Fréttir

Rekstrarstaða félagsins góð

3 nóv. 2022

Formannaráðstefna LL var haldin í fundarsal BSRB að Grettisgötu 89. Samkvæmt lögum LL skal halda formannaráðstefnu þau ár sem þing LL er ekki haldið en þing LL sem síðast var á árinu 2021 skal haldið þriðja hvert ár. Var vel mætt á formannaráðstefnu og voru þátttakendur mjög vel virkir í málefnastarfi.

Félagið rekið með afgangi

Á ráðstefnunni var skýrsla stjórnar lögð fram og hún rædd ásamt því sem endurskoðaðir ársreikningar voru kynntir. Rekstrarstaða félagsins er góð og var LL rekið með tæplega 1,7 milljóna króna afgangi á árinu 2021 að teknu tilliti til vaxta- og þjónustugjalda, þrátt fyrir að nokkrir kostnaðarliðir væru umfram það sem var á árinu 2020. 

Í heildina jukust rekstrartekjur um 10 milljónir milli ára, úr 92,5 milljónum í 102,5, á meðan rekstrargjöld jukust um tæplega 16 milljónir, úr 84,7 í 100,6. Munaði þar mestu um aukningu í launum og launatengdum gjöldum en skipt var um forystu LL á fyrri hluta árs 2021 og biðlaun greidd fráfarandi formanni og framkvæmdastjóra út árið og uppgjör í byrjun árs 2022. Nýr framkvæmdastjóri var ráðinn frá og með 1. september 2021 en auk þess var þingár hjá LL sem felur einnig í sér aukinn kostnað. Er rekstrarniðurstaða ársins 2021 því vel viðunandi. 

Leiðarljós LL

Á ráðstefnunni hélt Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB erindi um stöðu og þróun kjaramála lögreglumanna, samanburð við aðrar stéttir, mat, horfur o.fl. Urðu umræður og fyrirspurnir í kjölfarið. Að loknu erindi Sigríðar var málefnastarf ráðstefnunnar sett af stað og þátttakendum skipt upp í þrjá málefnavinnuhópa. Sá fyrsti fjallaði um kjaramál lögreglumanna, annar hópur fjallaði um starfsumhverfi lögreglumanna og sá þriðji fjallaði um stefnumótun LL.

Ljóst er að markmiðið með slíkri málefnavinnu hlýtur ávallt að vera leiðarljós fyrir LL í áherslum komandi missera, m.a. inn í undirbúning komandi kjarasamninga, gagnvart yfirvöldum og lögregluembættum og einnig er varðar ásýnd og innra félagsstarf LL og hvernig starfsemi LL skuli hagað til framtíðar.   

Til baka