Fréttir

Stéttin sem býr við flest vinnuslys

31 okt. 2022

Í október 2021 skrifaði ég í þetta blað að lögreglumenn væru eina stéttin á Íslandi sem veruleg hætta væri á að myndi örkumlast eða látast í starfi. Á síðustu vikum og mánuðum hefur þessi staðreynd afhjúpast enn betur; starf lögreglumannsins verður sífellt hættulegra með hverri vikunni sem líður. 

Nýjar ógnir virðast steðja að samfélagi okkar með auknu ofbeldi og vopnaburði. Þessar ógnir snúa sérstaklega að lögreglumönnum sem heitið hafa því að framfylgja lögum og reglum í samfélaginu og verja stofnanir þess. 

Ein birtingarmynd þeirrar áhættu sem fylgir lögreglustarfinu er að lögreglumenn eru sú stétt á Íslandi sem verður fyrir flestum vinnuslysum á ársgrundvelli. Frá árinu 2016 hafa tilkynnt vinnuslys hjá lögreglu verið yfir eitt hundrað og voru flest, yfir 140, árið 2020. 

Undanfarnar vikur hefur krafa lögreglunnar um auknar rannsóknarheimildir og rafvarnarbúnað verið til umræðu í fjölmiðlum. Í mínum huga tengjast bæði þessi málefni öryggi okkar, slysatíðni og auknu álagi.  Ég tel að rafvarnarvopn auki mjög öryggi lögreglumanna og almennings. Tölur frá breska heimavarnarráðaneytinu sýna að eftir að lögregla þar í landi fékk í hendur slíkan búnað hefur slysum á lögreglumönnum, og á meðal þeirra sem lögregla þarf að hafa afskipti af, fækkað. Sömu upplýsingar berast frá þeim norrænu ríkjum sem tekið hafa í notkun rafvarnarvopn. Ástæðan fyrir þessu er m.a. talin vera sú að með þeim er hægt er að yfirbuga hættulegt fólk úr meiri fjarlægð og þannig draga úr líkamlegum átökum. Flest slys á lögreglumönnum verða við handtökur. Það hefur sýnt sig að í 80% tilvika nægir að hóta notkun á rafvarnarvopni til að fólk fari að fyrirmælum lögreglu. 

Mörg þeirra sakamála sem lögreglan hefur unnið að undanfarin ár hafa tengst skipulagðri brotastarfsemi og krefjast mikils mannafla; mannafla sem því miður er ekki alltaf tiltækur. Ég tel því einsýnt að með því að tryggja lögreglu auknar rannsóknarheimildir værum við að létta þann róður.  

Helstu ráð stjórnvalda við vanda lögreglunnar hafa verið tillögur um að fjölga lögreglumönnum. Það hefur því miður gengið illa. Ef litið er á  tölur um fjölda lögreglumanna frá 2007 til 2022 sést að lögreglumenn hafa farið frá því að vera 712 upp í að vera 758, með ýmsum sveiflum. Öllum ætti að vera ljóst þessi fjölgun er ekki í samræmi við þróun íbúafjölda eða aukinn straum ferðamanna til landsins. Árið 2007 voru landsmenn 312.872 en árið 2022 eru þeir 376.248. Þessu til viðbótar má nefna að árið 2007 voru fleiri menntaðir lögreglumenn við störf en í ár; 683 á móti 674. 

Þrátt fyrir stöðug loforð ráðamanna undanfarna áratugi hefur mistekist hingað til að fjölga menntuðum lögreglumönnum við störf. Ástæður fyrir því eru efni í annan pistil en ég held að þessi staðreynd sýni okkur að yfirvöld verða að láta lögreglu fá í hendur verkfæri, strax í dag, sem duga til að fást við það síbreytilega þjóðfélag sem við lifum í.

Fjölnir Sæmundsson, formaður LL

Til baka