Fréttir

Formaðurinn kemur lögreglu til varnar

8 sep. 2023

Fjölnir Sæmundsson, formaður LL, áréttar í frétt á Vísi að lögregla sé ekki í neinni herferð gegn fólki á ADHD-lyfjum. Hann segir að ef aksturlag veki grunsemdir geti lögreglumenn ekki tekið fólk á orðinu þegar það framvísi lyfseðli. Lyfseðlar útiloki ekki notkun annarra lyfja. Hann bendir jafnframt á að lögregla sé bundin trúnaði um samskipti sín við fólk. Lögregla geti þannig ekki varið sig.

Frásögn hjóna úr Hveragerði hefur vakið athygli en fólkið ber að það hafi verið handtekið vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Amfetamín hafi fundist í blóði þeirra vegna ADHD-lyfsins Elvanse.

Fjölnir segir í fréttinni að lögreglan hafi einhfaldlega verið að vinna sína vinnu. „Þegar maður stoppar einhvern þá segist fólk oft vera á einhverjum lyfjum, þá já, þú ert á þessum lyfjum en það kemur ekki í veg fyrir að þú getir verið á einhverjum öðrum lyfjum eða tekið eitthvað annað þannig að lögreglumaður getur ekki, þó einhver sýni honum lyfseðil, bara sleppt honum.“

Nánar má lesa um málið hér.

Til baka