Fréttir

Pistill formanns: Stöndum vörð um hagsmuni okkar

1 maí. 2022

Kæru félagar!

Til hamingju með baráttudag verkalýðsins.

Í dag, eins og aðra daga, er það hlutverk okkar lögreglumanna að gæta að öryggi fólks og velferð. Á degi sem þessum safnast mannfjöldi saman víða um land til að nýta lýðræðislegan rétt sinn. Það er eitt af hlutverkum okkar að gæta þess að hann sé virtur.

Lögreglan, eins og fjölmargar aðrar stéttir í almannaþjónustu líkt og t.d. sjúkraflutningsmenn, fangaverðir, sjúkraliðar og annað starfsfólk heilbrigðisstofnanna, halda samfélaginu gangandi í dag eins og alla aðra daga ársins. Við erum alltaf til taks og á vakt.

Á liðnu ári hefur borið of mikið á þeim árróðri frá samtökum atvinnurekanda og aðilum í viðskiptalífi að ríkisstarfsmenn leiði launaþróun í landinu. Því er haldið fram að laun ríkisstarfsmanna hafi hækkað of mikið og að ríkisstarfsmönnum hafi fjölgað um of. Sannleikurinn í þessu eru auðvitað sá að starfsmenn í almannaþjónustu hafa þurft að halda samfélaginu gangandi í gegnum tveggja ára tímabil heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Fyrir vikið hefur mikil þörf verið fyrir að fjölga starfsmönnum í almannaþjónustu.

Við í lögreglunni höfum á þessum tíma bent á að þörf hefði verið fyrir enn meiri fjölgun í okkar röðum. Mjög mikið álag vegna heimsfaraldursins hefur verið á lögreglumönnum undanfarin ár og ný verkefni hafa litið dagsins ljós. Þar má nefna smitrakningu og aðstoð við bólusetningar en líka það verkefni að tryggja að almenningur fari eftir þeim fjölmörgu og síbreytilegu reglum sem settar hafa verið vegna COVID-19.

Lögreglan leikur lykilhlutverk í almannavörnum landsins og á hana er treyst á erfiðum tímum. Við megum því ekki óttast áróður þeirra sem vilja hag lögreglumanna og annarra ríkisstarfsmanna sem minnstan heldur eigum við að vera óhrædd við að benda á mikilvægi okkar og krefjast virðingar og umbunar fyrir okkar störf. Það sem hefur skilað launafólki bættum kjörum og líðan undanfarna áratugi er samstaðan. Mikilvægt er að hún bresti aldrei. Við verðum að standa gegn því að almannaþjónustan verði fjársvelt meira en orðið er og vera óhrædd við að krefjast aukinna framlaga.

Nú á vordögum munum við lögreglumenn með formannaráðstefnu hefja formlegan undirbúning að næstu kjaraviðræðum. Kjarasamningur okkar við ríkið mun renna út á vordögum 2024. Við ætlum okkur að koma vel undirbúin til viðræðna með skýrar kröfur um bætt kjör og betra vinnuumhverfi.

Í dag eru viðsjárverðir tímar í heiminum. Stríðsástandið sem ríkir í Úkraínu hefur áhrif á vöruverð hér á landi, eins og víðar um heiminn. Verðbólga er nú hærri en hún hefur lengi verið. Hún hefur ekki bara áhrif á vöruverð heldur líka á húsnæðislán og þar með á lífskjör okkar.

Það stenst enga skoðun að hér bólgni verð aðeins vegna utanaðkomandi þátta. Hér á landi er fjölmargt sem kyndir undir verðbólgu og hefur þessi áhrif á kaupmátt fólks. Við verðum að gera kröfu til stjórnvalda að þau bregðist við og verji kjör almennings. Við verðum líka að muna að þrátt fyrir ýmis áföll þá er Ísland ríkt land í öllum samanburði. Hjá okkur ætti að vera nóg til skiptanna.

Á baráttudegi verkalýðsins skulum við minna okkur á að það er vinnandi fólk sem skapar verðmætin í þessu samfélagi og á því rétt á sínum skerf af þeim verðmætum. Ég hvet ykkur, félaga mína, til að sína öðru launafólki samstöðu og taka þátt í hátíðarhöldum og baráttufundum dagsins.

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna.

Til baka