Fréttir

Staða kjaraviðræðna

24 mar. 2020

Eins og fram kom í frétt, hér á heimasíðu LL þann 13. mars s.l., var fjarfundi sem vera átti í liðinni viku í kjaradeildu LL og ríkisvaldsins frestað að beiðni Samninganefndar ríkisins, vegna óvissuástandsins sem skapast hefur vegna Covid-19 veirufaraldursins.  Ríkissáttasemjari hafði í lok viku 11 tekið ákvörðun um að einungis yrðu haldnir fjarfundir í óleystum kjaradeilum þar sem húsnæði Ríkissáttasemjara í Borgartúni 21 hafði verið lokað fyrir almennri umferð vegna faraldursins.

Á þessari stundu er ekkert vitað hvort eða hvenær nýr fundur verður boðaður og/eða haldinn í deilunni í þessari viku.

Auk LL eiga Tollvarðafélag Íslands, Félag starfsmanna stjórnarráðsins, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, auk fleiri félaga, enn eftir að ganga frá sínum kjarasamningum við ríkisvaldið.

Fræðsluefni vegna staðalgreina kjarasamninga:

Rétt er að benda félagsmönnum LL á að kynna sér vel og sérstaklega kynningarefni, sem er aðgengilegt á vef BSRB, vegna styttingu vinnuvikunnar bæði í dag- og vaktavinnu; breytingar í orlofsmálum; skil milli vinnu og einkalífs; jöfnun launa á milli markaða o.fl., sem sérstaklega var útbúið vegna þeirrar óvenjulegu stöðu sem uppi er í þjóðfélaginu og þeirrar staðreyndar að ekki var hægt að halda sérstaka kynningarfundi á vegum þeirra aðildarfélaga BSRB sem gengið hafa frá sínum kjarasamningum.  Hér er um að ræða svokallaðar staðalgreinar kjarasamningi, sem eru eins í samningum allra opinberra starfsmanna.

Uppfært miðvikudaginn 25. mars 2020:

Fjarfundur hefur verið boðaður í kjaradeilu LL og ríkisvaldsins föstudaginn 27. mars n.k., kl. 11:00.

 

Til baka