Fréttir

Stærsta verkefni íslenskrar lögreglu til þessa

7 des. 2023

„Ég held að íslenska stjórnkerfið, ráðuneytin og lögreglan, hafi náð að vinna gríðarlega vel saman að því að finna lausnir á öllum þeim ótal vandamálum sem við blöstu. Þarna voru auðvitað verkefni sem virtust óyfirstíganleg en náðust í höfn með góðri samvinnu. Við vildum líka að kostnaðaráætlanir okkar stæðust. Fyrsta áætlunin tók reyndar ekki miklum breytingum í gegnum ferlið. Það er ekki komið lokauppgjör því enn eiga einhverjir reikningar eftir að berast. Eins og þetta lítur út núna þá virðumst við hafa verið mjög nálægt þessu í okkar áætlunum. Okkar hluti kemur til með að verða rétt tæpur einn og hálfur milljarður.“

Þetta er á meðal þess sem Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn á öryggis- og greiningarsviði ríkislögreglustjóra, segir í viðtali í nýju tölublaði Lögreglumannsins um leiðtogafundinn sem haldinn var hér á landi í vor. Karl Steinar hafði tiltölulega nýlega tekið við embættinu í fyrrahaust þegar hann tók að heyra út undan sér að stór fundur yrði hugsanlega haldinn hér á landi. Upphafleg hugmynd gekk út á að hér myndu hittast utanríkisráðherrar ríkja Evrópuráðsins, sem vissulega kallaði á umfangsmikla lögregluaðgerð með tilheyrandi undirbúningi og skipulagi.

Karl segist hafa rétt verið byrjaður í að máta sig í hinu nýja starfi þegar verkefnið kom á hans borð, og það af fullum þunga. 

„Það var ekki fyrr en síðar um haustið sem við fengum staðfestingu á eðli þessa fundar. Það var í sjálfu sér ekki rætt við okkur sérstaklega um umfangið í fyrstu, enda held ég að þróunin hafi verið ör frá hugmyndinni um fund utanríkisráðherranna yfir í fjölmennan fund með helstu þjóðarleiðtogum. Okkur varð skjótt ljóst að þetta stefndi í að verða stærsta verkefni sem íslensk lögregla og stjórnkerfi hefðu tekið sér fyrir hendur,“ segir Karl.

Ítarlega umfjöllun í máli og myndum um þetta risavaxna verkefni má lesa í Lögreglumanninum.

Til baka