Fréttir

Breytingar á vaktkerfi alm.deildar LRH

2 apr. 2009

Í alllangan tíma hefur verið unnið að breytingum og hagræðingu innan embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.  Unnið hefur verið eftir skýrslu, sem gefin var út af yfirstjórn LRH þann 14. maí 2007 undir heitinu „Rekstrargreining – aðgerðir – áætlun“.  Í skýrslunni, sem og bréfi sem sent var dómsmálaráðuneytinu þann 24. apríl 2007 kemur fram að m.a. sé gert ráð fyrir sparnaði upp á kr. 75.000.000,- (krónur sjötíu og fimm milljónir) annaðhvort með niðurlagningu fimmvaktakerfisins eða verulegum breytingum á því.  Skýrsla þessi var unnin til að bregðast við rekstrarvanda embættisins sem er og hefur verið allnokkur allt frá sameiningu embættanna þriggja í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði í byrjun árs 2007.

Í ársskýrslu lögreglustjórans í Reykjavík fyrir árið 1998, en þá var fimmvaktakerfið tekið upp, kemur eftirfarandi fram varðandi breytingar á vaktkerfi lögreglunnar  „Eftir nokkurn undirbúning var ákveðið að breyta vaktkerfi lögreglu þannig að fimm vaktir yrðu á sólarhring í stað fjögurra áður og leitast þannig við að stytta vinnutíma lögreglumanna samkvæmt vinnutímatilskipun Evrópusambandsins.  Við undirbúning á þessari breytingu var tekið mið af því að ekki yrði tekið upp nýtt vaktkerfi fyrr en eftir sumarfrí en vegna vinnutímatilskipunarinnar var nauðsynlegt að taka fimmvaktakerfið í notkun nokkuð fyrr en áætlað var […]“.  “ […] Strax í upphafi var ljóst að töluvert vantaði af mannskap í almennri deild til að rekstur fimmvaktakerfisins gæti gengið með eðlilegum hætti þar sem gengið var út frá því að 25 lögreglumenn yrðu á hverri vakt eða 125 menn í allt, en þegar farið var af stað með vaktkerfið voru 104 lögreglumenn starfandi í deildinni.  Því var gripið til þess ráðs að láta lögreglumenn taka að sér aukavinnu.  Einnig voru ráðnir afleysingamenn og menntaðir lögreglumenn frá öðrum embættum og menn sem hætt höfðu störfum fyrir nokkrum árum fengust til starfa á ný.“ 

Engin breyting hefur orðið á vinnutímatilskipun Evrópusambandsins í þá veru að þær forsendur, sem nefndar eru hér að ofan fyrir upptöku fimmvaktakerfisins fyrir ellefu árum síðan, eigi ekki við í dag.  Nokkur vilji hefur verið til þess innan Evrópusambandsins að þrengja að túlkun vinnutímatilskipunarinnar gagnvart lögreglu og öryggisstéttum en slíkar þreyfingar hafa mætt mikilli andstöðu EUROCOP, sem LL er aðili að, og endanlega niðurstaða hefur orðið sú að hætt var við þær breytingar. 

Nánar má lesa um þau mál á vef EUROCOP https://www.eurocop-police.org/english/2008/08-12-16_strasbourg.htm

Engin samvinna var höfð við stéttarfélög lögreglumanna við ritun greiningarskýrslunnar, sem nefnd er hér að ofan.  Nú, þegar komið er að því að útfæra þær hugmyndir, sem kynntar hafa verið, um breytingar á vaktkerfi almennudeildar LRH hefur verið boðað til allmargra funda sem fulltrúar LR, FÍR og LL hafa setið ásamt fulltrúum yfirstjórnar LRH. 

Í upphafi var það kynnt, á fundi sem yfirstjórn LRH hélt í húsnæði BSRB við Grettisgötu, að til stæði að taka upp 12 tíma kerfi, tímabundið, til að brúa það bil, sem talið var að myndi skapast við að hrinda í framkvæmd þeim tillögum að koma á fót fimm sjálfstæðum lögreglustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.  Þessu mótmæltu fulltrúar LR, FÍR og LL harðlega og bentu á þá staðreynd að breytingar á vaktkerfum yrði að vinna í samvinnu við starfsmenn og engin leið væri að koma á 12 tíma kerfi nema með allsherjarkosningu þeirra starfsmanna sem vinna ættu skv. slíku kerfi.  Starfandi formaður BSRB, Árni Stefán Jónsson, sem jafnframt er formaður SFR, staðfesti þessa túlkun félaga lögreglumanna á öðrum fundi sem haldinn var, að frumkvæði LR í húsnæði BSRB, vegna þeirra breytinga sem kynntar hafa verið á starfsemi LRH.

Allmargir fundir hafa verið haldnir með fulltrúum LR, FÍR og LL með fulltrúum LRH þar sem þessar vaktkerfisbreytingar hafa verið ræddar og hafa fulltrúar félaganna mótmælt fyrirhuguðum vaktkerfisbreytingum harðlega og krafist þess að gengið verði til samninga við stjórn LR um vaktkerfismál.  Þá lögðu fulltrúar LR fram málamiðlunartillögu um að svokölluðum starfsdegi, sem er inni í fimmvaktakerfinu, yrði breytt í virkan vinnudag en þannig var talið að náðst gæti fram sparnaður upp á allt að kr. 40.000.000,- (krónur fjörutíu milljónir).  Í kjölfarið var undirrituð „viljayfirlýsing“ sem áðurnefndir fulltrúar lögreglumanna undirrituðu ásamt lögreglustjóra.  LR gekkst síðan fyrir kosningu meðal vaktavinnumanna hjá LRH þar sem hugur þeirra var kannaður til þess að breyta „starfsdeginum“ í virkan vinnudag.  Eftir því sem LL hefur fengið vitneskju um var tillagan samþykkt í kosningunni.

Nokkuð lengi hafa verið uppi hugmyndir um að koma á svokölluðu valkvæðu vaktkerfi þar sem vaktavinnumönnum gæfist tækifæri til að velja sér þá daga sem þeir vinna og eru í fríum í stað þess að vera í fyrirfram ákveðnum og föstum „vaktarúllum“.  Slík vaktkerfi þekkjast hjá lögreglu t.d. í Danmörku og eru einnig við lýði hjá nokkrum opinberum stofnunum hér á landi.  Mikil vinna – og væntanlega kostnaður – hefur verið lögð í útfærslu slíks kerfis fyrir LRH.  LR, FÍR og LL hafa ítrekað bent á það að slík vaktkerfi gangi ekki upp nema með ákveðinni yfirmönnun þar sem annars yrði ekki um valfrelsi vaktavinnumanna að ræða.

Í gær, miðvikudaginn 1. apríl, áttu formenn LR og LL fund með lögreglustjóra LRH þar sem honum var afhent bréf, sameiginlega undirritað af formönnum LR og LL.  Bréfið og fylgigögn má lesa hér.

LL hefur, margítrekað, bent á þá einföldu staðreynd að fjárveitingar til lögreglu í landinu séu af of skornum skammti og að viðvarandi undirmönnum sé farin að bitna verulega á starfsþreki lögreglumanna.  Það ástand sem hefur verið að skapast í þjóðfélaginu undanfarin misseri og náði hámarki sínu í „búsáhaldabyltingunni“ svokölluðu hefur ekki bætt úr skák og frekar aukið á rekstrarvanda lögreglunnar í landinu.

LL hefur bent á það að það hljóti að vera í hlutverki Alþingis og fjárveitingavaldsins að skilgreina það; a) öryggisstig sem þegnar þessa lands eiga rétt á að búa við, í kjölfar þess að skilgreina ítarlega verkefni lögreglu þ.e. það; b) þjónustustig sem lögregla á að halda út.  Þá fyrst væri kominn grundvöllur fyrir því að; c) ákvarða mannaflaþörf lögreglu og svo í framhaldi af því að; d) ákveða fjárveitingar til lögreglu í landinu byggðar á liðum a) – c).  Í dag virðist svo vera sem unnið sé frá öfugum enda þ.e. byrjað á lið d) og lögreglustjórunum síðan falið það verkefni að ákvarða liði a) – c) byggt á þeim þrönga fjárhagsramma sem þeim er skammtaður.

Yfirstjórn LRH hefur margítrekað verið gerð grein fyrir því, af formönnum LR, FÍR og LL að mikill órói og reiði sé meðal lögreglumanna vegna fyrirhugaðra breytinga á vaktkerfum almennrar deildar LRH og að óvarlegt sé að halda þessum breytingum til streitu í andstöðu við lögreglumenn.

LL lýsir allri ábyrgð á þeim rekstrarvanda, sem lögreglan glímir við, á hendur stjórnvalda þessa lands enda hefur sambandið, ítrekað, varað við niðurskurði og ónógum fjárveitingum til löggæslu í landinu.    

Til baka