Fréttir

Þing NPSA 2022

3 nóv. 2022

Þing Norræna lögregluíþróttasambandsins fór fram á Hótel Örk í Hveragerði þan 30. apríl. Þingið átti upphaflega að fara fram vorið 2021 en hafði verið frestað. Ísland hélt formennsku í stjórn og tækninefnd NPSA fram að þinginu. Til þingsins mættu fulltrúar frá öllum aðildarlöndum NPSA; Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð auk okkar. Rétt til þingsetu hafa þrír fulltrúar frá hverri þjóð. Ísland, Danmörk, Eistland og Noregur voru með fullmannað lið en Svíar voru með tvo fulltrúa og Finnar einn. Margir komu með maka sína með og jafnvel börn og voru erlendir gestir okkar því samtals 25.

Ísland lagði á þinginu fram tillögu um að kynjaskipting yrði afnumin í skotfimi, eins og við höfum okkar landsmót. Tillagan hlaut ekki mikinn hljómgrunn því talið var að þetta myndi letja konur til þátttöku. Svíar lögðu fram tillögu um að keppt yrði í „lögguhreysti“ (functional fitness) sem er eitt afbrigði af Crossfit/CF Throwdown. Var samþykkt að hafa eitt mót til reynslu og mun það fara fram í Svíþjóð 2023. 

Undirritaður kynnti niðurstöðu í vinnu sinnar við að ná fram styrk frá Nordisk Kriminal Krönika sem eyrnamerktur verður NPC í knattspyrnu. Niðurstaðan er sú að NPSA fær 200.000 evrur fyrir næsta mót, sem fer fram í Svíþjóð 2024. 

Svíar tóku síðan við formennsku af okkur Í NPSA. Michael Fetz var kosinn formaður og Mikaela Kellner formaður tækninefndar. Undirritaður verður áfram í stjórn og Jóhann Karl Þórisson í tækninefnd. Mótaskrá var uppfærð og samkvæmt henni á Ísland næst að sjá um mót í handbolta árið 2030.

Að loknu þingi var farið með gesti okkar í ferð að Gullfossi og Geysi með viðkomu í Friðheimum hvar snædd var tómatsúpa með öllu tilheyrandi. Var þetta allt mikil upplifun fyrir þá og fóru þeir heim alsælir með Íslandsferðina. Næsta þing NPSA á íslandi á ekki að fara fram fyrr en árið 2033.

Óskar Bjartmarz, formaður ÍSL
Greinin birtist fyrst í Lögreglumanninum 2 tbl. 2022

Til baka