Fréttir

Staða stofnanasamnings og ákvörðun LRH um ráðstöfun í desember til starfandi lögreglumanna

22 des. 2022

Samstarfsnefnd stofnanasamnings átti fund hinn 12. desember sl. Á þeim fundi voru niðurstöður skoðanakönnunar félagsmanna um afstöðu til stofnanasamnings m.a. kynntar. Sammælst var um að aðilar myndu gefa frekari innleiðingu samningsins tíma, skýra þurfi betur framkvæmd með fjárveitingar og ráðstöfun og aðilar munu hafa með sér enn virkara samtal um m.a. innleiðingu og framkvæmd samningsins heldur en verið hefur fram að þessu.

Með bókun 5 í kjarasamning LL og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs árið 2020 var ákveðnu fjármagni ráðstafað til virkjunar á stofnanasamningi. Landssambandi lögreglumanna er kunnugt um að vinna er yfirstandandi á embættum í tengslum við frekari innleiðingu og framkvæmd samningsins. Rétt er að nefna það sérstaklega að búið er að virkja stofnanasamninginn hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að hluta og verður þeirri innleiðingu haldið áfram á næstu misserum. Aftur á móti stendur hluti af því fjármagni sem ætlað var til virkjunar á stofnanasamningi hjá LRH óráðstafaður vegna ársins í ár.

Embætti LRH hefur ákveðið að verja því fjármagni sem eftir stendur óráðstafað í eingreiðslu að upphæð 75.000 kr.(að meðtöldu orlofi) til allra lögreglumanna í virku starfi hjá embættinu í desember.  Eingreiðslan mun koma til greiðslu í næstu launaútborgun, þann 30. desember.  Með þessu móti er LRH búið að standa skil á því fjármagni sem ætlað var til innleiðingar á stofnanasamningi síðast liðin ár. Vonandi kemur þessi eingreiðsla félagsmönnum vel.

Mörg mikilvæg verkefni á þessu sviði eru framundan og mun LL kappkosta við að halda félagsmönnum sem best upplýstum eftir því hvernig frekari vinnu embætta vindur fram.

Til baka