Fréttir

Fjallað um mönnun í lögreglunni

1 nóv. 2023

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, gerir í frétt RÚV athugasemd við tölur dómsmálaráðuneytisins um mönnun lögreglunnar. Í fréttinni segir að samkvæmt tölum ráðuneytisins hafi lögreglumönnum fjölgað á landinu í takt við fólksfjölgun.

Í fréttinni segir að starfandi lögreglumenn hér á landi séu 895, rúmlega 20 lögreglumenn á hverja tíu þúsund íbúa og það hlutfall hafi lítið breyst síðustu tíu ár. Hlutfallslega séu færri lögreglumenn á Íslandi en að meðaltali í Evrópu, þar sem rúmlega 33 lögreglumenn séu á hverja tíu þúsund íbúa.

Bent er á að síðustu 10 ár hafi ferðamönnum fjölgað mjög og auknar kröfur hafi leitt til þess að fleiri lögreglumenn sinni sérverkefnum.

Fjölnir lýsir yfir áhyggjum af stöðunni og segir tölur dómsmálaráðuneytisins villandi þar sem margir séu í hlutastarfi.

„Þetta eru ekki svona mörg stöðugildi, ég held að tölurnar séu kannski í rauninni verri en þetta og við sjáum líka ef við skoðum fjölgun lögreglumanna frá 2007, fjölda lögreglumanna á Íslandi, þá hefur hann í rauninni verið nokkuð svipaður. Kannski fjölgað í mesta lagi um 50, á meðan íbúafjöldi og ferðamenn hefur aukist mjög mikið. Maður hefur auðvitað mestar áhyggjur af þessu yfir sumarið en nú eru bara orðnir ferðamenn allan ársins hring.“

Frétt RÚV má lesa hér.

Til baka