýrar; fækkun lögregluumdæma niður í fimm til sex væru til mikilla hagsbóta fyrir lögreglu og almenning. Einhvers staðar virðist vera töluverð tregða við að bregðast við þessum niðurstöðum. 

Skýrsla innanríkisráðherra um störf nefndar um um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland árið 2012

Árið 2012 var skipuð nefnd þar sem sæti áttu fulltrúar alla stjórnmálaflokka sem störfuðu á Alþingi, ríkislögreglustjóra, innanríkisráðuneytis og Landssambands lögreglumanna. Með nefndinni störfuðu einnig fulltrúar frá yfirlögregluþjónafélaginu og lögreglustjórafélaginu. Hryðjuverkin í Ósló og Útey árið áður voru að hluta til tilefni þessarar vinnu, en þrjú meginforgangsatriði voru skilgreind við vinnu nefndarinnar. Fjölgun lögreglumanna í útkallsliði, styrking sérhæfðra deilda, bæði rannsóknardeilda og deilda sem starfa á landsvísu, sem og að stórefla menntun, þjálfun og tækjabúnað lögreglumanna. Þetta mun hafa verið í fyrsta sinn sem sameiginleg nefnd fulltrúa bæði löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins vann saman að eflingu löggæslu. Sérstök þingsályktunartillaga var samþykkt 19. júní 2012 um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir árin 2013 -2017. Til marks um metnað nefndarinnar var markmiðið að fjölga menntuðum lögreglumönnum um 236 og að í lok árs 2017 yrðu þeir 860 á landinu öllu.  

Í sérstökum kafla um skipulag löggæslu á Íslandi er þetta tiltekið:

„Talsverðar breytingar hafa orðið á skipulagi lögreglunnar með fækkun og stækkun lögregluumdæma og eflingu miðlægrar starfsemi lögreglunnar og er nú stefnt að enn frekari fækkun og stækkun lögregluumdæma. Leiðir það eðli máls samkvæmt af þeirri þróun sem orðið hefur í fjarskiptum og samgöngum og breyttum kröfum til lögreglu samhliða breytingum í samfélaginu. Auk þess sem lögreglustarfið kallar á stöðugt aukna sérhæfingu svo sem vegna alþjóðlegrar lögreglusamvinnu, aðgerðarþjálfunar, rannsóknar flókinna sakamála, tækni- og tölvurannsókna o.fl.

Áfram er gert ráð fyrir óbreyttu hlutverki ríkislögreglustjóra og stefnt að því að aðskilja lögreglustjórn frá sýslumönnum og fækka umdæmum úr fimmtán í átta. Markmiðið er að efla þau og fjölga lögreglumönnum. Einnig er mikilvægt að styrkja miðlæga starfsemi á landsvísu hvað varðar þætti sem ekki verða byggðir upp hjá hverju lögregluliði eða eðli máls samkvæmt eiga heima á landsvísu.“

Í meðförum Alþingis var niðurstaðan sú að umdæmin urðu 9 í stað átta og umdæmismörk milli tveggja embætta voru færð til. 

Þjálfun og tækjabúnaður lögreglu tók í kjölfarið framförum en í hægari skrefum en til stóð. Ekki er ósanngjarnt að nota mælikvarða til að meta árangur í þessum efnum; ef horft er til fjölgunar á menntuðum lögreglumönnum frá 2012 til 2017 kemur skýrt í ljós að þau markmið náðust engan veginn. Markmið starfshópsins frá árinu 2003 um 5-7 umdæmi eru enn nokkuð langt undan og ekki virðist hafa verið tekið tillit til ráðlegginga Ríkisendurskoðunar um skýra valdauppbyggingu lögreglunnar. 

Skýrsla Ríkisendurskoðunar vegna stjórnsýsluúttektar 2020

Ríkisendurskoðun gerði aftur úttekt á embætti RLS árið 2019: „Ríkislögreglustjóri – fjárreiður, stjórnsýsla og stjórnarhættir“, skýrslan var gefin út 2020. Nýr ríkislögreglustjóri tók við 16. mars 2020 en fjölmiðlar fjölluðu talsvert um aðdraganda þess. Segja má að varnaðarorð þau sem lesa má í skýrslunni frá 2009 þar sem fjallað er um togstreitu og hlutverkaárekstur milli lögregluembættanna og RLS hafi hafi raungerst og náð hámarki síðla árs 2019. 

Skýrsla Ríkisendurskoðunar er líkt og hin fyrrnefnda mikil að vöxtum eða tæpar 100 blaðsíður og á hún sammerkt með skýrslunni frá árinu 2006 að fjallað er ítarlega um skipulag löggæslu og stjórnun. Rétt er að taka fram að vinna við skýrsluna fór fram fyrri hluta árs 2019. Af lestri skýrslunnar má draga þá ályktun að Ríkisendurskoðun teldi það til mikilla bóta að á Íslandi væri stjórnskipulag löggæslu með röklegum og skýrum hætti;  

„Að mati Ríkisendurskoðunar hefði dómsmálaráðuneyti þurft að huga sérstaklega að því að lögreglulög eru ekki nógu skýr um skipulag og stigveldi lögreglu. Bera þau með sér tilefni til ágreinings með því að ætla ríkislögreglustjóra yfirstjórnunarhlutverk í umboði dómsmálaráðherra á sama tíma og þau árétta sjálfstæði lögreglustjóra gagnvart Ríkislögreglustjóra.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á embætti ríkislögreglustjóra árið 2006 var bent á að verka- og ábyrgðarskipting stjórnskipulags lögreglu hafi þá ekki að öllu leyti verið rökleg eða í samræmi við grundvallarreglur stigveldisstjórnsýslu. Þær breytingar sem síðan hafa verið gerðar á lögreglulögum breyta í megindráttum ekki þessari ályktun.“ 

Kafli 5 í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2020 fjallar síðan ítarlega um breytingar þær sem Norðurlöndin, Skotland og Holland hafa gert á stjórnskipulagi löggæslu. Alls staðar hefur verið ráðist í mikla fækkun lögregluembætta samfara stofnun ríkislögreglustjóraembættis með skýrt stjórnunarhlutverk. Í nágrannalöndum okkar hefur því verið horfið frá því héraðsstjórnunarkerfi sem var við lýði með það að markmiði að bregðast við breyttum þjóðfélagsaðstæðum. Ein af þeim mörgu breytingum sem þessu hefur fylgt er að ríkislögreglustjóraembættum þessara ríkja er falið að útdeila þeim fjármunum sem stjórnvöld skammta löggæslu hverju sinni.   

Athugasemdir GRECO-nefndar Evrópuráðsins 2018

Evrópuráðið eða Council of Europe er ótengt bæði Evrópusambandinu (EU) og Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Ísland er eitt 47 aðildarríkja Evrópuráðsins og varð tólfta aðildarríkið þann 7. mars 1950.

Árið 2018 kom út skýrsla frá GRECO-nefndinni (Group of states against corruption), „Fifth evaluation round. Preventing corruption and promoting integrity in central governments (top executive functions) and law enforcement agencies”, þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við löggæslu á Íslandi. Skýrslur GRECO enda ávallt á „recommendations and follow up“. Meðal annars má finna í skýrslu GRECO 18 tilmæli þar sem m.a. er fjallað um nauðsyn þess að gera ákveðnar breytingar á stjórnskipulagi löggæslu á Íslandi. Í skýrslunni segir í íslenskri þýðingu:

„Komið verði á fót miðlægri einingu eða ákveðnum aðila innan stofnanauppbyggingu lögreglunnar sem verði falið það hlutverk að annast innra eftirlit og rannsóknir, undir ábyrgð ríkislögreglustjóra, en embætti ríkislögreglustjóra á í framkvæmd að hafa skýrt leiðtogahlutverk þegar kemur að innri stefnumálum lögreglunnar, þar á meðal í tengslum við heilindi, áhættustjórnun og eftirlit með lögreglunni. Þá þarf jafnframt að endurskoða valdauppbyggingu innan lögreglunnar til að tryggja skilvirka innleiðingu stefnumótunar án afskipta ráðuneytis eða stjórnmála.“ (Þýðing Kjarnans sem fjallaði um skýrsluna árið 2018)

Hér vísar GRECO-nefndin til þeirrar staðreyndar að skv. lögreglulögum fer ráðherra bæði með stjórnunarvaldið og einnig fjárveitingarvaldið til allra lögregluembættanna.  Þann 16. nóvember 2020 kom út eftirfylgniskýrsla GRECO þar sem metið er hversu vel íslensk stjórnvöld brugðust við þessum 18 athugasemdum og framfylgdu þeim. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur m.a. fram að einungis hafi verið brugðist á fullnægjandi hátt við fjórum af átján tilmælum GRECO, sjö tilmæli hafi að hluta til fengið framgang en önnur sjö engan framgang:

“As for Law enforcement agencies (LEAs), work is in progress, but with limited tangible results so far. It is expected that the on-going reorganisation of law enforcement bodies will fully address the requirements of GRECO’s recommendations. Appropriate resources remain to be effectively allocated, including for integrity-related activities. Moreover, the chain of command will have to be reviewed and political interference limited.”

Það er mikilvægt að mati GRECO-nefndarinnar, að það leiki enginn vafi á sjálfstæði lögreglu. Til þess þarf að draga úr möguleikum á pólitískum afskiptum. Traust almennings til lögreglu er mikilvægt og sá samfélagssáttmáli er mikilvæg grunnstoð við framkvæmd löggæslu. Auknu sjálfstæði fylgir eðlilega efling eftirlits með lögreglu – það eykur traust. Í litlu friðsömu samfélagi ætti lögregla að vera með yfir 90% traust en ekki á bilinu 70-80% líkt og undanfarin ár.

Ný reglugerð um ríkislögreglustjóra var gefin út árið 2021. Þar er ekki að finna ákvæði sem taka tillit til þessara fjölmörgu ábendinga sem eru reifaðar í skýrslum þeim sem hér hafa hlotið stutta umfjöllun. Stofnun lögregluráðs sem fjallað er um í umræddri reglugerð hefur ekki leyst úr þeim stjórnskipulegu vandkvæðum sem íslensk löggæsla býr við. Lögregluráðið festir í sessi þá flötu mynd sem birtist í stjórnskipulagi sem á að vera lóðrétt en er lárétt skv. mati bæði Ríkisendurskoðunar og GRECO-nefndarinnar. 

Niðurstaða

Fjölmargir innlendir og erlendir sérfræðingar hafa ítrekað undanfarin ár lagt fram tillögur um nauðsynlegar breytingar á stjórnskipulagi lögreglu. Það er löngu tímabært að bregðast við þessum tillögum.  

 

Runólfur Þórhallsson
Lögreglumaður 8917

Greinin birtist fyrst í Lögreglumanninum 1. tbl. 2022

Til baka