Fréttir

Viðtal: Köllunin er að þjóna almenningi

2 jan. 2024

„Ég hef ofsalega mikinn metnað fyrir lögreglunni og mér er mikið í mun að lögreglunni sé treyst. Lögreglan hefur mörg ólík hlutverk og er reyndar á meðal þeirra stofnana sem almenningur ber mest traust til, samkvæmt mælingum,“ segir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra í viðtali við Lögreglumanninn, sem kom út í nóvember. Birgir tók við embættinu árið 2021 eftir nokkuð fjölbreyttan feril innan lögreglunnar og utan.

„Ég held að það sé mikilvægt að gefa þeirri hugsun rými að innan lögreglunnar starfar mun fleira fólk en einkennisklæddar lögreglur. Þetta er af hinu góða. Lögreglan þarf kannski að passa sig á því að vera ekki of einsleit. Það getur til dæmis kallað á einsleitni að allir komi úr sömu átt og hafi svipaðan bakgrunn. Það er til dæmis almennt orðið viðurkennt að einsleitni í fjármálageiranum var áhrifavaldur í efnahagshruninu. Það varð of mikil hjarðhugsun. Við erum að tala um að þarna er mikið af fólki sem kemur úr sömu skólum, með svipaða menntun og áþekkan bakgrunn. Þetta getur verið hættulegt. Fjölbreytni er mikilvæg og við eigum að fagna henni. Lögreglan er þess vegna fjölbreytt í eðli sínu og þar eru fjölmargir sérfræðingar á öllum sviðum sem efla stofnunina,“ segir Birgir meðal annars í viðtalinu.

Birgir féllst á að setjast niður með blaðamanni og segja frá sjálfum sér, hvaðan hann kemur og hvaða sýn hann hefur á lögreglustörfin. Hann er Eskfirðingur sem byrjaði lögreglustörf í sumarafleysingum. Gekk svo menntaveginn en hefur allan tímann haldið tryggð við lögregluna, einkum vegna þess sem hann lýsir sem köllun til þess að þjóna almenningi.

Viðtalið, sem hefst á síðu 35, má í heild lesa hér.

Til baka