Fréttir

Eðlilegt að fólk verði óttaslegið

1 nóv. 2022

Áform sem árás á árshátíð lögreglumanna undirstrikar mikilvægi félagastuðnings. Ólafur Örn Bragason sálfræðingur hvetur lögreglumenn til að tileinka sér jákvætt sjálfstal, halda daglegum venjum og styðja hver annan.

„Það eru mjög eðlileg viðbrögð við svona aðstæður að detta í að hugsa um hvað hefði getað gerst. Það eru hins vegar ekki hjálplegar hugsanir. Því nær sem svona atburður er okkur, því alvarlegri metum við hann.“ Þetta segir Ólafur Örn Bragason, sálfræðingur og forstöðumaður Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu. Tveir menn voru þann 23. september hnepptir í varðhald, grunaðir um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk á árshátíð lögreglumanna.

Ólafur hefur haft umsjón með félagastuðningi innan lögreglunnar frá árinu 2007, þegar embætti ríkislögreglustjóra hóf að fræða lögreglumenn og yfirmenn um mikilvægi þess að vera meðvitaðir um líðan samstarfsmanna sinna. Þá hófst vinna við að brýna fyrir lögreglumönnum og starfsfólki innan lögreglunnar að hætta að tala um félagann en tala frekar við hann; að taka samtalið. Samhliða þessari áherslu var farið að bjóða upp á allt að 10 sálfræðiviðtöl á ári. Þau viðtöl eru að fullu greidd af Ríkislögreglustjóra. Ólafur bendir á að fólk geti leitað til sálfræðings að eigin vali og að engin krafa sé gerð um að hugðarefnið sem viðkomandi vilji leysa úr tengist starfinu með beinum hætti. „Upplýsingar um þetta er að finna á starfsmannatorgi innri vefs lögreglunnar,“ segir hann og hvetur fólk til að nýta sér úrræðið.

Innri stuðningur mikilvægur

Óhætt er að segja að uppákoma eins og sú sem lögreglan fékkst við í september undirstriki mikilvægi félagastuðnings. „Allar rannsóknir okkar þegar kemur að streitu og álagi innan raða lögreglunnar hafa bent til að það séu alla vega tvö atriði sem lögreglumönnum finnst að þurfi að vera til staðar í sínu starfsumhverfi. Það er annars vegar innri stuðningur; reglulegir umræðufundir og stuðningur yfirmanna. Hins vegar er það greiður aðgangur að sálfræðiþjónustu,“ útskýrir Ólafur. 

Fyrstu árin nýttu sér á bilinu 20 til 40 manns sálfræðiþjónustuna en sú tala er komin yfir 200. Ólafur segir að þessi þróun bendi til viðhorfsbreytinga. „Við höfum lagt áherslu á að það sé ekki veikleikamerki að leita til sálfræðings heldur þvert á móti merki um styrkleika; þangað leitar fólk ef það vill efla sig,“ segir hann.

Órjúfanleg heild

Menntasetrið hefur lagt aukna áherslu á félagastuðning og streitustjórnunaraðferðir í námi. Námskeið um félagastuðning er bæði að finna í diplómanámi verðandi lögreglumanna sem og í stjórnendanámi, auk þess sem sérstök námskeið eru í boði fyrir alla starfsmenn; jafnt á vorönn sem haustönn. „Þessa fræðslu er að finna í öllu námi sem er á okkar forræði,“ segir Ólafur og bendir á að félagastuðningurinn væri einn og sér máttlaus ef ekki væri fagaðstoð í boði samhliða. Hugtakið er því notað sem samheiti yfir þessi úrræði og er órjúfanleg heild. 

Hann segir að tímabært sé einnig að embættin skerpi á því verklagi að halda fundi eftir erfið verkefni, þar sem fólki gefist kostur á að ræða hlutina. „Þá sest vaktin kannski niður og viðrar málið sameiginlega. Slíkur fundur þarf ekki endilega að vera úrvinnsla tilfinninga heldur bara að fara yfir hlutverk hvers og eins og sýn viðkomandi á það sem gerðist. Þar væri svo tekin ákvörðun um hvort starfsmenn vilja ræða málin sameiginlega með sálfræðingi.“

Ólafur segir mjög skiljanlegt að hugsanir lögreglumanna fari á flug við þær fréttir sem bárust í september, eðlilegt sé að fólk verði óttaslegið þegar ógnin er svona nærri manni. „Það er hins vegar mikilvægt að horfa til staðreynda og forðast að festast í hugsunum um hvað hefði getað gerst. Maður þarf að grípa þessar hugsanir og segja við sjálfan sig að vissulega hefði eitthvað slæmt getað gerst en staðreyndin sé sú að enginn hlaut skaða af. Umræddri hættu hafi verið afstýrt vegna faglegra vinnubragða kollega.“ Hann segir einnig mikilvægt að tileinka sér jákvætt sjálfstal, bæði þegar kemur að innra samtali sem og samtölum við félaga sína. „Við þurfum að hjálpast að við að halda fókus og hvetja hvert annað áfram með jákvæðum hætti.“

Til baka