Fréttir

„Dálítið svartur dagur í okkar sögu“

23 sep. 2022

„Við viljum öll komast lifandi heim úr vinnunni,“ sagði Fjölnir Sæmundsson, formaður LL, í kvöldfréttum RÚV, í kjölfar fregna að lögreglan hafi komið í veg fyrir hryðjuverkaárás og hafi í haldi tvo menn sem grunaðir eru um að hafa verið að undirbúa skipulagðar fjöldaárásir. Fregnir herma að árásirnar hafi meðal annars átt að að beinast gegn árshátíð lögreglumanna.

Fjölnir sagði í fréttatímanum að lögreglumenn væru slegnir yfir fréttum vikunnar; slegnir yfir því að þurfa að óttast um líf sín í vinnunni. „Mér finnst þetta dálítið svartur dagur í okkar sögu, að við séum að takast á við hryðjuverkaógn. Ég var nú að vona að þessi dagur kæmi aldrei, en þetta er nýr veruleiki,“ sagði Fjölnir.

Yfirstjórn Ríkislögreglustjóra og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hélt blaðamannafund á miðvikudag vegna málsins. Síðan hefur fram komið að til standi að boða til annars blaðamannafundar vegna málsins.

Til baka