Fréttir

Svört skýrsla um lögreglunámið

27 mar. 2021

Háskólanum á Akureyri er ekki hægt að treysta nægilega vel til að halda úti lögreglunámi. Slíkar brotalamir eru í kennslu, skipulagi og framkvæmd námsins. Þetta er niðurstaða Gæðaráðs íslenskra háskóla, sem skilað hefur ríflega 100-síðna skýrslu um námið. Víða virðist pottur brotinn og óhætt er að segja að skýrslan sé svört.

Gæðaráðið segir að vegna þessara brotalama, sem ítrekað sé búið að gera athugasemdir við án þess að úrbætur hafi farið fram, sé ekki hægt að treysta því nægilega vel að Háskólinn á Akureyri hafi, og geti í framtíðinni, staðið undir akademískum kröfum sem þurfi til að halda náminu úti.

Ráðið segir að það sé mjög skýrt í samningi HA og Menntamálaráðuneytisins hvaða kröfur útskrifaðir lögreglumenn eigi að uppfylla, en ekki hvernig þeir eigi að læra í náminu til að uppfylla þær kröfur. Sett er út á ósamræmi varðandi námið og svo þann raunveruleika sem blasir við lögreglumönnum þegar þeir fara að vinna. Fram kemur að ekki hafi verið brugðist við mörgum af athugasemdunum sem gerðar hafa verið við námið, misalvarlegar.

Á vef Stjórnarráðsins, þar sem skýrslan er birt á ensku, segir að Háskólinn á Akureyri muni í framhaldinu skila umbótaáætlun til gæðaráðsins, sem fylgt verður eftir af hálfu ráðsins, dómsmálaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Sjá einnig: Breytingar á lögrelgumenntun: Hugleiðingar um þróun náms frá inntöku nemenda og út starfsferilinn – eftir Ólaf Örn Bragason, forstöðumann Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.

Til baka