Fréttir

Stórsókn í menntun lögreglumanna

8 apr. 2022

Nú í haust er gert ráð fyrir verulegri fjölgun nemenda í diplómanámi fyrir verðandi lögreglumenn við Háskólann á Akureyri þegar allt að 100 nemendur munu hefja nám. Óvíst er hvort nægjanlega margir hæfir umsækjendur sæki um að komast inn í námið en inntökuskilyrði eru óbreytt. Þrátt fyrir að fjöldi umsækjenda hafi verið um 260 árið 2021 voru 100 sem stóðust inntökuskilyrðin og 50 hófu nám. Til að fjölga hæfum umsækjendum höfum við í fyrsta sinn auglýst námið sérstaklega á vefmiðlum umfram þær auglýsingar sem Háskólinn á Akureyri sér um að birta. Einnig hafa lögreglumenn sem starfa víða um land skrifað greinar, heimsótt skóla og hvatt fólk til að sækja um í lögreglunámi. Afar mikilvægt er að allir leggi hönd á plóg til að við höfum val um umsækjendur til að fá sem hæfast fólk. Það þýðir að við þurfum mun fleiri en 100 umsækjendur ef ætlunin er að ná inn þeim fjölda.

Ný námsleið fyrir starfandi afleysingafólk í lögreglu með a.m.k. 5 ára starfsaldur

Þetta er ekki eina breytingin sem ráðist var í til að fjölga menntuðum lögreglumönnum. Áratugum saman hefur afleysingafólk í lögreglu brúað bilið þegar skortur hefur verið á menntuðum lögreglumönnum til starfa. Sumir þessara afleysingamanna hafa starfað lengi og dæmi eru um að einstaka afleysingamenn hafi hátt í 20 ára samanlagðan starfsaldur. Í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í öðru háskólanámi, svo sem leikskólakennarafræðum, verður sett á fót tilraunaverkefni í tvö ár til að meta starfsreynslu til styttingar á lögreglufræðinámi. Ekki er verið að gefa afslátt af þeirri færni og þekkingu sem nemandi á að búa yfir við lok náms en verklegi þátturinn verður metinn með einstaklingsmiðuðu raunfærnimati. Sá hópur sem á þess kost að fara þessa leið er ekki stór en miðað við tölur frá lögregluembættum landsins eru um 10 manns sem hafa starfað lengur en 5 ár við afleysingar í lögreglu og eru starfandi enn. Þessi hópur býr yfir mikilli reynslu og færni sem eðlilegt er að meta með formlegum hætti. Flestir starfa í dreifðari byggðum þar sem erfiðlega hefur gengið að fá menntaða lögreglumenn til starfa og er þetta því afar mikilvægt samfélagslegt verkefni til að tryggja íbúum þeirra umdæma sem þeir starfa í sem besta þjónustu lögreglu. 

Eins og fyrr segir er ekki verið að gefa afslátt af náminu og þeir sem fara í gegnum raunfærnimat þurfa að uppfylla sömu hæfniviðmið námskeiða og þeir sem sitja námskeiðin og undirgangast próf. Þannig verður sama lokapróf í skýrsluskrifum, valdbeitingu, notkun skotvopna, AMF o.fl. Námið er skipulagt með sama hætti og lögreglufræðinám fyrir verðandi lögreglumenn en færri einingar eru fyrir starfsnámið sem fer að mestu leyti fram hjá lögregluembættunum sem viðkomandi starfar hjá. Nemendur verða því að standast sömu námskeið og þeir sem eru á námslínunni fyrir verðandi lögreglumenn og mun MSL annast öll próf og námsmat.

Hvað er þá öðruvísi við þessa námslínu fyrir afleysingafólk í lögreglu?

Í september 2021 skilaði starfshópur á vegum dómsmálaráðuneytisins niðurstöðum sínum um nám í lögreglufræðum. Ein af tillögum starfshópsins var að breyta inntökuskilyrðum í námsleiðina diplómanám í lögreglufræðum fyrir starfandi lögreglumenn. Starfshópurinn lagði til að mennta- og starfsþróunarsetrið skoði hvort rétt sé að tengja viðmið um þrek og styrk við aldur, en að öðru leyti verði inntökuskilyrðin þau sömu og á námslínunni fyrir verðandi lögreglumenn. Starfshópurinn skoðaði heimildir út frá lögreglulögum nr. 90 frá 1996 en þar kemur fram í 38. gr., sem fjallar um inntökuskilyrði nema í starfsnám hjá lögreglu, e-lið, að ráðherra setji nánari kröfur með reglugerð. Í reglugerð um mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu nr. 221 frá 2017 er fjallað nánar um inntökuskilyrði nema í starfsnám hjá lögreglu. Þar kemur fram að mennta- og starfsþróunarsetrinu sé heimilt að setja önnur viðmið hvað varðar heilbrigðiskröfur og styrk og þrek fyrir héraðs- og afleysingafólk í lögreglu. Útfærsla á þessum kröfum var svo rædd á fundi lögregluráðs í febrúar 2022 og í kjölfar þeirrar umræðu var ákveðið að afleysingafólk þurfi að standast sömu heilbrigðiskröfur en að kröfur um þrek og styrk miðist við launaþrekpróf lögreglumanna. Þrekprófin eru því eina frávikið frá almennu inntökuskilyrðunum, enda á þessi námsleið eingöngu við um þá sem starfað hafa lengi við afleysingar hjá lögreglu og eru því alla jafna talsvert eldri en hinn hefðbundni nýnemi í lögreglufræðum. Þó að umrætt afleysingafólk hafi staðist þrekpróf við upphaf starfs kann það af ýmsum ástæðum að eiga erfitt með það í dag. Það sama á við um fjölda starfandi lögreglumanna sem eru nú á besta aldri.

Með því að stórauka fjölda nýnema í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn og mennta starfandi afleysingafólk með langan starfsaldur er bæði verið að bæta þjónustuna við almenna borgara og auka öryggi lögreglumanna á vettvangi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er stefnt að fjölgun lögreglumanna og því er nauðsynlegt að fjölga nemendum og bæta starfsumhverfi lögreglumanna. Mikilvægt er að tryggja gæði námsins þrátt fyrir tímabundið álag á þá sem að náminu koma. Fagleg mótun lögreglumanna er ekki einkamál Háskólans á Akureyri og ríkislögreglustjóraembættisins. Öll lögregluembætti landsins taka þátt í félagsmótun nýrra lögreglumanna og því hlutverki þarf að sinna af fagmennsku. Við hlökkum því til að vinna með ykkur öllum að eflingu lögreglunnar!

Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu

Greinin birtist fyrst í Lögreglumanninum 1. tbl. 2022.

Til baka