Fréttir

EPC í körfuknattleik í Frakklandi 2022

29 okt. 2022

Evrópumót lögreglumanna, EPC, í körfuknattleik fór fram í Limoges í Frakklandi í lok júní. Lið ÍSL var skipað lögreglumönnum frá sjö embættum: Atli Barðason, Suðurnesjum. Andrés Kristleifsson, Arnar G. Skúlason, Magnús I Hjálmarsson, Níels P. Dungal og Unnar Þ. Bjarnason frá LRH. Snorri Þorvaldsson frá Suðurlandi. Hannes I. Másson frá Norðurlandi vestra, Arnar S. Bjarnason frá Vesturlandi. Egill Egilsson, Magni Hafsteinsson og Magnús Pálsson frá RLS. Þjálfarar voru Jón Þór Eyþórsson, RLS, og Ólafur Örvar Ólafsson, Suðurnesjum. Liðsstjórar í ferðinni voru Jón Gunnar Sigurgeirsson, LRH, og Emil Árnason, Suðurnesjum. Fararstjóri var Óskar Bjartmarz, formaður ÍSL.

Ísland lék í riðli með Lúxemborg, Frakklandi og Litháen. Leikið var í Palais des sports de Beaublanc.

Fyrsti leikur í riðli

Ísland – Lúxemborg

Byrjunarliðið var eftirfarandi: Magni var fyrirliði, Magnús P., Egill, Arnar S. og Andrés. Smá fiðringur var í mönnum fyrstu mínúturnar en stórsigur vannst á endanum þar sem Snorri úr Hveragerði var með 25 stig og Hannes frá Sauðárkróki með 12 stig. Magnús I. reif niður fráköstin eins og Dennis Rodman gerði forðum daga, 14 stykki.
Lokatölur: 77-36 sigur Íslands.

Annar leikur í riðli

Frakkland – Ísland

Byrjunarliðið var það sama og í fyrsta leiknum; Magni fyrirliði, Magnús P., Egill, Arnar S. og Andrés. Leikurinn var hnífjafn fyrstu mínúturnar. Egill Egilsson sá þó til þess að við vorum með smá forskot eftir fyrsta leikhluta. Hann setti niður 5 þrista í heildina og endaði með 23 stig. 

Eftir að hafa byggt upp gott forskot í fyrri hálfleik, þar sem Hannes og Arnar S. sáu að mestu leyti um stigaskorun, var haldið inn í klefa. Arnar smellti meðal annars þremur þristum í grillið á Frökkunum með stuttu millibili. 

Þjálfararnir ítrekuðu fyrir leikmönnum að halda áfram, ekki gefa Frökkunum einhverja von í byrjun seinni hálfleiks. Þrátt fyrir það byrjuðu Frakkar strax að að saxa á forskotið. Þrátt fyrir mótspyrnuna fór svo að tiltölulega öruggur sigur vannst og sæti í undanúrslitum þar með tryggt. Besti árangur Íslands hingað til var fimmta sæti og því búið að toppa það. Eins og fyrr segir var Egill með 23 stig, Arnar S. með 19 stig og Hannes 13. Ísland setti niður 13 þrista í leiknum. Sigrinum og sæti í undanúrslitum var fagnað að hætti Tindastóls á miðjum vellinum. Lokatölur 66 – 81, sigur Íslands.

Lokaleikur í riðli

Litháen – Ísland

Byrjunarliðið sama og áður Magni fyrirliði, Magnús P., Egill, Arnar S., og Andrés. Þetta varð hörkuleikur. Eftir brösuga byrjun hjá okkar mönnum þar sem Litháar komust í 8-0 settu Snorri og Hannes í fluggírinn. Hannes var geggjaður í fyrri hálfleik og áttu Litháar ekki roð í strákinn. Ísland með fimm stiga forystu í hálfleik en því miður var þriðji leikhluti ekki góður hjá okkar mönnum. Litháar komust yfir og Ísland byrjaði að elta. Ísland skoraði bara 9 stig í þriðja leikhlutanum. Fjórði leikhluti var mun skárri en Litháar þó alltaf með forystuna. Lokatölur 90 – 80, tap.

Litháar sigruðu A-riðilinn en Ísland náði öðru sæti og fór í undanúrslit.

Undanúrslit

Þýskaland – Ísland

Byrjunarliðið; Magni fyrirliði, Magnús P., Egill, Andrés og Hannes. Mikil spenna var í mönnum. Í liði Þjóðverja voru þrír leikmenn langt yfir tveir metrar á hæð og einn af þeim næstum þrír metrar á hæð. Sá var með leiki úr Euroleague á bakinu. Aðrir úr liðinu höfðu leikið í efstu deildum Þýskalands. 

Þjóðverjar leiddu með einu stigi eftir fyrsta leikhluta, 24-23. Ísland var komið í villuvandræði snemma og dómaratríóið ekki tilbúið að leyfa okkur að berja á þýska stálinu. Þjóðverjar juku við forskot sitt í öðrum leikhluta og leiddu í hálfleik. 

Magni settist á bekkinn, laskaður í hnénu gamli kallinn. Aðrir lykilmenn komnir í blússandi villuvandræði. Þjóðverjar nýttu sér að Magni gat ekki spilað og keyrðu inn í teig hjá okkur trekk í trekk. Þjóðverjar leiddu eftir þrjá leikhluta, 81-53, og sigruðu að lokum örugglega. Lokatölur 104 – 63, tap.

Leikurinn um bronsið

Ísland – Litháen

Byrjunarliðið; Magnús P. sem var fyrirliði, Egill, Arnar S., Andrés og Snorri. Ísland náði að halda í við spræka Litháa fyrsta leikhlutann þó að fyrirliðann, Magna, hafi vantað, vegna meiðsla. Atli var einnig kominn á sjúkralistann. Litháar sigu fram úr. Í hálfleik bættust Andrés og Egill á meiðslalistann. Níels Dungal var einnig tæpur, með 50 ára gamlan kálfa sem var nánast búinn að fá nóg. Snorri og Magnús P. voru auk þess komnir í villuvandræði. Arnar G. reyndi sitt allra besta til að laga stöðuna og setti 10 stig á stuttum tíma, auk þess að spila fantavörn. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta sigruðu Litháar leikinn með miklum „naumindum“. Ísland varð að láta sér fjórða sætið duga að sinni. 

Lokatölur: 59 – 109, tap. 

Orðið á götunni er að Magni og Magnús P. séu ákveðnir í að taka þátt í alla vega einu móti til viðbótar, sem verður eftir 4 ár. Magni verður þá nánast áttræður og Magnús að nálgast sjötugt. Áfram Ísland.

Frásögnin er byggð á pistlum Ólafs Örvars Ólafssonar þjálfara.

Til baka