Fréttir

Nýliðum falin allt of mikil ábyrgð

8 nóv. 2022

Lögreglumennirnir Baldur Ólafsson og Guðmundur Fylkisson hafa um árabil gegnt trúnaðarstörfum fyrir Landssamband lögreglumanna. Í viðtali við Lögreglumanninn er farið um víðan völl. Þeir félagar lýsa því m.a. hvernig starfsumhverfi lögreglumanna er verulega ábótavant. Þeim gremst hvernig sótt er að persónum lögreglumanna í réttarkerfinu og harma hve fljótt nýútskrifuðum lögreglumönnum er falin mikil ábyrgð í starfi vegna manneklu og starfsmannaveltu.

Viðmælendur Lögreglumannsins búa að mikilli reynslu af löggæslustörfum. Baldur er varðstjóri í almennri löggæslu á stöð 1 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann hóf feril sinn sem lögreglumaður í afleysingum á Keflavíkurflugvelli árið 2001 og fór í lögregluskólann 2004. Hann býr að rúmlega 20 ára starfsreynslu í almennri löggæslu. Baldur hefur verið ritari í stjórn LL frá 2016 og er forseti Íslandsdeildar IPA (International Police Association), hvar hann hefur átt sæti í stjórn frá 2006.

Guðmundur er jafnframt afar reynslumikill lögreglumaður. Hann byrjaði í lögreglunni á Ísafirði 1985 en flutti nokkrum árum síðar suður á bóginn og hóf störf hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 1998. Hann var lengst af hjá fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra en sinnti friðargæslu í Bosníu 2007 og 2008. Guðmundur hefur frá árinu 2014 starfað innan kynferðisbrotadeildar lögreglunnar og vakið þar athygli fyrir nálgun sína þegar kemur að leit að ungmennum sem villst hafa af leið. Hann hefur átt sæti í stjórn Lögreglufélags Vestfjarða, Lögreglufélags Reykjavíkur auk langrar stjórnarsetu í LL.

Þeir Baldur og Guðmundur eru sem fyrr segir stjórnarmenn í LL. Þeim liggur mikið á hjarta og ræða hér málefni lögreglumanna út frá eigin reynsluheimi og þekkingu en ekki fyrir hönd stjórnar.

Guðmundur hefur starfs síns vegna verið áberandi í fjölmiðlum. Hann hefur haldið fyrirlestra og hlotið viðurkenningar fyrir störf sín þegar kemur að týndum krökkum. Var það ákvörðun að stíga fram fyrir skjöldu með þessum hætti?

G: Nei, það var alls ekki ákvörðun. Við Baldur höfum raunar barist fyrir því, allt frá 2015, að viðhalda nafnleysi lögreglumanna. Það er loksins orðið þannig fyrir dómi að lögreglumanni nægir að gefa upp númerið sitt. Þá var ég reyndar búinn að eyðileggja kostinn á nafnleysi fyrir sjálfum mér. Ég skil hins vegar vel að unga fólkið, sem er að koma inn í lögregluna, vilji halda einkalífinu frá starfinu. Það var aldrei um það að ræða fyrir mig, þar sem ég byrjaði í löggunni á Ísafirði. Þar vita allir hver þú ert. Ég náði svolítið að halda mér í leynd fyrst um sinn, þegar ég fór að leita að týndu börnunum. Það var ekki fyrr en ég samþykkti að flytja fyrirlestur á ráðstefnu Geðhjálpar og Olnbogabarna að kastljósið beindist að þessu verkefni og þar af leiðandi að mér sem einstaklingi. 

B: Það er alveg sama þótt ég sé ekki í viðtölum. Fólk man eftir mér því ég er hávaxinn. Ég var í körfubolta, tók þátt í titlum og sumir þekkja mig þaðan. Ég stundaði svo skemmtanalífið en varð allt í einu löggan á skemmtanalífinu. Ef ég fer á einhvern stað í dag niðri í bæ, þá vita flestir hver ég er, hvort sem það eru gestir, starfsfólk kránna eða dyraverðir. Fólk ber kennsl á mig sem löggu.

G: Það truflar mig pínulítið í vinnunni þegar kastljósið verður of mikið; þegar ég hlýt viðurkenningar eða er mikið í viðtölum. Þá fer fókusinn af verkefninu yfir á einstaklinginn. En ég tek fram að samskipti mín við borgarana eru mjög jákvæð; fólk er að heilsa mér og þakka mér fyrir það sem ég er að gera. Við lögreglumenn þurfum auðvitað alltaf að vera til fyrirmyndar en athyglin sem ég fæ gerir mig enn meðvitaðri um það.

Lögreglumenn hafa ratað í fréttir á undanförnum árum fyrir að bera merki á búningum sínum þar sem vísað er í samstöðu stéttarinnar. Hvernig sjá lögreglumenn þetta? 

G: Þetta er viðkvæmt málefni. Það er ákveðinn hópur fólks, jafnvel innan lögreglunnar, sem vill ekki að við tölum um okkur sem lið. Þá er horft á það út frá einhverri spillingu eða samtryggingu. Bláa línan, sem er alþjóðlegt merki lögreglumanna, var nú skemmd fyrir okkur um árið. Lögreglumenn um allan heim skarta blárri línu eða slaufu til að votta samúð og sýna samkennd. En út á við er búið að gera þetta neikvætt og mér finnst það miður. Það má ekki nota þetta lengur. Ef þú gúglar liti viðbragðsaðila á heimsvísu þá færðu upp lista og þar er blár litur lögreglumanna.

B: Samstaðan hjá lögreglumönnum snýst um að þeir eru upplifa hluti sem engir aðrir sjá, nema gerendur og þolendur. Þessi merki snúast um að bakka upp félagann þegar hann hefur lent í svakalegum hlutum. Ég hafna því alfarið að notkun þessara tákna sé til marks um fordóma, rasisma eða hatur í brjósti íslenskra lögreglumanna. Fólk sem heldur því fram ætti að líta sér nær. 

G: Þessar merkingar eiga ekki að vera sýnilegar á búningnum okkar. Það er kveðið á um það í reglugerð. Mér fannst agi innan lögreglunnar minnka, hvað þetta varðar, þegar vaktir voru lagðar af og frjáls vinnutími tekinn upp.

B: Skömmu eftir að þetta rataði í fréttirnar sá ég myndskeið í fréttum, þar sem einhver í þyrlunni bar erlendan „patch“. Það hnaut enginn um það, þótt gæslan heyri undir sama löggæsluvald. Hjá okkur var hert á reglum, því við værum svo hræðilegir, en þetta hefur engar afleiðingar annars staðar.

Baldri gremst skortur á samræmi þegar kemur að því hvernig ríkisvaldið kemur fram við ólíkar stéttir ríkisstarfsmanna. Hann bendir á að þegar fjármálaráðherra hafi sést í samkvæmi í Ásmundarsal, þvert á gildandi reglur um sóttvarnir, hafi athyglin beinst að einkasamtali tveggja lögreglumanna.

B: Ásmundarsalsmálið fór fljótt að snúast um hvað lögreglumennirnir sögðu hver við annan úti í horni en ekki það að æðstu ráðamenn gætu ekki farið eftir gildandi reglum í samfélaginu. Ég upplifi að mér séu settar gífurlega strangar reglur og ég hitna þegar ég ræði um þetta. Ég geri kröfur til sjálfs mín og ég veit að ég fer með vald og þarf að passa mig. Á sama tíma komast aðrir valdhafar, jafnvel æðri mér og í mikilvægum embættum, upp með hluti sem mér yrðu aldrei fyrirgefnir.

G: Eftirlitið með okkur lögreglumönnum er gífurlegt. Rafrænt eftirlit með okkur nær aftur til ársins 2000 þegar TETRA-talstöðvakerfið var tekið upp og svo LÖKE 2004, í þeirri mynd sem það er í dag. Við erum í dag með búkmyndavélar, bílarnir eru á upptöku, talstöðvarnar eru vaktaðar og það er fylgst með hvar við erum og hversu hratt við keyrum. Það er allt undir eftirliti. Búkmyndavélarnar reyndar hjálpa okkur oftast og sýna iðulega að það sem er borið á okkur er bull.

B: Nema í Ásmundarsalsmálinu.

G: NEL [nefnd um eftirlit með störfum lögreglu, innsk. blm] fór svolítið í mínus eftir það mál. Lögreglumenn lýstu því yfir að þeir myndu ekki nota vélarnar ef menn yrðu dregnir til ábyrgðar fyrir einkasamtöl. 

B: Enginn okkar gæti farið á svig við lög og komist upp með það. Ef okkur verður á í messunni þá þýðir það starfsmissir. Ég vinn með fólk sem oftar en ekki sýnir mótþróa. Ég get ekkert annað en brugðist við í samræmi við mótspyrnuna. Það er önnur stétt ríkisins starfandi sem vinnur með fólk, heilbrigðisstarfsfólk. Ef það gerir mistök er viðmótið að af atvikinu þurfi að læra og fara skuli yfir ferla.

Við höfum það réttindaákvæði að þiggja hálf grunnlaun, að frádregnum skatti, ef við erum til rannsóknar fyrir meint brot. Hvernig á ég að taka til varna á hálfum grunnlaunum lögreglumanns, í kannski eitt og hálft til tvö ár? Það er ekki hægt. Og ef ég er dæmdur missi ég vinnuna. Ég er alveg sammála því að það á ekki að hengja heilbrigðisstarfsfólk fyrir að gera mistök. En ef ég geri mistök í minni vinnu þá á ég á hættu að fá dóm og missa vinnuna.

Viðmælendurnir hafa báðir sætt rannsóknum yfir lengri tíma. Málin gegn þeim hafa alltaf verið felld niður.

G: Ég var í 18 mánuði með réttarstöðu sakbornings fyrir að vinna vinnuna mína. Sá sem ég handtók reyndist saklaus svo hann kærði mig persónulega fyrir ólögmæta handtöku. Það var fellt niður en hann átti rétt á bótum frá ríkinu – ég veit ekki hvort hann sótti það í kerfinu.

B: Ég hef verið kærður þrisvar. Í eitt skiptið var ég í 8 mánuði til rannsóknar áður en það var fellt niður. Ég rak fyrir ekki svo löngu augun í bréf til mín, í bunka með öðrum, sem höfðu legið á glámbekk. Þar var mér tilkynnt að ég hefði verið kærður af manni sem ég handtók. NEL hafði fengið kvörtun og farið eftir sínu verklagi. Tólf mánuðum eftir að kvörtunin barst fékk ég fyrst veður af henni. Þá var mér tilkynnt að athugun hefði leitt í ljós að ég hefði ekkert gert rangt. 

G: Við framkvæmum ákveðið verk undir nafni lögreglunnar. Við sem einstaklingar þurfum svo að sitja undir þessu, í stað þess að borgarinn sæki á embættið. Ég er bara verkfæri í þessari vinnu. Við Baldur höfum verið að berjast fyrir að tekin verði upp húsbóndaábyrgð í þessum málum. Það varð ákveðin framför nýlega þegar ég fór að geta mætt sem vitni fyrir dóm sem 8420 en ekki Guðmundur Fylkisson. 

B: Okkur hefur reynst mjög erfitt að fá svör um hvað þurfi að gera til að breyta þessu. Til að fá að vera nafnlausir. Að lágmarki einu erindi frá okkur um þetta mál hefur ekki verið svarað af yfirmönnum lögreglunnar. Við þurfum að fá svör við því hvort frekari lagabreytingar þurfi til eða hvort hægt sé að leysa þetta með reglugerðarbreytingu eða einfaldlega verklagsreglum embættanna.

G: Við erum ekki að skorast undan ábyrgð ef við brjótum af okkur.

B: Ég ber ábyrgð á því að beita ekki of miklu valdi. Starfandi lögreglumaður má aldrei á sinni ævi hafa fengið fangelsisdóm. Þér er hent úr starfinu ef þú ert dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið og þú átt aldrei afturkvæmt.

G: Kannski höfum við í stjórn LL vanrækt að gera þetta skipulega. Það má alveg gagnrýna okkur fyrir hvernig við höfum unnið að þessu.

Starfsmannavelta er mikil innan lögreglunnar, að mati Baldurs og Guðmundar, og hlutfall ófaglærðra hátt. Hefur sú staða versnað undanfarin ár? Hvernig birtist þetta?

B: Já, heldur betur. Það er aftur og aftur verið að setja nýliða í stöðu sem þeir eiga ekki að þurfa að takast á við. Ég er að missa nokkra menn úr minni einingu núna í haust; þar af tvo varðstjóra og tvo sem útskrifuðust 2019. Við þetta verða dómínóáhrif. Yngri varðstjórar koma inn og enn fleiri nýliðar, sennilega ófaglærðir, eru settir á götuna í þeirra stað; í almenna löggæslu. 

G: Þegar ég kom suður voru þriggja manna lögreglubílar. Sá sem sat í aftursætinu var venjulega skólagenginn með 2-3 ára reynslu í starfi. Hann var þriðji maður í bíl og lærði af reyndari lögreglumönnum. Í dag er óskólagenginn lögreglumaður iðulega stjórnandi á bíl. Í litlu byggðunum úti á landi eru reynslulitlir menn svo oftast einir á vakt. Sömu kröfur gerðar til þeirra, þegar kemur að því að skrifa skýrslur og skila málunum af sér, og til þeirra hér á höfuðborgarsvæðinu sem geta ræst út rannsóknarlögreglumann, lækni og barnavernd, þegar svo ber við. Víða úti á landi getur lögreglumaðurinn ekki ræst neinn út, nema kannski lækni af bakvakt.

Þeim félögum er þessi staða með ófaglærða og reynslulitla lögreglumenn hugleikin. Átak hefur nú verið gert í að taka inn fólk í lögreglunám, til að freista þess að draga úr fjölda ófaglærðra lögreglumanna. Baldur og Guðmundur eru hóflega bjartsýnir.

B: Margir fara í námið samhliða því að hefja störf hjá lögreglunni. Þá eru tvö ár í útskrift. Menn skólast auðvitað til á þeim tíma. Þeir fáu sem hafa einhverja smá reynslu eru svo alltaf að kenna hinum – eru í hlutverki mentora, jafnvel þótt þeir hafi ekki starfsaldur til. Nú er verið að taka inn 86 nemendur í háskólanámið. Hluti af þeim hópi er búinn að vinna hjá okkur í nokkur ár. Þetta er ekki hrein viðbót. Þetta plan um fjölgun lögreglumanna þarf að vera til 30 ára. Þetta leysist ekki á þremur árum eða fimm. Fyrir allnokkrum árum var talað um að það vantaði 200-300 lögreglumenn á götuna. Ég veit ekki hvar sú tala er í dag; hún hefur bara hækkað. 

G: Ég vil samt taka fram að þróunin í lögreglunáminu hefur verið í rétta átt. Það eru enn hlutir sem þarf að laga en þetta horfir til betri vegar en í byrjun.

B: Ég er hrifnari af því að skólinn sé hreinræktaður lögregluskóli. Gamli lögregluskólinn hefði mátt fá vítamín og andlitslyftingu. Hvað er það við þessa vinnu sem þarf að vera á háskólastigi?

Umdeildur stofnanasamningur

Nýr stofnanasamningur milli LL annars vegar og lögregluembættanna og héraðssaksóknara hins vegar var undirritaður í lok síðasta árs. Í samningnum er kveðið á um forsendur röðunar starfa á grundvelli gildandi kjarasamnings. Hann átti að breyta launauppbyggingu lögreglumanna og veita svigrúm til að verðlauna fyrir fleiri þætti en starfsaldur. Baldur segist ekki hafa verið í nefndinni en hann beri virðingu fyrir vinnu þeirra sem þar komu að málum.

B: Ég er satt að segja langt frá því að vera húrrandi sáttur við þennan samning. Textinn er margfalt betri en fyrri samnings. Þessi samningur hefur mögulega skilað mér einu launaþrepi, sem skiptir ekki öllu máli. Vandamálið er meðal annars að það eru þarna innbyggðar skekkjur, sem þarf að laga. Þú getur til dæmis fengið hækkun fyrir viðbótarnám upp að 40 stundum. Það er ekkert greitt fyrir viðbótarmenntun umfram það. Í samningnum var starfsaldurshækkunum útrýmt, ólíkt öðrum stofnanasamningum ríkisins. Ég sé satt að segja eftir því að hafa samþykkt það. Markmið ríkisins var að taka þetta út svo menn væru ekki að fá launahækkanir fyrir það eitt að nenna að vera í vinnunni ár eftir ár. Það er reyndar mikill kostur að nenna að vera hérna. Ég er með 20 ár í starfsreynslu en nánast allir aðrir í minni deild eru með núll til þrjú ár. Það eru örfáar hræður þarna á milli.

G: Það sem ég er ósáttur við er að í tvö ár hafa tugir milljóna sem setja átti í stofnanasamninginn legið óhreyfðir hjá embættunum. Það fylgdi samningunum fjárupphæð en þessir peningar hafa ekki verið notaðir. Á meðan spara embættin sér starfsaldurshækkanirnar, sem búið er að afnema.

Flóknara að fá launahækkun

B: Þetta er orðið miklu flóknara. Við semjum við ríkið um pening til að setja í stofnanasamninginn en svo þurfa lögreglumenn að kría hækkanirnar út úr sínum yfirmönnum. Ef ég dreg hagvaxtaraukann og þetta þrep fyrir að vera með meiri starfsreynslu en tvö ár hjá LRH, þá er stofnanasamningurinn að skila mér færri krónum en upphaflegt krónutölutilboð ríkisins. Ég skil alveg uppleggið, að menn gætu unnið sig upp og hækkað í launum fyrir aukna ábyrgð og viðbótarmenntun, svo dæmi séu tekin, en ég upplifi samt blendnar tilfinningar. Ég vil að það komi skýrt fram að hluti stjórnar okkar vann að þessu. Þetta tók mikinn tíma og var mikið verk. En niðurstaðan er þannig að ég er ekki hoppandi kátur. 

G: Ég er einn af þeim sem er ábyrgur fyrir því að það tók 10 til 15 ár að gera nýjan stofnanasamning. Það var vegna þess að við áttum alltaf af borga hann. Peningurinn sem fór í samninginn var tekinn af þeirri upphæð sem við höfðum tryggt okkur til launahækkana. Það kom aldrei viðbótarfjármagn. Ég samþykkti að fara þessa leið, ekki fyrir sjálfan mig þar sem ég á átta ár eftir í starfi, heldur fyrir fólkið sem kemur á eftir mér. Það er þarna ákvæði um að persónubundnir þættir muni ekki geta leitt til hækkunar launa fyrr en búið er að vinna upp þá hækkun sem starfsaldurshækkun skilaði okkur sem eldri erum. Ég hef fyrir vikið engan möguleika á að njóta góðs af stofnanasamningnum. Ég hef raunar beðið í 10 mánuði eftir svari við beiðni um launahækkun á grundvelli samningsins.

Að hverju vill Landssamband lögreglumanna þá stefna í komandi kjaraviðræðum?

G: Staða okkar Baldurs er ólík. Ég er B-deildar lífeyrissjóðsmaður en hann er í a-deild. Hjá mér er aðalatriðið að grunnlaunin hækki. Allt sem hækkar grunnlaunin mín mun hjálpa mér þegar ég hætti. Við í b-deild fáum hlutfall af grunnlaunum þegar við hættum. Þeir sem eru í vaktavinnu borga í vaktasjóð en hann gefur mjög lítið. Í A-deildinni er borgað hlutfall af öllum launum. Ég myndi til dæmis vilja fá álagsgreiðslurnar á launaseðlinum mínum inn í grunnlaunin mín, ef ég væri bara að hugsa um mig.

B: Við þurfum núna að biðja um flata hækkun á töflu og pening inn í stofnanasamning. Svo þurfum við að fara á fund lögreglustjóra til að karpa um hvernig við ætlum að nota peninginn. Það er hellings vinna fyrir okkur og fulltrúa lögreglustjóranna að halda áfram með þessa vinnu og ná fram hækkunum.

G: Það er ergilegt að þurfa að vinna þessa vinnu fyrir lögreglustjórana – við sóttum þessa peninga. Við gáfum þá eftir af launahækkunum okkar. Þetta er sett inn á reikning sem þeir eiga að deila út. Svo lúra þeir á þessu eins og gulli.

Traðka á eigin réttindum

Lögreglunám var fært á háskólastig fyrir fáeinum árum og nú hafa fimm árgangar af menntuðum lögreglumönnum útskrifast. Enn er langur vegur frá því að hægt sé að segja að lögreglan sé vel mönnuð. Hvað er til ráða?

G: Nú skal ég þegja og leyfa Baldri að tala.

B: Ég sem lögreglumaður get ekki kvartað yfir álagi ef ég er á vakt að eigin vali 29-30 daga í mánuði. Ég á ekki að gera það að mínu vandamáli að lögreglan sé undirmönnuð. Ef ég mæti á vakt á eftir og við erum fjórir en þyrftum að vera átta, þá verður ríkið bara að fá fjögurra manna löggæslu í dag. En það er ekki nógu gott fyrir opinbera umræðu. 

Ástæða þess að það er til dæmis hægt að halda bæjarhátíðir og þjóðhátíð á hverju ári er að lögreglumenn mæta á vaktir í sumarfríinu sínu. Við höldum þessu gangandi með því að vinna of mikið. Guðmundur reddaði því til dæmis í sumar að það væri lögreglumaður á Þórshöfn. Hvers vegna fór lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra ekki bara austur á Þórshöfn og tilkynnti að vegna manneklu yrði engin löggæsla í sumar, því fólkið væri í fríi? Þetta er vandamál ríkisins, ekki okkar, og við reddum þessu endalaust.

Baldur heldur áfram og spyr áleitinna spurninga um vinnutíma.

Hvernig getur það til dæmis verið, með öll þessu fínu rafræni kerfi og vaktanir, að lögreglumaður geti unnið 331 klukkustund í einum mánuði, eða 11,5 stundir að jafnaði hvern einasta dag mánaðarins? Hvernig getur lögreglumaður unnið frá 7-19 og mætt svo aftur klukkan 23 og unnið til 7 um morguninn, án þess að nokkur geri við það athugasemd? Ég er búinn að benda á þetta á málefnalegan hátt, ómálefnalegan hátt og mjög málefnalegan hátt. Það er alveg sama hvernig ég bendi mönnum á þetta; þetta breytist ekkert.

G: Ég valdi að fara á Þórshöfn í sumarfríinu mínu vegna þess að það gefur ágætlega og ég nýt þess að fara út á land. Ég á alveg skilið skotin frá Baldri. Ég er enn að fara á milli embætti og leysa vanda sem upp kemur. En ég er ekki á þeim stað að brjóta hvíldartíma. Ég er ekki að traðka á sjálfum mér þar. Við þurfum að hafa í huga, þegar við vinnum allt of mikið, að við eigum forverum okkar í félaginu að þakka að þessi réttindi um hvíldar- og vinnutíma séu til. Við erum að gera lítið úr þeirri vinnu með því að brjóta þau. Það að ég hafi unnið á Þórshöfn í orlofinu mínu er brot á kjarasamningi. Ég hugsa stundum um hugtakið fyrirsjáanleiki þegar kemur að mönnun lögreglunnar. Á hverju ári kemur 17. júní á óvart, páskarnir koma á óvart, áramótin koma á óvart, menningarnótt kemur á óvart og þjóðhátíðin. Hvernig má þetta vera?

B: Ef það væri samstaða innan félagsins gætum við til dæmis valið að halda ekki þjóðhátíð. Það getur enginn skikkað okkur til að fara til Vestmannaeyja og vinna þar. Ég skil ekki enn hvernig hægt er að hafa ákvæði um að þú megir vinna 12 daga í röð. Ákvæði kjarasamnings segir að eftir sex daga skulir þú taka þér 11+24 tíma í hvíld, nema við sérstakar aðstæður. Þar er átt við ef jörð og himnarnir opnast. Þetta hefur verið túlkað þannig að sérstakar aðstæður í kjarasamningi séu stundum túlkaðar sem sérstakar aðstæður starfsmannsins. 

Stöður veittar án auglýsinga

Samtalið beinist að stöðuveitingum innan lögreglunnar. Guðmundur bendir á að hann sjálfur sé í stöðu sem ekki var auglýst. Baldur segir að allt of algengt sé að stöður séu ekki auglýstar innan lögreglunnar. Menn séu til dæmis iðulega látnir leysa einhvern af, sem svo snýr ekki aftur til fyrri starfa. Þá sé starfið orðið hans. Löngu síðar sé svo starfið auglýst, formsins vegna, og þá sé sá sem hefur gegnt því, kannski í tvö til þrjú ár, hæfastur til starfsins. Þeir félagar eru sammála um mikilvægi þess að farið sé að reglum.

B: Ég vildi sjá miklu meiri fagmennsku í þessum efnum. Ég sótti ekki um stöðu varðstjóra fyrr en ég sá hana auglýsta. Mig langaði kannski að verða aðstoðaryfirlögregluþjónn á einni stöðinni. En þar var settur inn maður, án auglýsingar. Ég efast ekkert um hæfi hans en ég vil fá tækifæri til að sækja um.

G: Stundum hefur maður séð auglýsingar þar sem maður veltir fyrir sér hvers vegna myndin af viðkomandi fylgi ekki auglýsingunni. Þetta gerist of oft.

B: Það gilda um þetta ákveðnar reglur sem ekki er farið eftir. Og það gerir enginn neitt í því. Félagið getur ekkert annað gert en að halda áfram að benda á þetta. Til að kvarta til umboðsmanns Alþingis þarf maður að vera aðili máls.

G: Menn velta fyrir sér hvað sé spilling. Við kvörtuðum einu sinni yfir því að félagi okkar hefði verið settur inn í stöðu án auglýsingar. Umboðsmaður sendi lögreglustjóra bréf og gaf honum frest til að svara. Þegar fresturinn var liðinn sendi ég bréf og spurði hvað væri að frétta. Þá var mér sagt að í millitíðinni hefði staðan verið auglýst, einn hafi sótt um að hann hafi verið skipaður. Auglýsingin hafði verið birt á pappír í Lögbirtingablaðinu, reglum samkvæmt. Engum innan þessarar einingar var gert viðvart um að staðan hefði verið auglýst til umsóknar. Hvar skorar svona hlutur þegar kemur að spillingu?

Hvenær er næsti Móri?

Samtalið berst að endingu að léttara hjali; félagslífi lögreglumanna. Þeir Baldur og Guðmundur stofnuðu fyrir mörgum árum saman hóp sem gengur undir nafninu Móralskur, eða Móri. Það er óformlegur vettvangur lögreglumanna til að hittast og gera sér dagamun utan vinnu. Baldur segir að stofnendur hópsins hafi verið um tíu talsins og árum saman hafi viðburðirnir verið afar vel sóttir. Á vettvangi Móra hafi menn úr öllum deildum hist og gert sér glaðan dag saman, óháð stöðu innan lögreglunnar. Baldur og Guðmundur eiga báðir kærar minningar af þessum viðburðum en ljóst er af samtalinu að undan starfinu hefur fjarað eftir því sem stofnendur hópsins hafa elst. Þeir skora á yngra fólk að taka af skarið. 

B: Við sem stofnuðum þetta vorum flest laus og liðug og þannig byggðist þetta upp. Nú hafa flestir í þessum hópi fest rætur og það líður lengra á milli viðburða. Maður fær af og til ping í símann, þar sem spurt er: „Hvenær er næsti Móri?“ Ég svara því til að Móri sé hjá fólkinu. Það er ekkert mál að halda Móra ef áhugi er fyrir því.

G: Við höfum haldið Móra, oft með engum fyrirvara. En við höfum líka haldið Móra á landsbyggðinni og alla vega einu sinni stóðum við fyrir „Styrktarmóra“ þar sem lögreglumenn mættu og létu fé af hendi rakna til styrktar- eða líknarsjóðs. Þetta snerist samt bara um að hittast og eiga gott kvöld. 

B: Það eru ekki nógu margir sem taka af skarið. Unga fólkið þarf að stíga upp.

G: Ég á mér reyndar draum sem tengist félagslífi lögreglumanna. Ég myndi vilja að lögreglu- og slökkviliðsmenn hittist einu sinni á ári eins og mótorhjólamenn hafa gert á annan í hvítasunnu, og haldi messu. Við eigum alveg tónlistarfólkið í þetta og hljótum að komast að í kirkju. Þetta þarf ekkert að vera trúarlegs eðlis en ég myndi vilja að við gætum átt góða stund saman, kannski í lok sumars, og fagna því saman að allir séu heilir á húfi eftir sumarið. Við þurfum, einn góðan veðurdag, að stefna á eitthvað svoleiðis. Það gæti orðið að fallegri stund.

Viðtalið birtist fyrst í Lögreglumanninum 2 tbl. 2022.

Til baka