Fréttir

Háskólanám gerir lögreglumenn að sérfræðingum

8 nóv. 2020

Lögreglunám á Íslandi var fært yfir á háskólastig fyrir fjórum árum. Námsfyrirkomulagið hefur verið að færast til betri vegar, að sögn forstöðumanns Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar.

„Í raun og veru var þetta miklu stærri breyting heldur en bara að færa námið úr Lögregluskóla ríkisins yfir í háskóla þar sem fólk sækir sér einingar. Þetta kemur til með að breyta menningu innan lögreglunnar frá a til ö.“ Þetta segir Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar, um tilfærslu á lögreglunámi yfir á háskólastig, sem gekk í gegn árið 2016. Ólafur segir að ef vel hefði átt að vera hefði meiri tíma verið varið til undirbúnings breytingarinnar og þróun námsbrautarinnar. Eftir ýmsa byrjunarörðugleika horfi námið til betri vegar. Mikið vatn hafi runnið til sjávar.

Fjögur ár eru síðan lögreglunám á Íslandi var fært yfir á háskólastig en veturinn 2013 til 2014 var allt lögreglunám á Norðurlöndunum komið á háskólastig, þó að Danir hafi reyndar nú fært nám sitt aftur í fagskóla frá háskólastigi. „Þetta varð til þess að hér óx áhuginn á því að fylgja í þeirra fótspor,“ útskýrir Ólafur. Hann segir að náið og gott samstarf hafi verið á milli ríkislögreglustjóraembættanna og norrænu skólastjóranna í löndunum og að vinnuhópar hafi verið skipaðir til að ræða þróun og samstarf á ýmsum sviðum. Árið 2014 hafi formlegur undirbúningur að breytingunni hér á landi hafist og starfshópur á vegum dómsmálaráðuneytisins hafi skilað skýrslu þar sem niðurstaðan var að færa ætti lögreglunám á háskólastig hér á landi. Annar hópur, sem starfaði 2015, hafi svo útfært hvernig að þessu ætti að standa. Í lok maí 2016 var svo samþykkt frumvarp á Alþingi, sem festi þetta í lög. Þann 1. júní sama ár var Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar stofnað, en setrið tilheyrir embætti ríkislögreglustjóra.

Ákveðið nánast fyrirvaralaust

Ólafur segir að ákvörðun um að hefja námið 2016 í Háskólanum á Akureyri hafi verið tekin tveimur vikum áður en námið átti að hefjast. Til samanburðar hafi Svíar gefið sér tvö ár í undirbúning og þróun námsins í Malmö, áður en nemendur voru teknir inn. Innan þessara tveggja vikna hafi 150 nemendur verið skráðir til námsins en menntasetrið hefur unnið með Háskólanum á Akureyri allar götur síðan að þróun námsins, samhliða öðrum verkefnum.

Námið í Háskólanum á Akureyri veitir ekki starfsréttindi eitt og sér, heldur er um að ræða diplómanám í löggæslufræðum; nám sem tilheyrir félagsvísindasviði. Um áramótin 2016 til 2017 hafi 50 nemendur úr þessum 150 manna hópi verið teknir inn í starfsnámið, sem ljúka þarf til að öðlast starfsréttindin. Þann hluta námsins annast Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu. Fyrstu þrjú árin voru að meðaltali um 50 nemendur teknir inn í starfsnámið en nú verða 40 nemendur teknir inn árlega.

Þeir nemendur sem komast að í starfsnáminu sækja nám hjá menntasetrinu í fjórar vikur á fyrsta ári og svo á aftur á haustönn á öðru ári. Í gegnum setrið fara nemendur einnig til lögregluembættanna og þurfa að ljúka þar um 220 vinnustundum í starfsþjálfun. Ólafur segir mikilvægt að þessum klukkustundum verði fjölgað, til að búa nemendur frekar undir það sem koma skal í starfi. Hann segir að þetta fyrirkomulag sé mikil breyting frá því sem áður var. Námið í Lögregluskóla ríkisins, sem áður hét svo, hafi verið með allt öðru sniði. Nemendur hafi verið í skólanum frá átta til fjögur auk líkamsræktar og verkefnavinnu. Nú þurfi verðandi lögreglumenn hins vegar meðal annars að ljúka kúrsum í félagsfræði og siðfræði.

Vilji til að lengja námið

Ólafur segir að innan Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar sé vilji til að lengja námið í þrjú ár, í takti við annað háskólanám og/eða lengja starfsþjálfun hjá embættunum. Þannig sé það víða á Norðurlöndunum. Innan þess þurfi starfsþjálfun að rúmast, en í Svíþjóð sé til að mynda krafa um sex mánuði í starfsþjálfun, þá í fullu starfi að háskólanámi loknu. „Við höfum sent inn tillögur um að lengja námið í þrjú ár en það mætti einnig búa til sex mánaða starfsþjálfun að loknu diplómanámi. Það getur verið óþægilegt að útskrifa fólk sem á að geta borði fulla ábyrgð í starfi eftir tveggja ára nám, án þess að fá mikla handleiðslu eða þjálfun frá starfandi lögreglumönnum,“ útskýrir hann og nefnir að starfsþjálfunin sé mikilvægur hluti ýmissa stétta svo sem hjúkrunarfræðinga. Hann bendir þó á að stór hluti þeirra sem núna eru í náminu starfi samhliða sem lögreglumenn í hlutastarfi.

Ólafur segir að námið sé orðið markvissara en það var í byrjun. Kostirnir við námið, miðað við það sem áður var boðið upp á er að um sé að ræða miklu víðari fagþekkingu. Nemendur séu auk þess nú farnir að læra sérhæfðari lögreglufræði en var á fyrstu árum námsins. Ókostirnir séu hins vegar ákveðinn ósveigjanleiki í námskrá auk þess hve tíminn sé knappur í starfsnámi og starfsþjálfun.

Hann bendir á að því fylgi ákveðnar hömlur að nemendur nemi fræðin í fjarnámi. „Lögreglunám er félagsmótandi ferli. Það getur verið erfitt að móta gildi og viðhorf verðandi lögreglumanna í fjarnámi. Það er mikilvægt að hafa samskiptaþáttinn og verklegar æfingar, eins og í öðru námi.“ Viðfangsefni lögreglu séu flókin og mikilvægt að geta rætt úrlausnir út frá siðferðislegum álitamálum, svo dæmi sé tekið. Hann nefnir að afgreiðsla lögreglumanna á vettvangi geti verið ólíkar eftir því hvort barn er á staðnum eða ekki. Slíka hluti þarf að vera hægt að ræða með ákveðinni nánd.

Orðin eins konar háskólastofnun

Ólafur segir að tilfærslan á lögreglunáminu yfir á háskólastig hafi verið umdeild á meðal starfandi lögreglumanna, mjög umdeild raunar. Hann segir að það megi hugsa sér að verið sé að breyta lögreglunni í ákveðið háskólasjúkrahús. „Það var ekki mikið pælt í því í byrjun, hvernig lögreglan ætti að breytast í slíka stofnun. Og þá á enn eftir að ræða þá hluti til enda.“ Hann segist ekki betur sjá en að einblínt hafi verið á þessa breytingu á menntuninni án þess að fylgja því eftir innan lögreglunnar. „Lögreglan er vanbúin varðandi fjármagn, til að breyta strúktúrnum hjá sér, til að mæta þessum breytingum.“ Hann nefnir að til að lögreglan geti staðið undir þessu nýja hlutverki sínu, að þurfi að koma til svigrúm innan hennar til rannsókna, gagnaöflunar og annarra þátta sem fylgi akademískum vinnubrögðum.

Lögreglumenn skrifuðu undir kjarasamning nýlega. Spurður hvort lögreglumenn njóti þess í launaumslaginu að hafa menntað sig svarar Ólafur því til að það hafi vantað. „Þetta hefur ekkert komið inn í launaumhverfið,“ segir hann og heldur áfram. „Sumir ljúka BA-prófi og aðrir meistaraprófi. Við erum með þessari breytingu að gera lögreglustarfið að sérfræðistarfi.“ Lögreglan hafi hins vegar aldrei greitt aukalega fyrir menntun. „Varðstjóri sem lauk námi hjá lögreglustjóra ríkisins og hefur starfað í 20 ár er á sömu launum og varðstjóri sem hefur meistarapróf í lögfræði. Þetta vigtar ekkert. Við þurfum að skoða hvernig framtíðarskipulagið á að vera hvað þetta varðar.“

Metaðsókn og mikil samkeppni

Eins og áður segir eru um 40 nemendur teknir inn í starfsnámið á hverju ári. Aðsóknin í lögreglunámið hefur aftur á móti aldrei verið meiri. Núna í haust sóttu 250 manns um námið en af þeim voru um 80 sem stóðust allar kröfur. „Þetta gerir það að verkum að við erum að fá mjög gott fólk,“ segir hann um stöðu mála. Af þessum 80 fær aðeins helmingur inngöngu í starfsnámið. Það er byggt á frammistöðu á fyrstu önninni við Háskólann á Akureyri, árangri á þrekprófi, sálfræðiprófi, ritunarprófi fyrir skýrslugerð og svo viðtali hjá inntökunefnd. Við þetta mun svo bætast ákveðið samskiptaverkefni, sem á að draga fram hæfni umsækjenda til að vinna saman. Hann segir fyrirmyndina hvað þetta fyrirkomulag varði sótta til Norðmanna og Finna.

Það eru því margir sem þurfa frá að hverfa um hver áramót. Ólafur segir að oft á tíðum sé lítill munur á milli þess sem er númer 40 í röðinni og 41 í Excel-skjalinu þar sem árangur fólks sé lagður saman. Með núverandi fyrirkomulagi sé óhjákvæmilegt að tíma margra sé sóað. Sumir flytji jafnvel á milli landshluta til að sinna náminu, eða segi upp vinnum. Í slíkum tilvikum sé blóðugt að komst ekki að. Hann segir mörg dæmi um að þeir sem ekki komist í starfsnámið reyni aftur síðar en að margir færi sig yfir á aðrar námsbrautir, eða hætti í námi.

Þetta stendur hins vegar til bóta. Frá og með næsta hausti, 2021, verða nemendurnir 40 valdir strax um haustið. Þeir sem ekki komist í þann hóp geti því farið í eitthvað annað, án þess að sóa tíma sínum og peningum. Ólafur segir að það verði mjög jákvætt skref. „Þróunin er því í rétta átt,“ segir hann um lögreglunámið. „Ég hefði að sjálfsögðu vilja að fyrstu tveir árgangarnir hefðu fengið meiri gæði í sínu námi. Ég held að þetta hafi verið mjög krefjandi tími fyrir þau en þetta er sem betur fer að breytast til hins betra.“

Hann segir ánægjulegt að finna fyrir svona miklum áhuga á starfinu. „Áhugi fólks er að aukast enda er lögreglustarfið heillandi og spennandi. En það er grjóthörð samkeppni um að komast að.“

Grein úr Lögreglumanninum / nóvember 2020.

 

Til baka