Fréttir

Pistill: Hvatning á 1.maí

1 maí. 2023

Kæru félagar.

Til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins. Þó svo að við lögreglumenn höfum nýlega skrifað undir kjarasamning heldur baráttan fyrir bættum kjörum okkar áfram. Nýr kjarasamningur gildir aðeins til eins árs og því er undirbúningur að nýrri kjarasamningsgerð þegar hafinn. Ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar er á þann hátt að samningar um launahækkanir við kjarasamningsborðið duga ekki til einar og sér fyrir bættum kjörum og kaupmætti. Þrátt fyrir að vonir hafi staðið til þess að verðbólga færi lækkandi með vorinu hefur það ekki gengið eftir. Verðbólga er enn um 10% sem hefur mikli áhrif á kaupmátt.

Seðlabankinn hefur brugðist við með reglulegum stýrivaxtahækkunum sem í raun hafa aðeins gert stöðu launafólks enn verri þegar húsnæðiskostnaður og lán hækka stöðugt. Það er ljóst að mikil vinna er fram undan við að koma lagi á efnahag þjóðarbúsins. Þá vinnu verða stjórnvöld að leiða og beita öllum tiltækum ráðum til að draga úr verðbólgu lækka vexti.

Stjórnvöld hafa ýmis ráð í baráttu við ástandið. Nærtækast væri að bregðast við með aukinni skattlagningu á þá sem eru að græða á núverandi ástandi. Hægt væri að leggja hvalrekaskatt á tekjur sem fyrirtæki og fjármagnseigendur hafa fengið án þessa vinna fyrir þeim með nokkrum hætti. Í þessu ástandi er líka tímabært að hækka skatta og gjöld til þeirra sem hafa arð af auðlindum landsins og auðvitað á að skattleggja frekar stórgróða fjármálafyrirtækja. Með auknum tekjum gætu stjórnvöld varið stórauknu fé inn í svo kölluð tilfærslukerfi og hækkað þar skerðingarviðmið. Það þarf að hækka bæði vaxtabætur og barnabætur til einstaklinga. Þessi kerfi eiga ekki aðeins að nýtast allra lægsta tekjuhópnum heldur líka millitekjuhópum.

Þegar vaxtabyrgði fólks er orðin jafn há og raun ber vitni verða stjórnvöld að bregðast við með inngripum. Stjórnvöld eru þau einu sem hafa verkfærin til að ná niður verðbólgu og vinna bug á vaxtastigi sem er að bitna hart á okkur launafólki.

Nú um miðjan maí verður mikið álag á lögreglumenn um land allt þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins fer fram. Stjórnvöld treysta á krafta og farmennsku lögreglumanna eins og svo oft áður. Margir lögreglumenn hafi verið við auknar æfingar undanfarið sem hefur aukið við álag í starfi. Í næstu kjarasamningslotu munum við að sjálfsögðu halda þessu aukna álagi til haga til að undirstrika mikilvægi okkar. Við munum krefjast þess að okkur verði greitt miðað við álag og áhættu í okkar starfi. Margar vísbendingar eru í þá átt að starf lögreglumannsins sé að verða hættulegar en áður. Þetta er þróun sem við sjáum um alla Evrópu og er rætt hefur verið um að vettvangi evrópskra lögreglufélaga. Afbrot og afbrotamenn virða engin landamæri og krafa lögreglumanna um alla Evrópu er því að fá greitt miðað við ábyrgð og áhættu.

Ég hvet meðlimi Landssambands lögreglumanna að taka þátt í baráttufundum dagsins og nýta alla daga til að berjast fyrir bættum kjörum stéttar sinnar.

Fjölnir Sæmundsson formaður

Til baka