Fréttir

Ályktun stjórnar og trúnaðarmannaráðs Landssambands lögreglumanna 26. janúar 2023

26 jan. 2023

Í tilefni ákvörðunar dómsmálaráðherra um útgáfu reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna, sendir stjórn og trúnaðarmannaráð Landssambands lögreglumanna frá sér eftirfarandi ályktun:

Stjórn og trúnaðarmannaráð Landssambands lögreglumanna fagnar ákvörðun dómsmálaráðherra um útgáfu reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna. Hefur Landssamband lögreglumanna um langt árabil bent á nauðsyn þess að tryggja betur öryggi lögreglumanna í starfi og því er það sérstakt fagnaðarefni að núverandi dómsmálaráðherra skuli sýna mikilvægum hagsmunamálum lögreglumanna þann skilning sem raun ber vitni. Lögreglumenn eru sú starfsstétt sem býr við flest vinnuslys auk þess sem algengt er að lögreglumaður sé einn á vettvangi og þurfi að takast á við krefjandi og ófyrirséðar aðstæður þar sem langt er í aðra aðstoð.

Hlutverk lögreglu samkvæmt lögum er að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglu, greiða götu borgaranna og aðstoða þá þegar hætta steðjar að, ásamt því að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins. Er ákvörðun dómsmálaráðherra til þess fallin að skýra heimildir lögreglu og stuðla þar með að auknu starfsöryggi lögreglumanna og um leið auknu öryggi hins almenna borgara.

Til baka