Fréttir

Tryggjum öryggi lögreglumanna

13 apr. 2022

Um miðjan febrúar á þessu ári sendi stjórn Landssambands lögreglumanna frá sér yfirlýsingu þar sem miklum áhyggjum yfir öryggi lögreglumanna í starfi var lýst.  Þá höfðu nýlega komið upp sakamál þar sem skotvopnum var beitt. Af þeim sökum var mikil umræða í þjóðfélaginu um öryggi borgaranna og  bjargir lögreglu til að takast á við sífellt hættulegri aðstæður. 

Við ítrekuðum í yfirlýsingu okkar að lögregla hefði í mörg ár bent á  þá auknu hættu sem fælist í fækkun faglærðra lögreglumanna og að lögregla yrði að fá í hendur tæki og heimildir til þess að fást við flóknara samfélag. Í kjölfar þessara sakamála skapaðist í þjóðfélaginu umræða um hvort lögregla á Íslandi þyrfti að vopnast. Það er mitt mat að í allri þeirri umræðu hafi jafnt lögreglumenn, yfirmenn í lögreglu og hagsmunasamtök lögreglumanna komið fram af hófstillingu og skynsemi. Ég tel að í yfirlýsingu stjórnar LL hafi aðeins verið bent á staðreyndir og hvað betur mætti fara. 

Lögreglumenn bentu meðal annars á að ekki væri rétt að taka slíkar ákvarðanir nema að vel athuguðu máli og að það væri ekki krafa hins almenna lögreglumanns eða samtaka þeirra að bera skotvopn. Engu að síður væri okkur umhugað um eigið öryggi.

Lögreglumenn eru sú stétt ríkisstarfsmanna sem verður fyrir flestum vinnuslysum. Sjúkrasjóður LL greiðir hærri upphæðir með hverju árinu til lögreglumanna. Af þeim sökum er eðlilegt að leita leiða til þess að draga úr slysum og álagi. 

Auka þarf búnað lögreglumanna

Landssamband lögreglumanna hefur lengi lýst þeirri skoðun sinni að tími sé kominn til að lögreglumenn á Íslandi fái til viðbótar við tækjabúnað sinn rafvarnarbúnað til að tryggja eigið öryggi. Reynsla af notkun slíkra tækja bæði á Englandi og á Norðurlöndum hefur sýnt að þessi búnaður hefur hvort tveggja dregið mjög úr meiðslum lögreglumanna og þeirra aðila sem lögregla þarf að handtaka. Slík viðbót við valdbeitingartæki lögreglu yrði því til mikilla hagsbóta fyrir lögreglumenn.

Í landi eins og okkar þar sem langt er á milli staða og oft bið eftir aðstoð annarra lögreglumanna getur rafvarnarbúnaður reynst mikilvægt öryggistæki. Í tölum frá Heimavarnarráðuneyti Bretlands segir að í 80% tilvika sé nægjanlegt að hóta að beita rafvarnarbúnaði til þess að aðilar hætti að streitast á móti handtöku. Í nútímasamfélagi, þar sem við viljum að lögreglan sé þverskurður af þjóðinni, tel ég eðlilegt að lögregla fái í hendur tæki sem hjálpi henni að yfirbuga einstaklinga sem sýna af sér ógnandi hegðun eða eru í hættulegu ástandi. Þannig megi fyrirbyggja líkamleg átök með meðfylgjandi hættu á meiðslum. 

Að taka í notkun nýjan búnað sem þennan krefst vel þjálfaðra lögreglumanna. Þar komum við að öðru atriði sem við í stjórn Landssambands lögreglumanna höfum lýst áhyggjum yfir. Allt of stór hluti af starfandi lögreglumönnum er ómenntaður og hefur því aðeins hlotið hluta af þeirri þjálfun sem þarf til að sinna lögreglustarfinu. Á þessu virðist ný ríkisstjórn hafa skilning því hún hefur lofað fjármunum svo fjölga megi nemendum í lögreglunámi. Nú í haust verða teknir inn 80 nýnemar í lögreglufræðum. Loforð hafa verið gefin um að áfram verði fjölgað, þar til menntaðir lögreglumenn eru orðnir þúsund talsins. 

Of mikið brottfall

Við sem störfum í lögreglunni vitum að þetta leysir aðeins hluta vandamálsins og tveggja ára bið er eftir því að þetta fólk verði fullnuma. Stór hluti vandamálsins felst í brottfalli lögreglumanna úr starfi. Of margir menntaðir lögreglumenn hafa leitað á önnur mið. Við þurfum að finna leiðir til að fá þá til að snúa til baka. 

Skýringarnar á þessu brottfalli eru auðvitað margar og fjölbreyttar. Hluti af þeim er alveg örugglega starfsumhverfið. Mikið álag í starfi auk lakra kjara (sé tekið mið af starfsumhverfi og vinnutíma) eru hlutir sem margir þeirra félaga okkar sem horfið hafa til annarra starfa nefna. Stjórnvöld og við sem stéttarfélag verðum að reyna að bregðast við þessu. Það að fá lærða lögreglumenn til að snúa aftur til starfa er að mínu mati fljótlegasta leiðin til að lögreglan hafi fjölmennt, reynslumikið og vel þjálfað lið lögreglumanna innan sinna vébanda.

Eitt af markmiðum næstu kjarasamninga okkar hlýtur því að vera að halda lögreglumönnum ánægðum í starfi og fá til baka þá sem leitað hafa á önnur mið. Jafnvel þótt fullyrða megi að margir lögreglumenn hafi fengið verulega kjarabót með síðustu kjarasamningum þá hafa þeir því miður líka orðið til þess að flótti hefur verið úr ákveðnum störfum hjá lögreglu. Sumir lögreglumenn hafa upplifað kjararýrnun á liðnu ári og við því verður við að bregðast. Ekki er enn búið að virkja að fullu nýjan stofnanasamning og því er enn von um að við getum rétt hlut þeirra sem telja á sig hallað. Eins og lögreglumenn þekkja hafa persónubundnir þættir aðeins verið virkjaðir fyrir starfaflokka 7 og 8. Á komandi vikum munum við hefja þá vegferð í samvinnu við lögreglustjórana að virkja þann hluta samningsins fyrir aðra starfaflokka. 

Stjórnvöld jákvæð í okkar garð

Við lögreglumenn getum ekki kvartað yfir því að á okkur sé ekki hlustað. Núna í vetur hafa ráðamenn tekið jákvætt í hugmyndir um að lögregla fái rafvarnarbúnað til umráða, auk þess að gefa fyrirheit um að fjármagna fjölgun lögreglunema. 

Þá hefur dómsmálaráðherra sett í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp sem auðvelda á lögreglu að afla gagna við rannsókn sakamála og auðvelda samvinnu og skipti á upplýsingum við önnur embætti, bæði hér á landi og erlendis. Þetta síðastnefnda atriði er einmitt eitt af því sem Landssambandið kallaði eftir í yfirlýsingu sinni í febrúar. Ég vona að nú sé bjart fram undan í málefnum okkar lögreglumanna og að við getum í góðri samvinnu við stjórnvöld og okkar yfirmenn aukið öryggi og bætt kjör lögreglumanna og með því haldið upp góðum og fjölmennum lögregluliðum um allt land.

Til baka