Fréttir

Kalla eftir nafnleynd við skýrslutökur

22 ágú. 2023

Lögreglumenn kalla eftir nafnleynd við skýrslutökur. Þeir hafa áhyggjur því að meiri alvara sé á bak við hótanir við handtökur og yfirheyrslur. Þetta kemur fram á vef Vísis þar sem rætt er við Fjölni Sæmundsson, formann LL. Rifjað er upp að nýlega hafi verið stungið á dekk, bílar rispaðir og að kveikt hafi verið í bíl lögrelgukonu fyrir utan heimili hennar. Það mál er að sögn Vísis á borði héraðssaksóknara.

Fjölnir segir í fréttinni að málið sé nær fordæmalaust en þó til marks um aukna hörku í störfum þeirra. Í þessu tiltekna máli hafi þótt nokkuð augljóst hver framkvæmdi verknaðinn. Haft er eftir formanninum að samhliða auknum vopnaburði upplifi lögreglumenn að meiri alvara sé á bak við hótanir sem komi fram við handtökur eða yfirheyrslur.

„Lögreglumenn hafa alveg lent í því í gegnum tíðina að það hefur verið stungið á dekkin á bílum og þeir rispaðir eða lyklaðir. Svo er þessi hótun „Ég veit hvar börnin þín fara í skóla eða hvar konan þín vinnur.“ Svo er alveg þekkt að það sé verið að keyra með áberandi hætti fram hjá húsi lögreglumanna,“ er haft eftir Fjölni.

Lögreglumenn reyni almennt að fela heimilisföng sín og persónuupplýsingar en kalli eftir frekari nafnleynd.

Fréttin í heild er hér.

Til baka