Fréttir

Breytingar á reglum styrktar- og sjúkrasjóðs

8 mar. 2023

Stjórn LL staðfesti á fundi 6. mars sl. breytingar á reglum styrktar- og sjúkrasjóðs en stjórn sjóðsins hafði áður á fundi 28. febrúar fjallað um og gert tillögur um breytingar í fjórum liðum. Miða breytingarnar að því að stemma stigu við útgjaldaaukningu sjóðsins.

Er fyrst að nefna að réttur til sjúkradagpeninga þeirra sem starfað hafa í eitt ár eða lengur fer úr 180 dögum í 120 daga. Stjórn sjóðsins getur þó í sérstökum undantekningartilvikum lengt rétt sjóðsfélaga um allt að 60 daga og þar með í allt að 180 daga. Réttur til sjúkradagpeninga hjá þeim sem starfað hafa skemur en eitt ár er óbreyttur.

Í annan stað er heimild til að styrkja heilsueflandi námskeið felld út. Hefur stjórn LL staðfest framangreindar breytingar. Að öðru leyti eru reglur um styrki vegna þjálfunar, forvarna og fyrirbyggjandi aðgerða óbreyttar.

Tillaga um að fella út heimild til styrks vegna kaupa á tækjabúnaði til íþróttaiðkunar, en heimild þessi kom ný inn í reglur sjóðsins í kórónuveirufaraldrinum, og tillaga um að breyta ákvæði um breytingar á reglum sjóðsins náðu ekki fram að ganga og hlutu ekki staðfestingu stjórnar LL.

Nýjar reglur hafa nú verið staðfestar af stjórn LL og eru þær birtar á vefsvæði styrktar- og sjúkrasjóðs og öðlast þegar gildi.

Til baka